20.04.1977
Neðri deild: 68. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3423 í B-deild Alþingistíðinda. (2411)

129. mál, járnblendiverksmiðja í Hvalfirði

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Það hefur ekki áður komið jafngreinilega í ljós eins og núna, hversu óvinsælt mál Grundartangaverk­smiðjan er. Þegar hv. formaður þingflokks Alþfl. kemur hér í ræðustól, loksins, loksins, til þess að láta ljós sitt skína um þetta mál, kemur hann þá ekki til þess að lýsa ágæti þessarar verk­smiðju og rökstyðja þar með þá afstöðu sína að styðja hana, eins og hann gerir og þeir flokksfélagar? Kemur hann ekki til þess að rekja sögu málsins og segja hverjum þetta er allt að þakka? Ef einhverjir alþb.-menn hafa komið við forsögu þessa máls, þessa ágæta máls, hlýtur þeim þá ekki að vera eitthvað að þakka?

Ég hygg að það sé ljóst flestum alþm. hvað gerst hefur. Eftir atkvgr. í gær, þegar í ljós kem­ur, að einn þingflokkur, þingflokkur Alþfl. er skilyrðislaust með þessu máli, og fregnir um það berast út til alþfl.-manna, þá eru tveir menn heldur en ekki teknir í karpúsið, formaður Alþfl. og formaður þingflokks Alþfl., — teknir í karp­úsið hjá sínum eigin flokksmönnum, sem spyrja: Hvað eruð þið eiginlega að fara? Hvað á þetta að þýða? — Og til þess nú að verða ekki sakaður um að hafa bókstaflega ekkert sagt í þessu stórmáli hleypur formaður þingflokks Alþfl. hér upp með gamlar fullyrðingar um þátt Magnúsar Kjartanssonar í þessu máli en hann er nú hvergi nærri til andsvara, af ástæðum sem allir vita. Formaður þingflokks Alþfl. gerir þetta ekki til að halda því fram að þetta sé að svo og svo miklu leyti Magnúsi Kjartanssyni að þakka. Tóninn í ræðu hv. formanns þingflokks Alþfl. er þessi: Þetta er svo og svo mikið Magnúsi Kjartanssyni að kenna. Ágæti þessa máls er hvergi finnanlegt í þessum mál­flutningi. Hitt er ljóst, að maðurinn er í vandræðum. Og þarna sitja hlið við hlið tveir brjóst­umkennanlegir menn, sakbitnir menn, formaður Alþfl. og formaður þingflokks Alþfl. Og svo gerir hann, formaður þingflokks Alþfl. gerir formanni Alþfl. þann bjarnargreiða hér áðan að minnast á framlag formanns flokksins til þessarar umr. En ræða hans hér í gær var með endemum.

Ég þarf ekki að eyða tíma mínum í það að svara fullyrðingum hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar um aðild Magnúsar Kjartanssonar að þessu máli. Það er rétt, að Magnús Kjartansson átti þátt í viðræðum við Union Carbide á sínum tíma. Fram að þeim tíma hafði ríkt það viðhorf og byggðist á fullyrðingum forustumanna Sjálfstfl. og Alþfl., að það væri ekki hægt að gera samninga við erlend fyrirtæki öðru vísi en að hinn erlendi aðili ætti meiri hluta. Hitt átti líka að vera vonlaust, að koma mætti yfir slíkt fyrir­tæki íslenskri lögsögu. Þessar fullyrðingar byggð­ust auðvitað á því, að þessir menn voru staðnir að því reginhneyksli, sem samningurinn við ál­verið var, og þurftu einhvern veginn að afsaka sig. Og þess vegna var hamrað á þessu: Það er ekki hægt að semja við auðhringana með öðrum hætti en þessum.

Magnús Kjartansson sannaði það hins vegar, þegar hann fór að ræða við auðhringa og m. a. Union Carbide, að þetta var hægt. Það var hægt að láta þá fallast á meirihluta aðild íslendinga. Og það var hægt að láta þá fallast á það, að fyrir­tæki, sem stofnuð væru í samlögum við þa, skyldu falla algjörlega undir íslenska lögsögu. Það eitt fyrir sig var mikill ávinningur, að ónýta í eitt skipti fyrir öll þær blekkingaröksemdir sem hafðar höfðu verið uppi af for­ustumönnum Alþfl. og Sjálfstfl. Blekkingaröksemdir, segi ég. Reyndar er ekki víst að það sé rétta orðið. Ég get best trúað því, að þessir menn hafi haldið að þetta væri ekki hægt. Og ástæðan til þess hefur að sjálfsögðu verið inngróin van­trú á mátt okkar íslendinga gagnvart erlendu valdi, — vantrú, sem eins og ég sagði hér við umr. í gær hefur því miður allt of miklu ráðið um örlög þessarar þjóðar á undanförnum ára­tugum.

Þær athuganir, sem Magnús Kjartansson lét fram fara, afsönnuðu fullyrðingar undansláttarmanna. En ég ítreka það sem hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði, að það er ósatt, það er hinn svívirðilegasti máflutningur, sérstaklega þar sem hann kemur frá manni eins og hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni, að alþb. sem flokkur hafi verið samþykkt þeirri afstöðu að semja við Union Carbide. Frá því að fyrst var á það minnst — svo ég segi nú um eigin afstöðu — frá því fyrst var minnst á þetta mál, þá barðist ég gegn því. Og ég get borið vitni um það hér að hin sama var afstaða Lúðvíks Jósepssonar.

Víkjum aftur að þessum tveim forustumönn­um Alþfl. sem þarna sitja. Staðan hjá þeim er þessi í dag: Þeir hafa fengið heldur en ekki áfell­is dóm úr röðum flokksbræðra sinna. Þeir eru komnir í hinn mesta vanda. Og hv. formaður þingflokksins kemur hér upp í dag til þess að ítreka vesældarlega afstöðu þessa flokks í þessu stórmáli með því að koma hvergi nærri því sem máli skiptir. Hér er komið að lokaafgreiðslu málsins í þessari deild og hv. þm. Gylfi Þ. Gísla­son kemur hvergi nærri því að rökstyðja af­stöðu síns flokks, heldur hleypur á bak við þessi gömlu bréf.

Ég held að af mörgum slæmum áföllum, sem Alþfl. hefur orðið fyrir að undanförnu, þá sé þetta einna verst.