27.04.1977
Neðri deild: 76. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3856 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

124. mál, símaafnot aldraðs fólks og öryrkja

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mitt erindi í ræðustól nú er í raun og veru einungis að taka mjög eindregið undir það sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi þetta mál. Þegar það var hér til umr. fyrir tveimur árum var ég einn af þeim sem studdu þetta mál, og þá var, eins og hér hefur komið fram, mikill vilji fyrir því meðal þingsins að þetta mál næði fram að ganga. Og mér finnst það í raun og veru algerlega óvið­eigandi að mál sem þetta skuli þurfa að koma hér upp á Alþ. aftur og aftur og það vera sam­þykkt, en síðan ekkert haft með framkvæmdina að gera. Þetta er enn eitt dæmið um það, að í þessu tilfelli hæstv. samgrh. og í öðrum til­fellum aðrir aðilar virða beinlínis að vettugi þann vilja sem Alþ. lætur í ljós í tilteknum mál­um. Og það er auðvitað óviðunandi fyrir þm. og þingið sem slíkt að ákvarðanir, sem Alþ. hefur tekið, skuli ekki vera framkvæmdar fyrr en eftir dúk og disk og þá kannske að meira eða minna leyti eftir geðþótta einhverra ákveð­inna einstaklinga.

Ég trúi því ekki að sú tregða, sem virðist vera á því að þetta mál fái framgang, sé neitt í tengsl­um við það, að hér sé um að ræða svo stórkost­legt vandamál eða mikið umfangsmál að það sé ekki hægt að hrinda því í framkvæmd á tiltölu­lega auðveldan, eðlilegan og fljótan hátt. Hér hlýtur eitthvað annað, að því er mér virðist, að vera valdandi að þetta hefur ekki náð þeim ár­angri sem Alþ. ætlaðist til á sínum tíma þegar það samþykkti það.

Ég vil, eins og ég sagði áðan, mjög taka undir þá gagnrýni sem komið hefur fram vegna þess framkvæmdaleysis sem hér um ræðir. Og mér hefði fundist langeðlilegast, af því að nú er orð­ið svo langt liðið á þinghaldið, að þessi þáltill. hefði verið borin undir atkv. án þess að fara til n. Það liggur fyrir viljayfirlýsing Alþ. í þessu efni. En ég skal ekki hafa á móti því að till. verði vísað til heilbr.- og trn., þ. e. a. s. verði það tryggt að málið verði tekið fyrir í þeirri n. og d. fengið það til ályktunar áður en þinginu lýkur þannig að málið geti fengið afgreiðslu. (Gripið fram í.) Já, þá ætti það að nægja. En mér hefði fundist sjálfsagt í fyrsta lagi, að þetta mál hefði ekki átt að þurfa að koma fyrir þingið aftur, og í öðru lagi hefði átt að vera hægt að afgreiða þetta mál án þess að það færi til n. En ég ítreka þá skoðun mína, að hér finnst mér hafa verið staðið illa að framkvæmdinni, því að það hlýtur að vera vilji alþm. að það, sem þeir ákvarða hverju sinni, sé framkvæmt í samræmi við það sem þeir álykta um í hverju tilteknu máli.