28.04.1977
Neðri deild: 77. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3885 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Flm. (Benedikt Gröndal):

Virðulegi forseti. Undanfarnar vikur hefur mikið verið rætt um öryggisaðstöðu á vinnustöðum, hollustuhætti verkafólks og önnur mál sem því eru skyld. Hefur það sérstaklega verið í sviðsljósi í sam­bandi við álverið í Straumsvík og væntanlega járnblendiverksmiðju. Í vinnsluleyfi því, sem járnblendiverksmiðjan hefur fengið frá heilbrrn., er komið inn á þessi mál og gerðar þar strangar kröfur. Í sambandi við þær umr. kom m. a. til tals hvernig best væri að tryggja eðlilegan íhlut­unarrétt starfsmanna á þessu sviði. Segja má að slíkur íhlutunarréttur sé einn þáttur af atvinnulýðræði, en þó sérstæður þáttur, og ef skoðanir eru skiptar um þátttöku starfsmanna í stjórnun fyrirtækja, þá tel ég að slíkur ágrein­ingur þyrfti varla að ná til aðildar þeirra að ráðstöfunum varðandi hollustu á vinnustöðum. Í lögum um verksmiðjuna er raunar gert ráð fyrir samstarfsnefnd og málum þessum skuli vísað til hennar enda þótt verkefni hennar nái langt út fyrir hollustu- og heilbrigðismál.

Nú hefur Alþfl. nokkrum sinnum flutt þáltill. þar sem lagt er til að lög um öryggisráðstafanir á vinnustöðum, sem fjalla m. a. um hollustu alla, verði endurskoðuð. Þessi lög eru 25 ára gömul. Þau voru mjög fullkomin á sínum tíma, en þeim hefur verið illa framfylgt hér á landi og framkvæmd þeirra verið langt frá því sem æskilegt og eðlilegt hefði verið. Þetta mál hafa verkalýðsfélögin nú tekið upp í samningum við atvinnurekendur, og skilst mér að samkomulag hafi náðst milli þessara aðila um að óska ein­dregið eftir því við ríkisstj. að þessi löggjöf verði hið bráðasta endurskoðuð, að það fari fram almenn úttekt á hollustu- og heilbrigðisháttum á vinnustöðum í landinu og fleira verði gert á þessu sviði.

Umr. um þessi mál í stóriðjufyrirtækjum urðu til þess að við alþfl.-menn töldum rétt að flytja frv. til 1. um breytingar á hinum aldarfjórð­ungsgömlu lögum um öryggisráðstafanir á vinnu­stöðum varðandi þetta atriði eitt, aðild verka­fólksins að hollustumálum. Ef þessi breyting yrði samþykkt, sem vel má gera því að búast má við að heildarendurskoðun taki 1–2 ár a. m. k., mundi það þegar í stað hafa þau áhrif að verka­fólk á öllum vinnustöðum yfir tiltekinni stærð fengi íhlutunarrétt á þessu sviði. Tel ég að það væri þýðingarmikið skref.

Í þessari löggjöf um öryggisráðstafanir á vinnustöðum er gert ráð fyrir trúnaðarmönnum verkafólks að því er varðar öryggis- og hollustuhætti. Þar stendur að heimilt sé að hafa slíka trúnaðarmenn. Í frv. okkar leggjum við til þá breytingu, að það verði skylt ef fyrirtæki hefur náð ákveðinni stærð, enn fremur að í stórum fyrirtækjum á okkar mælikvarða sé möguleiki á því að trúnaðarmenn geti verið fleiri en einn, sérstaklega þar sem um stór og deilda­skipt fyrirtæki er að ræða.

Í öðru lagi leggjum við til að settar verði upp í fyrirtækjum yfir tiltekinni stærð hollustunefnd­ir sem eigi að fjalla um öll þessi mál, eigi að fjalla um ráðstafanir sem ýmist er þörf á eða fyrirtækið hyggst gera til þess að auka hollustu á vinnustöðum, eigi að fjalla um vinnuslys og vinnusjúkdóma sem koma fyrir á vinnustöðum og gera till. um öll þessi mál. Í frv. okkar er ekki tilgreint hversu margir menn eigi að vera í þessum n. Það er samkomulagsatriði í hverri starfsgrein eða á hverjum vinnustað. Er gert ráð fyrir að tala nm. verði jöfn, en aðilar, verka­fólkið og atvinnurekendur, hafi formennsku í n. til skiptis. Verði atkv. jöfn ræður atkv. for­manns. Þetta þýðir í raun og veru að kerfið er látið ýta á eftir samkomulagi. Það er ekki verið með þessu að stilla verkafólkinu og at­vinnurekendunum eða fyrirtækjunum upp hvoru á móti öðru varðandi öryggis- og heilbrigðis­mál, heldur er kerfið til þess að kalla fram sam­komulag. Það tel ég vera farsælast, og reynslan hefur sýnt annars staðar að ástæða er til að gera sér vonir um að með fáum undantekningum geti slíkt samkomulag orðið á vinnustöðum. Atvinnurekendur í nágrannalöndum hafa yfirleitt sýnt þessum málum skilning, og þeim er ljóst að það er hagsmunamál fyrir fyrirtækin sjálf að hollusta og öryggi verkafólksins sé í sem bestu lagi.

Ég ítreka að hér er eitt atriði tekið út úr þessum málum og lagt til að löggjöfinni um öryggismál sé að því leyti til breytt strax. Atriðið er ákaflega einfalt efnislega og ættu þm. ekki að þurfa umhugsunartíma til þess að gera upp hug sinn ef þeir hafa ekki ákveðna skoðun nú þegar á þessum málum. Ég tel að það mundi fljótlega verða til bóta, skapa möguleika á því að bæta samstarf verkafólks og fyrirtækja, auka áhuga á hollustu og öryggi ef þetta skref yrði stigið.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. félmn.