28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3887 í B-deild Alþingistíðinda. (2889)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Ég hygg að flestir hv. þm. muni geta stutt það frv. sem hér er til umr. Það er að sjálfsögðu til bóta að verkalýðurinn fái aukin áhrif á sínum vinnustöðum. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frv.

En ég kem hér í ræðustól líka til þess að gera aths. við nokkur orð í framsöguræðu hv. l. flm. Hann sagði réttilega að þessi mál öll, öryggisráðstafanir á vinnustöðum, hollustuhættir o. s. frv., hafi verið mjög til umr. nú að undanförnu í sambandi við stóriðjumálin. En hann lét einn­ig þau orð falla, að í starfsleyfi því, sem Grundartangaverksmiðju væri veitt, væru gerðar „strangar kröfur“ í þessum efnum. Ég hygg að hv. þm. Sigurður Magnússon hafi sýnt fram á það við umr. um Grundartangaverksmiðju hér um daginn, að það er síður en svo. Þar vantar mikið á.

Ég minni líka á það, að hv. 1. flm. þessa frv. lét það nægja um mengunarþátt þessarar til­vonandi verksmiðju á Grundartanga, að hann hefði sannfærst um það í símtali við forstöðu­mann Heilbrigðiseftirlitsins að hann væri hæst­ánægður með niðurstöður í starfsleyfi heilbrrn. Ég hef ástæðu til að ætla að þessi embættis­maður sé síður en svo ánægður með slíkar full­yrðingar. Ég hygg að bæði hv. þm. Benedikt Gröndal og hv. þm. Ingólfur Jónsson hafi fullyrt miklu meira varðandi ummæli þess manns heldur en ástæða er til. Og ég spái því, að ýmislegt eigi eftir að koma fram sem sanni þetta.

Ég minni líka á það, að þegar hv. þm. Sigurður Magnússon hafði rækilega kynnt sér ágalla varðandi mengunarvarnir í væntanlegri Grundartangaverksmiðju, þá lét hv. þm. Benedikt Gröndal nægja þá aths., að þetta væri „sparðatíningur“ og ekkert annað.

Um leið og ég fagna þessu frv. þeirra alþfl.­manna, þá get ég ekki látið hjá líða að vekja athygli á þessum staðreyndum sem ég tel að beri vott um óheilindi. Og sérstakri furðu lýsi ég yfir þeim ummælum hv. þm. Benedikts Gröndals hér áðan varðandi atvinnufyrirtæki, og þá á hann að sjálfsögðu líka við stóriðjufyrirtækin, að þau muni telja það til sinna hagsmunamála að holl­ustuhættir og mengunarvarnir séu í besta lagi. Drottinn minn dýri! Er það t. d. reynslan frá Straumsvík? Er það reynslan að það fyrirtæki telji það hagsmuni sína að hollustuhættir séu sem bestir? Ég veit ekki betur en reynslan sanni það, að þeir, sem stjórna því fyrirtæki, telji allt eftir, sem horfa má til hóta á því sviði, og hafi þrjóskast við árum saman að uppfylla kröfur um sjálfsögð hreinsitæki.