28.04.1977
Neðri deild: 78. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (2894)

221. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Jónas Árnason:

Virðulegi forseti. Áður en ég svara ræðu hv. þm. Benedikts Gröndals, for­manns Alþfl., þar sem hann var að lýsa frammi­stöðu sinni og annarra alþfl.-manna í stóriðju­málum, vil ég þakka hæstv. forseta fyrir að benda mér á að orðið „labbakútar“ er ekki þing­legt orð.

Fyrst fáein orð um ræðu hv. þm. Ingólfs Jónssonar.

Já, það er sannarlega gott að allar ræður, sem hér eru fluttar, fara á segulband, þ. á m. sú fullyrðing hv. þm., að Heilbrigðiseftirlitið hafi lýst því yfir að starsleyfi heilbrrn. væri „gott“, það væri „gott og viðunandi á allan hátt.“ Það er ágætt að þetta skuli komið inn í þskj. Þar er hægt að ganga að því þegar við gerum upp þetta deilumál, hvort þessi hv. þm. hafi fullyrt of mikið eða ekki þegar hann vitnaði í ummæli forstöðumanns Heilbrigðiseftirlitsins. Við ger­um það ekki upp hér, en „það kemur á daginn“, eins og hann sagði, það kemur á daginn hvor okkar hefur á réttu að standa. Það kemur á daginn innan skamms.

Það, sem hefur verið að gerast í iðnn. Ed. þar sem verið er að fjalla um Grundartangaverksmiðjuna, sýnir það og sannar að ég fer með rétt mál. En það kemur líka á daginn ýmislegt fleira þegar opinberlega verður greint frá þeim umr. sem undanfarna daga hafa átt sér stað í iðnn. Ed.

Ég ætla ekki að fara út í ástæðurnar fyrir þeim ósköpum að þessi rósemdarmaður skuli allt í einu viðhafa orðbragð af því tagi sem hann gerði hér áðan út af þeirri aths. minni, að hann hefði gerst sekur um hæpinn málflutning varðandi ummæli forstöðumanns Heilbrigðiseftir­litsins. Þetta væri „óþverri“, „viðbjóðslegur mál­flutningur“ og „ógeðslegar getsakir“ í annarra garð.

Þessar „ógeðslegu getsakir“ beindust að þeim sem stjórna álverinu í Straumsvík. Að maður skuli leyfa sér að væna slíka sómamenn um að þeir séu ekki alltaf að hugsa um hag þess fólks sem hjá þeim vinnur! Fyrr má nú vera ósvífnin eftir reynsluna sem fengin er af þess­um mönnum!

Það er ekki langt síðan hæstv. heilbrrh. gaf hér skýrslu sem sýndi hver umhyggjan er. Atvinnusjúkdómar af versta tagi eru orðnir algengir, menn eru með alls konar alvarlega lungnakvilla, 70–80% af þeim sem vinna þarna, meira og minna skaddaðir á heilsu. Og nauðsynlegar ráð­stafanir til þess að fyrirbyggja mengunina eru ekki gerðar þrátt fyrir marggefin loforð. „Ógeðs­legar getsakir“, segir þessi hv. þm. Ég læt ósagt hvaða lýsingarorð séu best við hæfi varðandi málflutning hans og fleiri slíkra um Straums­víkurverksmiðjuna. Það nær að mínum dómi ekki nokkurri átt hvernig þessir menn haga sér. Þeir eru óðar roknir upp til þess að bera blak af þeim sem stjórna þessari verksmiðju, strax og orði hallar í þeirra garð. Ég hef ekki heyrt þennan hv. þm., þrátt fyrir allar staðreyndir sem fyrir liggja, aldrei nokkurn tíma heyrt hann áfellast stjórnendur Straumsvíkurverk­smiðjunnar fyrir eitt né neitt. Hins vegar ræðst hann á okkur og heldur en ekki af gassa, — á okkur sem leyfum okkur að gagnrýna stjórnend­ur Straumsvíkurverksmiðjunnar og það alþjóðlega auðvald sem hana rekur. Nei, ég ætla ekki að velja slíkri framkomu lýsingarorð. Og allra síst mundi ég tengja slík lýsingarorð nafnorðum eins og íslendingar.

Hann talaði um það, hv. þm., að sá væri „aumur stjórnandi sem ekki léti sér annt um það fólk sem vinnur hjá fyrirtæki hans“. Það er m. ö. o. trygging fyrir því, að maður láti sér annt um verkalýðinn og vilji honum allt gott, að viðkomandi sé t. d. forstjóri fyrir Straumsvíkurverksmiðju eða einhverju álíka! Verkalýðssagan öll, saga iðnaðar á Vesturlönd­um, sannar hið gagnstæða. Iðnfyrirtæki af því tagi, sem við erum að ræða hér um, hafa yfir­leitt fengið orð á sig fyrir að sinna í engu hagsmunum þess fólks, sem vinnur hjá þeim. Það hefur yfirleitt ekki verið látið við það eitt sitja að synja þessu fólki um sjálfsögðustu ráðstaf­anir varðandi hollustuhætti, heldur hefur verið níðst á því í kaupi og það beitt vinnuþrælkun. Frásagnir frá þessum iðnvæddu ríkjum eru ein átakanleg löng saga um meðferð vinnuveitenda á verkalýð. Það er fáránlegt að kasta fram full­yrðingu eins og þessari og vægast sagt hæpin heimspeki: „Aumur er sá stjórnandi sem ekki lætur sér annt um það fólk sem vinnur hjá fyrirtæki hans.“ Það fylgdi með, að allir stjórn­endur hlytu þar af leiðandi að vera góðir menn! Nei, að dómi þess auðvalds, sem stendur að þess­um fyrirtækjum, er sá góður stjórnandi sem sparar allt, sem til framfara má horfa fyrir verkalýðinn, og sér um, að gróði þeirra, sem verksmiðjurnar eiga, verði sem allra, allra mest­ur. Þar stendur hnífurinn í kúnni. Hvers vegna eru t. d. ekki sett upp fullkomin hreinsitæki í Straumsvíkurverksmiðju? Það er einfaldlega vegna þess að það kostar of mikið. Það auðvald, sem á þá verksmiðju, neitar að borga. Og sú mun líka verða reynslan uppi á Grundartanga þegar þar að kemur. Það mun í lengstu lög verða þrjóskast við að gera það sem nauðsynlegt er til þess að tryggja hollustuhætti og öryggi þess fólks sem þar á að vinna.

Tókuð þið eftir því, hvað formaður Alþfl., hv. þm. Benedikt Gröndal, sagði hér áðan? Fyr­ir þessu þingi lægi till. frá alþb.-mönnum um það að gera 600 manns atvinnulausa! Það fer ekkert á milli mála hvaða till. þetta er. Það er till. frá hv. þm. Sigurði Magnússyni og Eðvarð Sigurðssyni þess efnis, að ef Straumsvíkurverk­smiðjan uppfylli ekki þau skilyrði sem sett hafa verið um hollustuhætti, mengunarvarnir, ef hún verður ekki búin að koma upp hreinsi­tækjunum marglofuðu innan árs, þá skuli henni lokað. Það fer ekki á milli mála hvorum megin hv. formaður þingflokks Alþfl. stendur í þessu máli. Þegar að því kemur að knýja á um efndir eða láta undan þessu auðfyrirtæki, þá mun hann láta undan. Aðalatriðið er ekki atvinna 600 manns. Aðalatriðið er heilsufar þessa fólks. En það fer ekki á milli mála hvorum megin hv. þm. stendur í þessum átökum þegar til kastanna kemur. Í staðinn fyrir að standa hér upp, berja í borðið og segja: „Þetta er góð till., henni skulum við framfylgja hvað sem það kostar“ — þá er hann þegar búinn að lýsa því yfir, að hann muni ekki standa að því að fram­fylgja þessari kröfu. Ef svo fer sem í till. er lagt til, að verksmiðjunni verði lokað, þá er ætlunin að spretta upp og hrópa: „Sjáið þið! Alþb.-menn eru að svipta 600 manns atvinnu sinni.“ En það, sem vakir fyrir alþb.-mönnum, er einfaldlega að tryggja þessum mönnum sæmi­lega heilsu.

„Innrætið leynir sér ekki“, segir hv. þm. varðandi málflutning okkar alþb.-manna. Ég held að við ættum að taka okkur saman um það, hv. þm. Benedikt Gröndal. að opinbera innræti okk­ar rækilega gagnvart kjósendum okkar. Hv. þm. lét þau orð falla, að Jónas Árnason hefði aldrei verið ,,alvöruþm.“ Ég vil nú beina því til hv. þm. Benedikts Gröndals, að hann komi með mér á fund uppi á Leirá eða einhvers staðar í ná­grenni við Grundartanga og ræði þessi mál. Hann getur þá t. d. gert því fólki, sem ónógar meng­unarvarnir munu mæða mest á, grein fyrir því, hversu vel hann hefur verið á verði fyrir þess hönd. Og hann getur gert því grein fyrir ýmsu öðru.

Ég beini þessu til hans vegna þess, að á fundi, sem við héldum þm. Vesturl. í fyrradag, var hann ekki viðstaddur. Ég veit ekki hvort hann hefur skrifað undir það skeyti sem sent var upp eftir til þess að boða hreppsnefndirnar á fund hér úti í Þórshamri á laugardaginn kemur. Hafi hann gert það, þá verður hann a. m. k. tepptur kl. 4 á laugardaginn. En ég vona að við getum fundið einhvern annan tíma, Benedikt Gröndal, til þess að ákveða almennan fund þar efra og ræða þessi mál sem tveir „alvöruþing­menn“.