29.04.1977
Efri deild: 75. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 3986 í B-deild Alþingistíðinda. (2966)

194. mál, atvinnuleysistryggingar

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. frá meiri hl. heilbr.- og trn. rita ég undir nál. með fyrirvara. Á sínum tíma, þegar lögin um fæðingarorlof voru af­greidd hér frá Ed., flutti ég ásamt hv. þm. Axel Jónssyni, Stefáni Jónssyni og Jóni Árm. Héðins­syni svo hljóðandi dagskrártillögu:

„Þar sem í till. heilbr.- og trn. þessarar hv. d. er lagt til að lög þessi komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 1976 og með tilvísun til þess, að lagaákvæði þessi þurfa nánari athugunar við, samþ. deildin að fela ríkisstj. að semja frv. til l. um málið, er verði lagt fram í upphafi næsta reglulegs Alþ., og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í framhaldi af þessum tillöguflutningi var flutt till. um að inn í frv., sem þá var flutt, kæmi ákvæði til bráðabirgða, þess efnis, að ríkisstj. láti kanna á hvern hátt megi veita öll­um konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof og tryggja tekjustofn í því skyni. Þess var farið á leit við okkur flm. dagskrártill. að draga okkar till. til baka í framhaldi af þessari till. um ákvæði til bráðabirgða. Við töldum hins vegar, að þessi till. um ákvæði til bráðabirgða væri ekki fullnægjandi, og drógum till. okkar ekki til baka. Okkur var ljóst þá, að þessi löggjöf mundi valda Atvinnuleysistryggingasjóði verulegum vandræðum, þar sem ekki var hugað að því að tryggja Atvinnuleysistryggingasjóði fjármagn í þessu skyni, og það hefur sannast í þessu máli, að fyrirhyggjan var lítil og í slíkum mál­um verða eftirköstin venjulega mikil og slæm.

Ég vil því aðeins ítreka það, að ég var mótfallinn þessari skipan mála á sínum tíma, og ég tíma í þessari deild. Alþ. hlýtur að gera þá kröfu er það ekki síður í dag. Hins vegar vil ég ekki leggja stein í götu þess, að ákveðnar leiðrétt­ingar eigi sér stað, en hlýt jafnframt að lýsa yfir vonbrigðum mínum og undrun hversu lítið hefur verið unnið að málum í samræmi við ákvæði til bráðabirgða sem samþ. var á sínum tíma í þessari deild. Alþ. hlýtur að gera þá kröfu til ríkisstj., að það verði eigi lengur dregið að skila málinu til Alþ. í samræmi við þetta ákvæði. Það hefur oft áður verið rakið, hvers vegna þetta ákvæði til bráðabirgða var samþ. Það var fyrst og fremst vegna þess, að það eru ýmsar konur til sveita og annars staðar sem njóta ekki þessara sjálfsögðu réttinda, og Alþ. hlýtur að gera þá kröfu að ríkisstj. vinni að þessu máli í samræmi við samþykkt hér á Alþingi.