30.04.1977
Efri deild: 80. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4029 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

Umræður utan dagskrár

Halldór Ásgrímsson:

Forseti. Mér hafa fundist þessar umr. vera gagnlegar. Ég hef litið svo á að það væri e. t. v. mesti veikleiki Alþingis íslendinga að það er fremur lítill skilningur almennt á því, hvaða störf hér fram fara, og það gengur ekki nægilega vel að koma fréttum af störfum þingsins til þjóðarinnar. Ég held að þetta sé almennt vandamál, og ég held að það væri rétt að forsetar þingsins tækju þetta til sérstakrar athugunar, á hvern hátt verði best tryggt að þjóðin geti fylgst með störfum þingsins og þau störf séu túlkuð á sanngjarnan máta fyrir þjóðinni. Ég býst við að það sé mikið verk að kanna slíkt mál, og ég hygg að það væri rétt að hér starfaði sérstakur maður, sérstakur blaða­fulltrúi við þingið til þess að tryggja að þessi þáttur sé í góðu lagi, því að þessi þáttur er gífur­lega mikils virði fyrir þingið og hefur mikla þýðingu fyrir störf þingsins, þ. e. a. s. að fréttir héðan séu bæði ítarlegar og sanngjarnar og komi þannig fyrir þjóðina.

Hitt er svo annað mál, að mér finnst það hins vegar nokkuð þyngslalegt, ef á að þurfa að vera sá háttur á, að það þurfi að biðja leyfis í hvert skipti sem einhver setning er höfð eftir þm. (StJ: Ekki höfð eftir, tekin beint úr munni hans.) — eða tekin beint úr munni hans. Ég held að það sé nokkuð þyngslalegt. En hitt er svo annað mál, að þetta er vandmeðfarið og gerir þær kröfur til viðkomandi aðila, að það sé bæði rétt farið með og hlutir séu ekki slitnir úr sam­hengi. En ef á að fara almennt út í það að spyrja hvern einstakan þm. að því, hvort megi hafa þetta og þetta eftir honum, þá er ég hræddur um að fréttaflutningur héðan verði þyngslalegur. Og það er nú svo, að störf á Alþ. eiga að vera opin fyrir þjóðinni og það á ekki að þurfa sérstakt leyfi til. En ég vil endurtaka það, að það gerir þær kröfur að þetta starf sé vel skipulagt.

Ég vil sem sagt endurtaka það og ítreka, að það fari fram sérstök könnun á því, á hvern hátt verði best tryggt að þjóðin fái ítarlegar og sann­gjarnar fréttir af störfum þingsins, og þar með verði reynt að vekja meiri áhuga meðal þjóðar­innar fyrir störfum Alþingis.