02.05.1977
Neðri deild: 85. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 4151 í B-deild Alþingistíðinda. (3194)

21. mál, leiklistarlög

Ragnhildur Helgadóttir:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem hér hafa farið fram, vil ég taka fram, að mér þykir það galli á þessu máli hjá okkur að hv. 5. landsk. þm. skuli draga þessa ágætu till. til baka. Ég er hv. þm. og meðflm. hennar hjartanlega sammála. Eins og hv. þdm. glöggt heyra á máli hæstv. ráðh., þá er nú ekki alveg ljóst að nauðsynlegt sé að í þessum lið, I í 4. gr., standi að leiklistarráð skuli stuðla að stefnumótun í leiklist. Til þess að þetta orðalag greinarinnar skiljist þarf sérstakar skýringar sem í raun og veru koma hvergi fram í því þskj. sem við höfum undir höndum. Slíkt orðalag á lagagr. finnst mér að við eigum ekki að samþykkja.

Hins vegar er ég engan veginn mótfallin því, og það liggur raunar í hlutarins eðli, að hlut­verk leiklistarráðs hljóti að vera vettvangur um­ræðna um leiklistarmál. Hvort það þarf nauðsynlega að vera vettvangur skoðanaskipta skal ég ósagt láta. En fyrst þessi till. er dregin til baka, þá vil ég leyfa mér að flytja skrifl. brtt. við þessa gr. sem hljóðar svo, hún er við 4. gr.: „Liður I orðist svo:

Að vera vettvangur umr. um leiklistarmál.“ Ég leyfi mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till. sem er skrifl. og of seint fram komin.