11.11.1976
Sameinað þing: 18. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í B-deild Alþingistíðinda. (380)

28. mál, samkomulag um veiðar breskra togara

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Í umr. um samkomulag um veiðar breskra togara nú loksins þremur vikum fyrir lok tímamarkanna hér á hinu háa Alþ. hefur það komið í ljós, að verulegar líkur eru á því að áframhald verði á veiðum breskra togara eftir 1. des. n.k. Von mín var sú og að ég tel þúsunda annarra landsmanna að þessir samningar tryggðu endalok á veiðum breta hér við land fyrir fullt og allt. Á þeirri forsendu einni var ég jákvæður um stuðning við samkomulagið og fór ekki dult með það utan Alþ. og nú í umr. hér áður. En þar sem það er staðreynd, að í dag koma fulltrúar Efnahagsbandalagslandanna til þess að hefja samningaumleitanir á ný og ráðh. þeir, sem talað hafa í þessum umr. ekki lýst yfir skorinort að alls ekki yrði samið áfram við breta eða Efnahagsbandalagið fyrir þeirra hönd, tel ég samkomulagið ekki tryggja það, sem afstaða mín byggðist fyrr á, og segi því nei.