18.11.1976
Sameinað þing: 22. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 706 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

48. mál, litasjónvarp

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að taka þátt í þessum umr., einkanlega vegna þess að ég held að bað hljóti að vera augljóst mál að meiri hl. Alþ. hlýtur að taka það til alvarlegrar athugunar og án fordóma með hvaða hætti unnt sé að koma litasjónvarpi á hér á landi, gera það að eign alls almennings, og ekki síður og kannske fyrst og fremst hitt. að ákveða hvernig hægt sé að fullkomna dreifitæki sjónvarpsins og einnig Ríkisútvarpsins. Og ég tek undir það með hv. 5. hm. Vestf., að það er okkur íslendingum til vansæmdar í þessum efnum að við skulum ekki fyrir löngu hafa gert ráðstafanir til þess að sjónvarpssendingar næðu til fiskiskipaflotans. Þetta er mál sem hefur verið rætt áður í þessum þingsölum. Ég hef m.a. tekið þátt í þeim umr. og ég álít að sé eitt af þýðingarmeiri menningarmálum okkar að láta sjómenn okkar njóta þar jafnréttis við aðra.

En það, sem olli því að ég kvaddi mér hljóðs, er þetta stærilæti — ég vil segja þetta menningarlega yfirlæti sem gjarnan lýsir sér í því þegar hv. 5. þm. Vesturl., Jónas Árnason, og hv. 5. þm. Norðurl. e., Stefán Jónsson, tala hér um menningarmál. Þá koma þeir upp í þennan stól og lýsa því fyrir alþjóð að eitt og annað sé þess eðlis að það sé ekki rétt að þjóðin fái að njóta þess. Þeir tala um það með yfirlæti að menn séu að sækjast eftir einhverjum nýjungum erlendis frá án mats eða gagnrýni og þar fram eftir götunum. Í þessu kemur fram tilhneiging þessara hv. þm. til þess að drottna yfir skoðunum annarra, til þess að skammta mönnum úr hnefa hvers þeir megi njóta. Í þessu speglast m.a. þau viðhorf sem þessir hv. þm. hafa haft til kollega sinna í sumum hlutum heims þar sem einmitt er bannað að tjá sig um margvísleg málefni og við höfum nú dæmi um rétt nýlega af góðkunnu skáldi í Austur-Þýskalandi. Ég sé að báðir þessir hv. þm. hafa barið í borðið, svo að ég sé að þetta hefur eitthvað komið við þá og þeir vita upp á sig skömmina. En þannig horfir þetta nú við augum hjá mér og ýmsum öðrum sem hafa hlustað á þeirra málflutning.

Nú er það að sjálfsögðu alveg ljóst mál að þegar við njótum sjónvarps, — einkanlega á það við í sambandi við margvíslegar fræðslumyndir og einnig á það við um myndir úr náttúru landsins, — þá mundu litasjónvarpstæki að sjálfsögðu gefa mönnum miklu fyllri mynd af því sem þar er um að ræða. Ég viðurkenni það að litasjónvarp er ekki fullkomið. Það er ekki eins að horfa á myndir úr náttúrunni eins og að vera á staðnum sjálfum og skoða þetta með eigin augum. En eigi að síður gefur þetta nokkrar hugmyndir um það sem þarna er um að ræða.

Við skulum átta okkur á því, að þessi tímaskekkja þessara tveggja hv. þm., að vera nú í dag að berjast á móti litasjónvarpi hér uppi á Íslandi, nær ekki til allrar þjóðarinnar. Ég hef líka orðið var við það meðal alls almennings hér á landi, að greiðslustaða íslendinga er þannig nú við útlönd að það er ekki almenn krafa á Íslandi nú að litasjónvarp verði almenningseign, vegna þess að menn skilja að við höfum naumast efni á því núna. Þessi till. felur ekki heldur í sér það, að þegar á morgun eða strax í dag skuli gefa þetta frjálst, heldur er þarna till. um að ríkisstj. geri sér grein fyrir því, hvernig unnt sé að stuðla að því að íslenska sjónvarpið hefji reglulegar litaútsendingar. Þetta er mál sem verður að íhuga.

Ég geri ekki ráð fyrir að hv. 2. þm. Vestf. hafi með ummælum sínum um ferðamannagjaldeyri áðan verið að gera því skóna að skattleggja ferðamannagjaldeyri umfram annan gjaldeyri. Ég skildi ummæli hans ekki þannig þó að vissulega hefði mátt gera það. En jafnsjálfsagður hlutur og það er að við gefum íslendingum, allri alþýðu manna, kost á því að verja peningum sínum á þann veg sem þessi alþýða sjálf kýs, þá er einnig sjálfsagt að við eigum að reyna að stuðla að því eftir mætti að alþýða þessa lands geti farið til annarra landa og skoðað sig þar um. Ég man eftir því þegar ég var rétt rúmlega tvítugur og var rétt að byrja á að kynna mér landsmál, þá sagði við mig gamall og vitur maður að sú tíð væri nú liðin að sú rödd heyrðist á Alþ. að það ætti að segja mönnum hvað þeir mættu gera, skammta þeim hvað þeir mættu kaupa og þar fram eftir götunum. Og menn trúðu því að þessi tíð mundi ekki koma aftur. En því miður heyrir maður það enn, nú hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., að hann álítur, að það þurfi að segja fólkinu til hvers það megi verja sínum peningum, og telur að af siðferðisástæðum þurfi að banna innflutning — hóflítinn innflutning á ýmiss konar verslunarvarningi. Nú veit ég ekki hvað hann á við með þessu. En í þessum orðum kemur fram sú tilhneiging að hugsa fyrir aðra, ráða því sem aðrir eiga að gera, og sá hugsunarháttur er hættulegur.

Ég vil svo að síðustu aðeins taka undir það sem hv. flm., 11. þm. Reykv., sagði, að af tæknilegum ástæðum liggur það fyrir að fjöldi manns þarf að endurnýja sjónvarpstæki sín innan mjög skamms tíma, nokkurra ára, og það er að sjálfsögðu æskilegt að þegar um þá endurnýjun verður að ræða, þegar fólk skyndilega stendur frammi fyrir því að það verður annaðhvort að vera sjónvarpslaust eða kaupa sér nýtt tæki, þá er auðvitað æskilegt að mönnum sé gefinn kostur á því að velja á milli hvort það kjósi heldur litasjónvarpstæki eða venjulegt tæki í svarthvítu. Að sjálfsögðu er rétt að fara þar með gát, og ég geri ekki lítið úr því. En við megum ekki banna þetta algerlega, því að ef við gerum það, þá ýtum við undir smygl og hvers konar óheiðarlega verslun í landinu. Það er rétt sem hv. 5. þm. Norðurl. e. sagði, að þeir menn, sem smygla varningi til landsins til endursölu, hafa sjálfsagt ágóðavon. Ágóðavonin er það, sem ræður þeirra gerðum. En það, sem ræður því að menn versla við slíka menn er oft og tíðum það að þeir eiga þess ekki kost að fá vöruna með öðrum hætti. Einnig er það að mjög háir tollar hafa verkað mjög illa í þessu sambandi. Má minna á tollabreytingarnar 1961 í því sambandi og þann ótrúlega árangur sem náðist af þeirri löggjöf þótt illa hafi verið fyrir henni spáð fyrir fram, ekki síst af skoðanabræðrum hv. þm.