09.12.1976
Neðri deild: 19. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (758)

108. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., var rætt mikið á s l. þingi, eins og fram hefur komið hér í umr. Ég lýsti þá yfir hví, að í sjálfu sér væri ég alveg á móti þessari breytingu, ég hefði alltaf talið að þessari dreifingu væri langbest komið í höndum Mjólkursamsölunnar, þ.e.a.s. í höndum bændanna sjálfra. En því miður hefur þróunin orðið þannig á þessu sölusvæði á undanförnum árum, að Mjólkursamsalan hefur ekki fengið lóðir á hinum ýmsu stöðum í borginni, og var komið þannig að meira en helmingur af mjólkurmagninu, þegar þetta frv. var til umr., var seldur í búðum sem Mjólkursamsalan hafði ekki yfir að ráða. Af

þessari ástæðu voru sölusamtök bændanna búin þá þegar að tapa málinu.

Þegar var verið að ræða þetta mál og við, sem eigum sæti í hv. landbn. þessarar d., kölluðum bæði kaupmenn og forstöðumenn Mjólkursamsölunnar á okkar fund, þá kom í ljós, sem við vissum að vísu áður, að það yrði ekki haldið áfram á þessari braut eins og málin stóðu. Mér er þá farið að förlast og búinn að tapa minni, ef ég man það ekki rétt, að það lágu fyrir yfirlýsingar um það að kaupmenn mundu reyna að sjá starfsstúlkunum fyrir atvinnu, að vísu sögðu þeir: eftir því sem við verður komið. En eftir þeim upplýsingum, sem mér fannst liggja fyrir hér frá hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, horfir mjög illa í þessu máli. En ég vil benda á það í þessu sambandi, að í dag er 9. des. og nú er komið að því að fara fjalla um afgreiðslu fjárlaga, þannig að í raun og veru er tíminn allur hlaupinn frá okkur til þess að athuga þetta mál og í sjálfu sér er þetta frv. það seint fram borið að það eru engir möguleikar á því að koma því fram fyrir frestun eða fyrir jólafrí, eins og nú horfir.

Ég er að vísu ekki svo kunnugur að ég vilji fullyrða það, að það muni vera einsdæmi að svona fyrirtæki væri skyldað til að hafa opnar búðir. Ég held að það sé ekki til nema þar sem er um einkaleyfi að ræða. Ég held að það væri verið að brjóta blað í íslenskri löggjöf ef þetta væri gert. Ég vil líka benda á það, að það er undir Samsölunni komið hvort hún rekur áfram búðir eða ekki. Hún hefur fullt leyfi til að gera það. Þess vegna er það líka spurning hvort þetta sé í sjálfu sér löggjafaratriði. En ég er ekki lögfræðingur og ég slæ þessu fram til athugunar, en ég hygg að þetta muni vera þannig.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli. Ég get t.d. tekið undir allt það sem hv. þm. Magnús Torfi Ólafsson sagði um þetta mál áðan. Ég held ég geti gert ræðu hans að minni þannig lagað. En það eru bara fleiri hliðar á málinu.

Á s.l. verðlagsári vantaði 1.80 kr. til þess að bændur fengju sitt grundvallarverð. Það er upplýst að það er baggi af þessum búðum. Það er upplýst. Það eru aðrir sem eru búnir að fá alla bestu staðina. Þróunin hefur verið þessi. Er hægt að setja það í lög — lögfesta það — að bændur skuli reka búðir hér, skyldaðir til þess, þannig að þeir fjarlægist enn að ná því verði sem áætlað er að þeir þurfi til þess að ná kaupi viðmiðunarstéttanna sem þeir hafa aldrei náð. Ég viðurkenni, að þetta er erfitt mál, og ég viðurkenni, að það sé mjög illt ef starfsstúlkur á mjólkurbúðunum missi atvinnu vegna þessara breytinga, og þarf að athuga hvað er hægt að gera í því máli. Ég sem formaður landbn. mun strax halda fund í landbn. og kalla þessa aðila fyrir n. og athuga hvernig hefur verið staðið að þessum samningum. Það mun ég gera ef þetta frv. kemst til landbn. En það þarf að athuga þessi mál vel og þau atriði sem ég minntist þér á áðan. Ég sé ekki nokkurn möguleika á því að bændur séu skyldaðir til þess að hafa opnar búðir sem standa ekki undir sínum rekstri. Það verður þá að finna. einhverja aðra leið. Hvers vegna ætti að skylda þá til þess? Væri ekki eðlilegra að það væru einhverjir aðrir, sem önnuðust þá þjónustu, heldur en bændurnir.

Út af því, sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði hér áðan, vil ég bara segja það, að það var út af allt öðru atriði sem við deildum, heldur en um þetta atriði, því við vorum í sjálfu sér sammála um að það væri ekkert að gera annað en að stiga þetta skref. Og ég man ekki betur en hv. þm. Benedikt Gröndal og Eðvarð Sigurðsson væru tilbúnir að styðja frv. ef þar hefði ekkert verið annað en þessi kafli um mjólkursöluna. Það var ekki vegna þess að þeim væri ekki ljóst að þessi breyting hefði sína ókosti, en þeir litu á það eins og ég, að múlíð væri tapað og það væri ekki um annað að gera heldur en að stiga þetta skref.

Ég verð svo að endingu að segja það, að ég harma að þetta skyldi þurfa að þróast svona. En út af fyrir sig gleðst ég aftur yfir því að það skuli þó hafa opnast augu fólks, — bara of seint — fyrir því hvernig þessi sölusamtök eru byggð upp, hvernig þau hafa í gegnum árin þróast og þjónað bæði bændunum og neytendunum. Þegar var verið að ráðast á þetta og rífa þetta niður, þá því miður opnuðust ekki augu neytendanna nógu snemma til þess að standa við hlið bænda til þess að þetta yrði ekki rifið niður eins og nú er orðið, því miður.

Ég skal ekki svo hafa þessi orð fleiri. Ég vil bara endurtaka það, að því miður held ég að þetta mál sé orðið of seint á ferðinni, þó að menn væru allir af vilja gerðir til þess að koma þessu máli fram. En ég vil líka benda á og endurtaka það, sem ég sagði áðan: Það verður að huga að því hverjir eigi að bera þennan kostnað. Það er ekki bægt að varpa þessu á bændastéttina.