19.10.1976
Sameinað þing: 5. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í B-deild Alþingistíðinda. (76)

Kosning í fastanefndir skv. 15. gr. þingskapalaga

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. hefur varpað hér fram nokkrum fsp, sem hann hefur óskað eftir að ég svaraði, og skal ég verða við því með ánægju.

Fyrsta fsp, var á þá leið, ef ég hef tekið rétt eftir, hvort sömu rök eigi ekki við enn í dag og lágu fyrir við breytingu á þingsköpum fyrir tveimur árum þegar fjölgað var í fjvn. Þeirri spurningu vil ég svara játandi. Þegar ég bar fram það lagafrv., sem fól í sér fjölgun fjvn: manna úr 9 í 10, þá voru aðallega tvenns konar rök sem ég flutti fyrir máli mínu. Önnur voru þau, að tala fjvn.-manna hefði verið óbreytt frá 1334 meðan störf n. hefðu vaxið og starfshættir breyst þannig að hún ynni að ýmsu leyti störf sín í undirnefndum, og þetta gerði kröfu um eða a.m.k. styddi þá fyrirætlun og nauðsyn að fjölga í n. Á hinn bóginn voru þau rök flutt fram fyrir þessari fjölgun í fjvn., að að höfðu samráði milli þingflokka þætti eðlilegt að greiða fyrir því að allir þingflokkar ættu fulltrúa í nefndinni.

Ég er óbreyttrar skoðunar og ég var þá, að hvor tveggja rökin hafa við gildi að styðjast enn í dag. Varðandi hin fyrri skal ég ekki fjölyrða, þau eru óbreytt hvernig sem samkomulag gerist á hverjum tíma milli flokka. Þau hin síðari byggjast á samkomulagi milli flokka. Það var ljóst fyrir tveim árum, eins og kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf , að það var samkomulag milli flokka að allir þingflokkar skyldu hafa fulltrúa í fjvn. Ef ég man rétt, þá voru það fulltrúar stjórnarandstöðunnar, fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna, sem mæltust til þess við ríkisstjórnarflokkana að fjölgað yrði í n., þannig að allir þrír stjórnarandstöðuflokkarnir ættu þar fulltrúa. Ríkisstj. vildi ganga til móts við stjórnarandstöðuna og fara að óskum hennar. En ég taldi það þá og ég tel það nú innra mál stjórnarandstöðunnar hvernig hún skipar þessum sætum. Ég segi það hreinskilnislega sem mína persónulegu skoðun, að ég tel eðlilegra, að hver flokkur stjórnarandstöðunnar eigi þar sinn fulltrúa, heldur en einn af þrem sé ýtt út í ystu myrkur. En ef stjórnarandstöðuflokkarnir vilja fara þannig hver með annan, þá sé ég ekki hvernig ríkisstjórnarflokkarnir eiga að koma í veg fyrir það. Þetta er fyrst og fremst uppgjörsatriði milli stjórnarandstöðunnar innbyrðis og sýnir raunar hvernig samkomulagi á þeim bæ er háttað.

Ég vil aðeins taka það fram, að í upprunalegu frv. til breytinga á þingsköpum varðandi tölu nm. í fjvn. var gert ráð fyrir 9–11, en um það tókst ekki samkomulag og þar af leiðandi var ákveðin talan 10. Slík breyting á þingsköpum í tilefni af sérstakri nefndarkosningu er þess eðlis að samkomulag verður að takast um hana, og það er ekki hægt að breyta tölu nm. eftir því hvort samkomulag heldur eða af þeim ástæðum að það rofnar. Við getum ekki að þessu leyti breytt lögum frá einu ári til annars, úr því að menn töldu sér ekki fært að hafa fjölgun nm. breytilega í upphafi.

Ég er í engum vafa um að hv. 5. þm. Vestf. er reynslunni ríkari af samstarfi við aðra stjórnarandstæðinga, og ég býst við því að þingheimur sé það í heild. Og e.t.v. er þetta vísbending um það, að varasamt sé að breyta lögum eða þingsköpum með tilliti til sérstakra aðstæðna hverju sinni, heldur verði þingflokkar, þm. og þingheimur að byggja á þeim grundvelli sem fyrir fram er ákveðinn í lögum og þingsköpum.

Það var svo spurningin um það í öðru lagi, sem hv. þm. varpaði fram, hvort það væri skoðun mín að sá aðili, sem rýfur samkomulag, eigi að græða á því. Svar mitt við þeirri spurningu er nei. Ég held ekki heldur, hvernig sem kosningu verði háttað, að Alþb. í þessu tilfelli græði á að rjúfa þetta samkomulag við aðra stjórnarandstöðuflokka sem gert var fyrir tveimur árum.

Í þriðja lagi var svo spurning um það, hvort unnt væri að upplýsa með hvaða hætti kosning til fjvn. færi fram að þessu sinni. Ég skal með ánægju verða við þeirri beiðni að svara þeirri spurningu. Svarið er einfaldlega að við þessar kosningar verður byggt á gildandi lögum og af hálfu stjórnarflokka verður borinn fram listi með 7 mönnum, þannig að það er á valdi stjórnarandstöðunnar hvort allir þingflokkar fá fulltrúa í fjvn. eða ekki. Stjórnarflokkarnir ætla sér ekki meiri hluta en þeir fengu samkv. samkomulaginu fyrir tveim árum.