10.12.1976
Neðri deild: 20. fundur, 98. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður. Ég tek undir þau ummæli hv. síðasta ræðumanns, að nauðsynlegt er að hæstv. ríkisstj. gefi á því skýringu, hvernig á því kunni að standa að samningamaður Efnahagsbandalagsins, sem hér var tvisvar a.m.k., hefur látið sér um munn fara þau ummæli sem fréttastofur hafa eftir honum og auðvitað er ekki víst að séu rétt eftir höfð, en þau hafa engu að siður verið höfð eftir erlendis og hér heima, og þá er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. geri grein fyrir því hvernig á slíku stendur. Ég vil í því sambandi bæta því við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að það ættu að vera hæg heimatökin vegna þess að hæstv. utanrrh. er einmitt staddur í Brüssel og ætti því að geta rætt þar við Gundelach sjálfan hvað hann raunverulega hefur sagt og hvernig á því stendur að jafnfurðulegar fregnir og nú hefur átt sér stað berast utan úr heimi um þær viðræður sem hér fóru fram.

En fyrst á annað borð eru hafnar umr. utan dagskrár hér í hv. Nd. um málefni ríkisstj. og vinnubrögð hennar get ég ekki látið hjá líða að vekja með örfáum orðum athygli á því sem undarlegt er hér innan þings í veigamiklum atriðum varðandi störf og stefnu hæstv. ríkisstj. Ég vek athygli á því að í dag er 10. des. Ég hef áreiðanlega heimild fyrir því að störfum fjvn. er ekki svo langt komið 10. des. að stjórnarflokkafulltrúarnir í n. hafi tilbúnar till. sínar undir 2. umr. fjárl. Ég hef að vísu ekki gáð að því, en ég efast um að þetta hafi gerst áður, að 10. des. sé kominn án þess að ríkisstj. hafi markað stefnu sína varðandi í fjárlagagerð næsta árs. Ég vek í öðru lagi athygli á því, að í gær var útbýtt hér á hinu háa Alþ. frv. um nýja tollskrá sem tvímælalaust verður talið veigamesta frv. sem fyrir Alþ. hefur verið lagt, að fjárlagafrv. einu undanteknu. Það er lagt fram 9. des. Fyrsti fundur fjh.- og viðskn. Alþ. um málið var haldinn kl. 9 í morgun og það er á dagskrá Ed. í dag. því fer auðvitað fjarri að fjh.- og viðskn. gæti nema rétt lokið byrjunarumr. um málið. Og nú er manni sagt, — ég vildi gjarnan fá það staðfest af hálfu hæstv. ríkisstj., — að það sé tilætlunin að þetta frv. verði afgr. á 9–10 dögum hér á hinu háa Alþ. Þetta er frv. sem verið hefur mánuðum saman í samningu og er í sjálfu sér mjög vandlega unnið. Stefna þess er tvímælalaust rétt, það stefnir í rétta átt, en málið er mjög flókið og það er vægast sagt að sýna Alþ. lítilsvirðingu að ætla því aðeins 9–10 daga til þess að fjalla um jafnveigamikið mál og hér er um að ræða, sem þó er vitað að búið er að ræða við t.d. iðnrekendur og fleiri atvinnurekendur úti í bæ í marga mánuði. Við þá, sem frv. snertir, er rætt um málið, en Alþ. er sýnd sú lítilsvirðing að því er fleygt framan í alþm. 9–10 dögum áður en Alþ. á að ljúka.

Í þriðja og síðasta lagi vil ég leyfa mér að nefna meðferð skattamálanna. Því var lýst yfir í stefnuyfirlýsingu hæstv. ríkisstj. þegar hún tók við völdum að hún mundi leggja fram þá þegar á því þingi frv. til nýrra skattalaga. Nú er þetta þriðja þingið sem háð er síðan hæstv. ríkisstj. tók við völdum, og enn hefur ekkert frv. til nýrra skattalaga séð dagsins ljós. Fyrir u.þ.b. tveimur árum fór hæstv. fjmrh. þess á leit við þingflokkana að þeir tilnefndu fulltrúa í n. til þess að fjalla ásamt embættismönnum og fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna um gerð nýrra skattalaga. Sú n. hefur haldið tvo fundi. Ég er fulltrúi flokks míns í n. og hef tvívegis verið boðaður á fund í n. í tvö ár. Þetta eru svo einstök vinnubrögð að engu tali tekur, og enginn veit á þessum degi hvort nýtt frv. til skattalaga verður sýnt á þinginu eða ekki. Engum dettur í hug að það verði afgr. fyrir jólaleyfi. En verður það sýnt eða ekki, og er virkilega meiningin að afgr. fjárl. án þess að þingheimur hafi nokkra hugmynd um það hvaða hugmyndir ríkisstj. geri sér um það hver skuli vera tekjuöflun í formi tekjuskatts á árinu 1977?

Það er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstj. gefi þingheimi upplýsingar um þessi þrjú atriði sem ég hef hér gert að umtalsefni. Háttalag hæstv. ríkisstj. í garð Alþ. sem slíks er þannig, að það verður næstum að telja það til einsdæma. A.m.k. er það engan veginn með því móti að við það verði unað. Það er því ekki aðeins að því er snertir fréttaburð af viðræðum ríkisstj. við erlenda sendimenn sem vinnubrögðum hefur verið áfátt. Þeim er einnig stórlega áfátt gagnvart hinu háa Alþingi.