19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

129. mál, fjáröflun til vegagerðar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég átti þess ekki kost að vera viðstaddur 1. og 2. umr. þessa máls og vil þess vegna taka það fram varðandi það frv., sem hér er til umr., að ég mun við endanlega gerð þess frá okkur greiða því atkv. Ég hef tvívegis lýst því yfir við afgreiðslu vegáætlunar, að ég væri reiðubúinn til þess að fylgja aukinni tekjuöflun til að lyfta okkar vegamálum úr þeirri lægð sem þau hafa verið í á undanförnum árum. Ég hef að vísu verið með visst skilyrði, viljað hafa nokkuð tryggt að það aukna fé, sem þannig fengist, færi í þau verkefni sem ég tel brýnust á sviði okkar vegamála, þ.e.a.s. í okkar slæmu vegi úti á landi eða kannske vegleysurnar þar sumar.

Nú hefur verið látið á það reyna hér í hv. d. og Nd. einnig, hvort menn væru tilbúnir að láta hinn stóra hluta, sem rennur beint til ríkisins með söluskatti, renna beint í Vegasjóð. Þetta atriði hefur verið reynt að leiðrétta, en það ekki fengist fram. Hlýt ég að telja það miður.

Varðandi það skilyrði, sem ég talaði um, þá er það að vísu rétt að ekki liggur fyrir hvernig næsta vegáætlun verður afgreidd, hvaða verkefni hafa þar forgang. Sú hefur verið reynslan á undanförnum árum, að það forgangsverkefni hafa verið önnur en þau sem ég var hér að lýsa áðan og okkar landsbyggðarvegir, að ég tali nú ekki um sveitavegina t.d., hafa verið látnir sitja á hakanum, en hraðbrautarsjónarmiðið verði alls ráðandi. Hins vegar vona ég, að með þessari auknu tekjuöflun, sem hér er gert ráð fyrir, verði um önnur forgangsverkefni að ræða og einhver breyting verði þarna á. Í trausti þess, að vegáætlun verði afgreidd á þann hátt að meira fé fáist til þessara brýnu verkefna, þessara forgangsverkefna, þá mun ég greiða þessu frv. atkv.