20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (121)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar til þess að leggja fá orð í belg við þá umr. sem hér hefur staðið um tíma um þetta mál.

Í fyrsta lagi vil ég lýsa því sem minni skoðun, að mér hefði fundist eðlilegt að hv. flm. þessarar þáltill. hefði leitað eftir stuðningi annarra þm., sem skipa Íslandsdeild Norðurlandaráðs, um aðgerðir til þess að koma þeim vilja sínum áleiðis sem tillgr. sjálf fjallar um. Ég væri reiðubúinn til þess að standa að tillöguflutningi með hv. þm. ef hann flytti till. á þeim grundvelli að Alþ. skoraði á hæstv. ríkisstj. og sérstaklega á hæstv. utanrrh., sem hefur lýst yfir velvilja í þessu máli, að kanna möguleikana á breytingu á stofnsamningi Norðurlandaráðs sem geri þetta mögulegt. Það er sú leið — og eina rétta leið — sem hægt er að fara í þessu efni.

Það, sem hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason sagði hér áðan um samstarfssamning Norðurlandanna er hárrétt. Það er miklu meira en tal um eitthvert form þegar hv. þm. bendir á það, að samstarfssamningur Norðurlanda gerir ráð fyrir því, að aðeins sjálfstæðar þjóðir séu fullgildir aðilar að Norðurlandaráði, þannig að ef menn vilja víkja frá málskrúði og skoða staðreyndir málsins, þá er nákvæm könnun nauðsynleg forsenda þess að koma Grænlendingum í nánara samstarf á vettvangi Norðurlanda og auka áhrif þeirra þar, og að því vil ég stuðla.

Því miður gat ég ekki hlustað á alla ræðu hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar þegar hann talaði fyrir þessari till. og veit því ekki hvort hann upplýsti í henni hvaða grænlenskir aðilar hafi beðið hann að flytja svona till. (Gripið fram í.) Það er gott að fá að vita það. Ég þekki því miður ekki þessi samtök. Ég veit ekki hvort þetta er þing Grænlendinga eða hvað. Það er annað. Mér finnst sjálfsagt að það liggi ljóst fyrir þegar talað er um svona till., að einhver ábyrgur aðili hafi beðið flm. um að flytja hana. (Gripið fram í.) En ég er búinn að benda hv. þm. á færa leið í þessu efni, og ég vil endurtaka það hér, að ég er reiðubúinn til þess að flytja ásamt honum þáltill. í því formi sem ég var hér að lýsa. En ég get jafnákveðið lýst því yfir, að meðflm. till. eins og hún er upp byggð get ég ekki orðið.