25.01.1978
Neðri deild: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1496)

21. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Síðast þegar þetta mál var hér á dagskrá, sem er nokkuð langt um liðið, hafði það gerst, að hv. þm. Lúðvík Jósepsson, 2. þm. Austurl., hafði talað tvísvar í þessu máli og hann hafði fengið til þess leyfi hæstv. forseta að gera aths., — aths. sem var nær hálfrar klukkutíma löng. Þegar komið var að mér, ég hafði talað tvísvar líka og óskaði eftir að fá að taka til máls aftur, þá var hv. þm. ekki viðstaddur, en hann hafði í þriðju ræðu sinni vikið æðimikið að mér og ég taldi því æskilegra a.m.k. að málið væri tekið fyrir til umr. að honum viðstöddum, ef hann vildi sinna því að einhverju meira leyti en gert hefur verið. (Gripið fram í.) Það fer eftir hæstv. forseta. Það er hann sem ræður því. Ég hafði ekki gert neina aths. í þetta þriðja skipti, ég aðeins óskaði eftir því, að málinu yrði frestað þangað til hv. 2. þm. Austurl. væri við. Og nú er ég hér kominn í pontu til þess að gera þessa aths., og ég vænti þess, að hæstv. forseti leyfi mér sama rétt og hv. 2. þm. Austurl., þannig að ég fái að gera nokkuð verulega aths. eins og hann.

Það er að sjálfsögðu það langt um liðið síðan umr. voru hér síðast um þetta mál, að sjálfsagt er ýmislegt gleymt af því sem ég vildi sagt hafa í tilefni af ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, en þó eru nokkur atriði sem ég vil fara um nokkrum orðum.

Það er að vísu ekki alltaf sem manni gefst tækifæri og sá heiður jafnvel að eiga orðaskipti við hv. þm. Lúðvík Jósepsson á þeim grundvelli sem hefur verið að því er varðar umr. um þetta mál. Við höfum deilt nokkuð um það, hvernig þessi mál hafi verið í raun og veru í framkvæmd, og þá kannske fyrst og fremst um það, hversu mikið hið margumtalaða flokksræði í raun og veru er í framkvæmd. Ég skal ekki fara um það mörgum orðum, en þegar ég talaði hér síðast um þetta mál gerði ég einmitt að umræðuefni hvernig mér hefði virst flokksræðið ráða ríkjum að verulegu leyti innan Alþb. meðan ég var þar innan dyra. Ég sagði að þá hefði Alþb. ekki verið formlegur stjórnmálaflokkur, heldur einungis kosningasamtök, og hv. þm. Lúðvík Jósepssyni fannst einkennilegt að ég skyldi segja þetta, að Alþb. hafi ekki verið formlegur flokkur meðan ég var í því heldur einungis kosningasamtök. Þetta er eigi að síður rétt. Og hann hélt áfram og talaði um að það væri einkennilegt, að í þessu tilfelli Alþb., sem ég taldi ekki vera formlegan stjórnmálaflokk, skyldi sýna þetta mikið flokksræði og foringjarnir þar fyrst og fremst skyldu vera þeir sem réðu ríkjum að eins miklu leyti og ég talaði um þá. En þetta er allt saman rétt. Það er ekki fyrr en 1969, ef ég man rétt, sem Alþb. er gert að formlegum stjórnmálaflokki. Ég held að ég muni þetta ártal rétt. Til þess tíma hafði verið hér um að ræða kosningasamtök, að sjálfsögðu kosningasamtök sem voru með stjórn, formanni ásamt fleiru sem fylgir slíku, þó að ekki hafi verið um formlegan stjórnmálaflokk að ræða.

Það var auðvitað flokksstjórn fyrir kosningasamtökin, þó að hér væri ekki um formlegan stjórnmálaflokk að ræða. Ég vænti þess, að núv. formaður Alþb., hv. þm. Lúðvík Jósepsson, telji þetta rétt vera, að Alþb. var ekki formlegur stjórnmálaflokkur fyrr en eftir 1969. En eigi að síður var kosið þar til stjórnar og formennsku, eins og hægt er sjálfsagt að sanna yrði því flett upp. Og bað stóð ekki heldur á því, að þar væri flokksræðið í hávegum haft. Það var í raun og veru og í sannleika sagt hið rétta andlit flokksræðisins sem þar réð ríkjum oft og tíðum. Fyrr í þessum umr. benti ég á dæmi að því er varðaði Framsfl., hvernig flokksræðið og foringjarnir hefðu beitt sinum áhrifum þar til þess að fá vilja sínum framgengt. Það dæmi, sem ég benti á, gerðist einmitt á Vestfjörðum. Það gerðist líka á Vestfjörðum að því er varðaði Alþb. 1967, að meiri hl. kjördæmisráðstefnu þáv. Alþb. gekk af fundi í mótmælaskini við það, hvernig einmitt foringjarnir í Alþb. héldu á málum og stóðu að því að ganga frá framboðsmálum. Meiri hluti kjördæmisráðstefnunnar á Ísafirði gekk af fundi í mótmælaskyni við þetta. Þetta var 1967, og ég hygg að núv. formaður Alþb. muni þetta og viti. Hér er .ekki um neinar getgátur að ræða, þetta eru staðreyndir.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson sagði að það væri ómaklegt af mér að segja að Vestfirðingar hefðu látið kúga sig og þeir hefðu snarsnúist. Það er staðreynd að því er varðar t.d. framboð hjá Framsfl. 1967 — ég held ég muni það rétt líka — þegar búið var að ganga frá framboði, en því var síðan breytt vegna þess að ákveðinn forustumaður eða forustumenn í Framsfl. vildu ekki sætta sig við þá röðun sem þá hafði verið ákveðin á lista Framsfl. á Vestfjörðum. Í þessu tilfelli hafa þessir einstaklingar annaðhvort samþykkt, að þeim hafi orðið á í messunni og þeir hafi ekki gert það rétt sem þeir áttu að gera, eða þá þeir hafa látíð kúga sig. Hér er ekki um að tala að almennt hafi Vestfirðingar gert þetta, en þeir, sem hlut áttu að máli í þessu tilfelli, gerðu þetta. Þessu var breytt frá því sem búið var að ákveða, og því var breytt vegna þrýstings og sérstakrar sendifarar af hálfu eins af höfuðforvígismönnum Framsfl. á þessum tíma, sem var þá Eysteinn Jónsson. Þessu þýðir ekkert að mæla á móti. Þetta eru staðreyndir sem fyrir liggja. (Gripið fram í: Eru það virkilega staðreyndir?) Það eru staðreyndir, já, og það veit ég að hæstv. dómsmrh., núv. formaður Framsfl., veit, hvort sem hann viðurkennir það eða ekki, það er annað mál. Þetta eru þó eigi að síður staðreyndir. Því miður hefur þetta gerst allt of oft, að það hafa í raun og veru verið einvörðungu flokksstjórnirnar, flokksforingjarnir sem hafa ráðið lögum og lofum um þessi mál sem og mörg önnur sem hefur átt að taka ákvörðun um af fleirum en bara forustunni.

Hv. þm. Lúðvík Jósepsson vildi ekki heldur viðurkenna það, að í raun og veru hefði það sýnt sig, reynslan hefði verið sú í kosningum og eftir kosningar frá 1959, er kjördæmaskipuninni var breytt, að í rann og veru hafi flokksgæðingar verið ráðnir til lífstíðar til þingmennsku. Staðreyndin er þessi: Fjórir af hverjum fimm þm. í flestum kjördæmunum hafa samkv. reynslunni verið sjálfkjörnir, það hefur aðeins verið kosið um einn mann af hverjum fimm. Þetta er reynslan. Og þetta er atriði sem almenningur í landinu a.m.k. hefur verið óánægður með, og sífellt fer vaxandi sú óánægja sem stafar af þessu fyrirkomulagi. En það hlýtur að vekja athygli, og a.m.k. ég fyrir mitt leyti kemst ekki framhjá því, að það vekur undrun mína, og ég geri ráð fyrir að ég sé ekki einn um þá skoðun, að núv. forustumenn Alþb. skuli vera þeir aðilar af forustumönnum stjórnmálaflokkanna, sem nú eru, sem harkalegast hafa snúist gegn því að rýmka til, gefa hinum almenna kjósanda aukinn rétt til að hafa áhrif á val frambjóðenda, val um hverjir í raun og veru taka sæti hér á Alþ. Og harðastur í andstöðunni við þetta hefur einmitt verið hv. þm. Lúðvík Jósepsson, núv. formaður Alþb. Þetta vekur athygli. Mér er það a.m.k. umhugsunarefni, hvernig á því geti staðið að þetta skuli vera svona. Eina skýringin, sem ég finn, er sú, að líklega sé það svo, að innan forustuliðs Alþb. sé að finna einstaklinga, forustumenn, sem hafa innbyrt hvað mest flokksræði af þeim sem nú eru. Ég finn enga aðra skýringu á því, hvernig forustumenn Alþb. hafa snúist harkalega gegn sérhverri rýmkun til handa hinum almenna kjósanda til að hafa áhrif á þessi mál. Þetta hlýtur að vera orsökin og ástæðan.

Menn hafa heyrt oftar en einu sinni að hv. þm. Lúðvík Jósepsson hefur kallað það frv., sem hér er til umr., flutt af hv. þm. Jóni Skaftasyni, kallað það fráleitt fyrirbæri og hér væri verið að setja upp gervilýðræði. Allt þetta, öll sú fordæming sem mér hefur virst koma fram í máli hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar gegn þessu, er að ég held af engum öðrum rótum runnin en þeim, að hann er innstilltur á hið harðasta flokksræði. Og auðvitað er það hans mál. Mér dettur ekki annað í hug en að halda að þetta sé rétt, þegar fram kemur hjá þessum hv. þm., eins og hann sagði síðast við þessar umr., að það komi málinu ekkert við í þessu tilfelli hvernig farið hefur verið með einstaka menn í flokkskerfinu, hvernig í þá hefur verið sparkað, það kæmi málinu ekkert við. Þetta er að minni hyggju svo glórulaust flokksræði, flokksfjötrar, af foringjum, að engu tali tekur. Og það er vissulega kominn tími til þess, að hér verði breyting á. Hvort sem þeim, sem eru þenkjandi eins og þessi hv. þm., líkar það betur eða verr, þá er nú eigi að síður fólkið sjálft að breyta þessu. Forustumenn sumra hverra stjórnmálaflokkanna eru jákvæðir gagnvart þessum breytingum, og ekki fer hjá því að innan ekki langs tíma, hvort sem einhverjum forustumanni íslensks stjórnmálaflokks líkar betur eða verr, þá verður hér veruleg breyting á til aukins lýðræðis fyrir hinn almenna kjósanda í landinu til þess að hafa áhrif á val þeirra sem á Alþingi eiga að sitja. Þrátt fyrir allt og kannske ekki síður vegna þess, hvernig hv. forustumenn Alþb. hafa snúist gegn þessu, þá er ég enn frekar sannfærður um að það er brýn nauðsyn að breyta þessu. Okkur getur greint á um það, hvaða leiðir eigi að fara. (Forseti: Ég kemst ekki hjá því að minna hv. þm. á, að það var aths. tími, sem hann hafði og hann er nú orðinn í allra lengsta lagi. Ég vænti þess, að hv. þm. ljúki nú máli sínu.) Ég er alveg að ljúka máli mínu, virðulegi forseti, en ég vænti þess jafnframt af hæstv. forseta, að hann láti mig njóta sama réttar hér og aðra hv. þm., og bendi þar á hv. þm. Lúðvík Jósepsson sem talaði hér nær hálfa klukkustund í aths.- tíma í þriðja skiptið. (Forseti: Ég hef ræðu hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar hér fyrir framan mig og hún var ekki svona löng.) Vill þá ekki hæstv. forseti tiltaka, hversu löng hún var? (Gripið fram í: Það er nú ekki mælt í mínútum í þingtíðindum.) En eigi að síður skal ég verða við því, hæstv. forseti, ég er alveg að ljúka máli mínu. En ég ítreka það, að ég vænti þess, að ég njóti hér sama réttar og aðrir að því er varðar ræðumennsku, og vænti þess, að forseti geri þar ekki upp á milli hv. þm.

Síðustu orð mín að þessu sinni skulu vera þan, að ég ítreka stuðning minn við það frv., sem hér er til umr. Það er tími til þess kominn að breyta frá því sem verið hefur í sambandi við kosningar og áhríf hins almenna kjósanda á val þm., og því fyrr sem forustumenn í íslenskum stjórnmálum skilja sinn vitjunartíma og fara að kröfu eða óskum almennings í landinn um þetta, því betra.