06.02.1978
Efri deild: 55. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1955 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

166. mál, viðskiptabankar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins í örfáum orðum lýsa ánægju minni með það viðhorf sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. Hann hvetur þn. og að sjálfsögðu þá þm. alla til þess að hugleiða hverjar þær breytingar á þessu frv. sem þingið telur að mættu verða til bóta. Mér finnst viðhorf hæstv. ráðh. allt of oft vera annað og því jafnvel illa tekið að breytingar séu gerðar.

Ég vil, þar sem ég á ekki sæti í þeirri n. sem mun fjalla um málið, láta koma fram að ég var og er mjög ákveðinn stuðningsmaður þeirrar stefnu sem kom fram í frv. vinstri stjórnarinnar í bankamálum sem flutt var í mars 1974. Ég tel að stefna eigi að því m.a. að fækka ríkisbönkunum með skynsamlegri sameiningu þeirra. Það má vel vera að sú sameining þyrfti að byggjast á einhverju öðru, ef ég má orða það svo, en einfaldari sameiningu tveggja ríkisbanka, þ.e.a.s. Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Það mál þarf að sjálfsögðu að skoða vandlega, og ég treysti hv. n., sem fær málið til meðferðar, til að athuga þetta mjög vel. Ég lýsi því yfir, að ég tel að frv. batni með því að færa það nokkuð í átt til þess búnings sem bankafrv. var frá hendi vinstri stjórnarinnar á sínum tíma.

Einnig vil ég nota tækifærið til að koma á framfæri þeirri skoðun minni, að endurskoðun ekki aðeins bankanna, heldur annarra ríkisstofnana, eigi að falla undir ríkisendurskoðun. Þar er öflug stofnun sem hefur, að því er ég þekki, unnið vel og hefur m.a. sent ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum, sem hún fjallar um, ákveðnar starfsreglur um meðferð opinbers fjár. Þær reglur eiga einnig að gilda um ríkisbankana og raunar öll ríkisfyrirtæki. Mér finnst það vera úrelt skipan að kjósa tvo menn á hinu háa Alþ. til slíkrar endurskoðunar. Þeir hafa enga möguleika til að sinna slíku starfi — ekki nokkra. og jafnvel þó þeir fái að kveðja í sína þjónustu lærða menn á því sviði, þá eru þessir menn í föstu starfi að öðru leyti. Því vil ég jafnframt koma þeirri ábendingu hér á framfæri, að þarna verði breytt um og ríkisendurskoðun fjalli um endurskoðun ríkisbankanna eins og annarra ríkisfyrirtækja. Það breytir að sjálfsögðu engu um það, að bankarnir hafa eigin endurskoðun og hana öfluga. Þarna er fyrst og fremst um það að ræða. að ríkisendurskoðun kæmi þá í staðinn fyrir kjörna endurskoðendur á Alþingi.

Þetta breytir því ekki heldur, að Alþ. fái tækifæri til að fylgjast með starfsemi bankanna. Ég er sammála hæstv. ráðh, um það mál. Ég tel að Alþ. eigi að hafa aðstöðu til þess að fylgjast með því sem þar gerist, eins og hann hefur sýnt í orðum og verki að hann vill að sé.

Með þessum örfáu orðum vil ég lýsa þessum meginaths. mínum við frv. Ég vona að sú n., sem fær það til meðferðar, athugi það mjög vandlega að flytja við það ýmsar góðar brtt.