16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2458 í B-deild Alþingistíðinda. (1813)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. d. hefur fjallað um þetta frv. á fundi sínum í morgun, en það er aðalefni frv. og það sem mestu máli skiptir, að verið er að rifta öllum kjarasamningum sem gerðir voru við launamenn á s. l. ári.

Kjarasamningar verkalýðsfélaganna voru gerðir fyrir 7 mánuðum og aðeins 3 mánuðir eru liðnir síðan samningar voru gerðir við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja. Á fundi okkar í morgun leituðum við upplýsinga um það atriði, hvort eitthvað hefði upp á borið í viðskiptakjörum þjóðarinnar sem réttlætti það að samningarnir væru teknir til endurskoðunar vegna brostinna forsendna eða breyttra aðstæðna. Þær upplýsingar, sem á fundinum fengust frá forystumönnum Þjóðhagsstofnunar, staðfestu það, sem margoft hefur verið bent á í þessu sambandi, að viðskiptakjörin hafa farið jafnt og þétt batnandi, jafnvel eftir að þessir samningar voru gerðir. Þó að batinn hafi verulega hægt á sér í seinni tíð, þá hefur þó frekar, ef eitthvað er, hreyfst í þá áttina, en talið er að viðskiptakjörin hafi batnað á árinu 1977 um 9–10% frá því sem þau voru 1976. Það hefur líka komið áður fram, að þjóðarframleiðsla hefur orðið meiri en ráðgert var um það leyti sem samningarnir voru gerðir, og þannig er talið að þjóðartekjur hafi hækkað um 7–8% á liðnu ári í staðinn fyrir 5%, sem tekið var mið af þegar samningarnir voru gerðir. Það er því ekki út frá efnahagslegum sjónarmiðum hægt að finna nokkra réttlætingu fyrir þeirri ákvörðun ríkisstj. að rifta þessum samningum.

Nú er stefnt að því, að verðlagsuppbætur á laun nemi aðeins hverju sinni helmingi af því sem um var samið í kjarasamningunum á s. l. ári. Vegna þeirrar miklu dýrtíðar sem í vændum er, spáð er að meðalverðhækkun milli áranna 1977 og 1978 verði 36–37%, mun þetta hafa í för með sér 10–12% lækkun á kaupmætti launa frá því sem hann hefur verið í upphafi þessa árs. Í grófum dráttum má segja, að kjarabæturnar, sem veittar voru á s. l. ári, séu þannig aftur teknar með valdboði. Aftur á móti er bersýnilegt, að þessar ráðstafanir ríkisstj. munu sáralitlu breyta um dýrtíðina. Verðbólga verður ekki miklu minni en áður var ætlað og samkv. spám Þjóðhagsstofnunar mun lækkunin aðeins nema 3–4 prósentustigum. Afleiðingin verður fyrst og fremst sú sem að er stefnt, að lífskjör vinnandi fólks munu verulega versna.

Í 2. gr. frv. eru ákvæði, sem mikið hefur verið gert úr og eiga að fela í sér lágmarksverðbætur til þeirra lægst launuðu, eins og það er kallað. Það var t. d. auðheyrt á hæstv. utanrrh., sem talaði hér við 1. umr, málsins í gær, að hann lagði mikið upp úr þessu ákvæði og taldi að það væri stórlega þýðingarmikið fyrir láglaunastéttirnar. Ég fullyrti þá, að þar væri bersýnilega á ferðinni sýnd veiði, en ekki gefin, og ég sannfærðist um það við nánari skoðun þessa ákvæðis í morgun, að hér er um að ræða einhverja ómerkilegustu sýndarmennsku sem fram hefur verið borin af hálfu stjórnvalda í formi sérstakrar uppbótar á láglaun. Eins og ég benti á í gær er hér miðað ekki aðeins við dagvinnukaup, heldur einnig við hvers konar eftirvinnukaup, og þetta hefur það í för með sér, að það er ákaflega fámennur hópur í þjóðfélaginu, sennilega aðeins sárafáir einstaklingar sem raunverulega koma til með að falla undir þessa grein. Ég óskaði eftir því við forstöðumenn Þjóðhagsstofnunar, að þeir gæfu okkur dæmi um það, hvernig Dagsbrúnarverkamenn, sem hljóta laun eftir 5. taxta Dagsbrúnar, en það eru flestir þeir sem eru í byggingarvinnu, mjög algengur taxti, kæmu út úr útreikningi samkv, þessu ákvæði. Við fengum þær upplýsingar, að miðað við 5. taxta Dagsbrúnar og miðað við 10 eftirvinnustundir á viku, sem er mjög algengt í hvers konar byggingarvinnu, það langalgengasta á vinnumarkaðinum, þá væru mánaðarlaun slíkra manna 167 092 kr. Ef laun hækkuðu nú samkv. samningum um 10%, ætti hækkun til þessara manna að nema 16 709 kr. En útreikningurinn á launum þeirra 1. mars n. k. verður á þessa leið: Í fyrsta lagi fá þeir samkv. 1. gr. frv. 5% verðbætur eða 8355 kr. Það er það sem menn fá almennt, þeir fá aðeins helminginn af væntanlegri verðuppbót launanna. En til viðbótar fá svo þessir Dagsbrúnarverkamenn samkv. ákvæði 2. gr., sem hæstv. utanrrh. var mest að monta af í gær og taldi stórkostlega þýðingarmikið, 445 kr. til viðbótar. 445 kr., það eru nú öll ósköpin. Sem sagt, þeir fá samanlagt 8800 kr. Ef við reiknum út hvað verðbæturnar nema í prósentum miðað við gildandi kjarasamninga, þá fáum við samkv. einföldum prósentureikningi að þær nema 53% af því sem samið var um. Þó er þetta einn sá launaflokkurinn sem lægstur er í núverandi launakerfi, 5. taxti Dagsbrúnarverkamanna. (Gripið fram í.) Alveg rétt. Við þurfum sennilega ekki að fara nema upp í 6. eða 7. taxta Dagsbrúnarverkamanna til þess að fá þá útkomu, að uppbótin verður engin. Ég held að þetta sýni ákaflega vel, að þetta kemur ekki til með að koma launafólki að gagni nema í sárafáum tilvikum.

Ef við tökum annað dæmi um þann fjölmenna hóp launafólks sem vinnur í frystihúsum, þá mun láta nærri að þetta fólk hafi um 120 þús. kr. fyrir 8 stunda vinnudag, og miðað við að mjög viða má reikna með 50% viðbót vegna ákvæðisvinnufyrirkomulags, þá verður niðurstaðan sú hjá því fólki, sem nær 50% viðbót vegna ákvæðisvinnu, að það hagnast ekki vitundarögn á þessu ákvæði.

Annað það, sem máli skiptir í þessu sambandi, er að hér er um að ræða fasta krónutölu, og vegna þess að fólk kemur þó til með að fá 5% hækkun við næstu launabreytingar 1. mars og síðan þá væntanlega aftur ekki minni hækkun 1. júní, þá er það auðvelt reikningsdæmi, að þeim mun fara sífækkandi á árinu sem geta fallið undir þetta ákvæði, vegna þess að um er að ræða fasta krónutölu.

Það þarf engan að undra það, þótt frv. þessu hafi verið mætt af fullri hörku af hálfu verkalýðshreyfingarinnar, þegar ljóst er að ekki aðeins hátekjufólk og meðaltekjufólk kemur til með að verða fyrir um það bil 50% skerðingu verðuppbóta á laun hvert sinn sem verðuppbætur verða greiddar á þessu ári, heldur mun það sama gilda um láglaunafólk almennt, eins og ég hef nú þegar sýnt fram á.

Formannaráðstefna Bandalags starfsmanna ríkis og bæjar, sem haldin var núna í vikunni, sýndi það svo að ekki verður um villst, að BSRB er harðákveðið í því að mæta þessu frv. af fullri hörku, og það er eftirtektarvert, að þar sameinast fólk úr öllum hinum pólitísku flokkum til eindreginnar andstöðu við þær aðgerðir sem hér eru hafðar í frammi. Í samþykkt formannaráðstefnunnar segir: „Verði Alþ. ekki við þessari áskorun er launafólk knúið til aðgerða til verndar samningsréttinum nú og í framtíðinni. Ef nauðsyn krefur og samstaða næst við önnur launþegasamtök um aðgerðir, felur formannaráðstefnan stjórn BSRB að gangast fyrir viðtækri þátttöku félagsmanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í þeim. Komi til vinnustöðvunar er stjórn Bandalagsins falið að taka þátt í stjórnun hennar af þess hálfu.“

Hér eru engin smátíðindi boðuð. Hér eru greinilega atburðir í vændum sem ekkert fordæmi er fyrir hér á landi, og það að Bandalag starfsmanna ríkis og bæja tekur svo djúpt í árinni sýnir að fólk úr öllum hinum pólitísku stjórnmálaflokkum er einhuga í þeirri afstöðu sinni að una ekki þessum svívirðilegu aðgerðum ríkisstj. Hið sama gildir um verkalýðsfélögin innan Alþýðusambands Íslands. Munurinn á þeim og aðildarfélögum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er að vísu sá, að Alþýðusambandsfélögin hafa möguleika samkv. sínum kjarasamningum til að segja samningunum upp og hafa þegar hafist handa um uppsögn þeirra samninga. En það er þegar ljóst, að aðildarsamtök Alþýðusambandsins hyggjast ganga lengra. Í ályktun formannaráðstefnunnar, sem lauk í gær, þar sem saman voru komnir formenn verkalýðsfélaga innan Alþýðusambandsins, formenn allra landssambanda þess og miðstjórnarmenn, var einróma, og ég endurtek: var einróma gerð sú samþykkt að skora á miðstjórn að skipuleggja sameiginlegar baráttuaðgerðir með Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, — aðgerðir sem eiga að hefjast að hálfum mánuði liðnum, hinn 1. mars n. k., því að þann dag kemur kaupskerðingin til framkvæmda. Eins og segir í þessari ályktun formannaráðstefnunnar:

„Allar skulu aðgerðir samtakanna stefna að því marki, að þeim ólögum, sem sett hafa verið hagsmunum og rétti launamanna til höfuðs, verði í reynd eytt, þannig að kjara- og réttindaskerðingin komi ekki til framkvæmda og verði ekki þoluð af neinu verkalýðsfélagi né einstökum félögum þeirra. Kjörorð baráttunnar verði: Kjarasamningana í gildi.“

Þetta eru stór orð, sem hér eru höfð, og hér eru mjög alvarlegar aðvaranir fram settar. Menn hyggjast ekki biða eftir því að heimilt verði að segja gildandi kjarasamningum upp samkv. ákvæðum þeirra, heldur hyggjast láta til skarar skriða þegar um næstu mánaðamót. Hvers vegna leyfa menn sér að ganga svona langt? Jú, einfaldlega vegna þess að það er ríkisstj. sem hefur gefið fordæmi, það er ríkisstj. sem hefur sjálf rifið í tætlur gildandi kjarasamninga með þeim lögum, sem nú er verið að reyna að þrýsta fram. Og þá segja verkalýðssamtökin, bæði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandið, og það einróma fólk úr öllum stjórnmálaflokkum: Við lítum þá svo á að ríkisstj. sjálf sé búin að rífa þessa samninga í tætlur, þ. á m. þau ákvæði þeirra sem fjalla um tímalengdir uppsagnarfresta, og við látum því til skarar skríða nú þegar eða nánar til tekið frá næstu mánaðamótum, þegar fyrstu svik þessara samninga eiga að koma fram. — Í ljósi þessa ætti ríkisstj. að sjálfsögðu, ef hún hefði einhverja glóru í kollinum og gerði sér einhverja grein fyrir því, að hverju dregur, þá ætti hún að sjálfsögðu að draga þetta frv. til baka eða a. m. k. að fresta afgreiðslu þess þar til samningaviðræður við verkalýðshreyfinguna hefðu farið fram og einhver niðurstaða fengist sem afstýrt gæti þeim ófriði á vinnumarkaðinum sem ríkisstj. efnir nú til. En því er ekki að heilsa, að nokkrar aðvaranir dugi til að koma vitinu fyrir núv. ríkisstj.

Það má að vísu viðurkenna, að einhver ofurlítilli glóruvottur felst í þeirri ákvörðun ríkisstj. að hætta við að knýja fram 3. gr. frv. og draga hana til baka á seinustu stundu. Þessi ákvörðun kemur að vísu mjög á óvart, því að við, sem sátum fund fjh.- og viðskn. í morgun, heyrðum ekki þar a ð uppi væru nein áform um að breyta frv. á einn eða neinn hátt. Þar kom ekki fram nein till. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. um að fella '3. gr. niður. Það kemur því meira en lítið kynduglega fyrir sjónir, að það skuli vera þessi sami meiri hl. fjh.- og viðskn. sem hér flytur till. um að greinin skuli felld niður. Ég minnist þess ekki, að meiri hl, í ákveðinni n. hafi flutt hér till. um breytingu á frv, án þess að hafa látið þess á nokkurn hátt getið við nefndarstörf ellegar það væri bókað innan n. Á það er ekki heldur minnst einu einasta orði í nál. Það virðist sem sagt vera, að n. hafi fengið fyrirskipun einhvers staðar að ofan um að flytja till. af þessu tagi, og hefði þá verið miklu eðlilegra, að forsrh. hefði flutt þessa till. sjálfur, frekar en láta meiri hl. fjh.- og viðskn. halda uppi sýndarmennsku af þessu tagi, eins og þessi till. sé frá meiri hl. komin. En þetta er atriði sem skiptir ekki í sjálfu sér neinu máli, þótt vinnubrögðin séu ekki beinlínis til fyrirmyndar.

Hitt hefur alltaf verið ljóst, að þessi tillögugerð ríkisstj., sem er satt að segja svo heimskuleg að ég hef ekki talið það ómaksins vert að vera mikið að fjölyrða um hana hér og hef ekki einu sinni minnst á hana einu einasta orði í því nál. sem við undirbjuggum í morgun — þessi tillögugerð hefur frá öndverðu verið óskiljanlegt fálm, sem átti auðvitað ekkert erindi inn í þetta frv. Hér er um að ræða ákvæði sem ekki á að taka gildi fyrr en eftir að næstu kjarasamningar hafa verið gerðir og löngu eftir að þing kemur saman eftir næstu kosningar og mynduð hefur verið ný ríkisstj, og því ekki nokkur ástæða til þess að fara að afgreiða þetta ákvæði nú, heldur miklu eðlilegra að bíða með það til næsta hausts að taka ákvörðun um hvernig á þessum málum skuli haldið, eftir að eðlilegar viðræður hefðu farið fram við fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar um hugsanlega endurskoðun vísitölugrundvallarins. Þetta gerðu ýmsir stjórnarþm. sér ljóst, þ. á. m. hæstv. utanrrh., og verður það að segjast honum til hróss, að hann sá þó lengra en forsrh. í þessum efnum, því að hann mælti hér í gær eindregið gegn því, að þetta ákvæði næði fram að ganga.

Auðvitað er það svo augljóst sem verða má, að miklu fleiri atriði en þetta þarf að athuga í sambandi við vísitölugrundvöllinn, ef hann er á annað borð tekinn til endurskoðunar. Og auðvitað er það algerlega óviðunandi frá sjónarmiði verkalýðshreyfingarinnar, að óbeinir skattar séu teknir út úr vísitölu, en niðurgreiðslur séu þar skildar eftir. Þessu hafa menn almennt fyrir löngu gert sér grein fyrir, enda þótt ríkisstj. væri dálítið tornæm á þetta atriði og það tæki hana æðimarga daga að skilja að þetta ætti ekki heima í þessum lögum. Nú hafa skarpari menn komið henni í skilning um að þessu þurfi að breyta og verður það auðvitað að segjast, að ævinlega ber að fagna því sem horfir til bóta.

En ekki verður skilist við þessa hlið málsins án þess að minna á að öll voru vinnubrögðin í sambandi við þessa grein frv. fordæmanleg og hin verstu, og verður að vona að slík vinnubrögð verði aldrei framar endurtekin. Ef ríkisstj. hefur lært það af reynslunni í sambandi við þessa frv-gr., að þannig skuli ekki á málum halda gagnvart verkalýðshreyfingunni, að koma óvænt með ákvæði af þessu tagi inn í frv. án nokkurs samráðs við verkalýðshreyfinguna, þá var kannske þessi frvgr. ekki til einskis flutt.

Aðrar hliðarráðstafanir, sem frv. fjallar um, eru það lítilfjörlegar, að ekki er ástæða til að fara um þær mörgum orðum. Hvað er t. d. hægt að segja um ákvæði eins og það að lækka vörugjald úr 18% í 16%, — vörugjald sem var lagt á fyrir 2–3 árum sem bráðabirgðagjald í nokkra mánuði og hefur margoft verið gerð till. um af ríkisstj. hálfu að leggja algerlega niður, en alltaf verið horfið frá hví á seinustu stundu. Svo kemur ríkisstj. núna og leggur til að vörugjaldið verði lækkað úr 18% í 16%. Hvað er þetta annað en skrípaleikur? Hvað munar um það að lækka vörugjald úr 18% í 16%? Nákvæmlega ekkert. Þessi örlitla lækkun kemur auðvitað til með að felast og hverfa á bak við þær hækkanir sem gengislækkunin hefur í för með sér, og það eina, sem þessi lækkun veldur, er tímasóun fyrir þá aðila sem að þessari breytingu þurfa að standa. Hér er auðvitað um slíkt kák að ræða, að það nálgast skrípaleik, og þannig er það um þessar ráðstafanir almennt, þó að ákvæðið um vörugjaldið skeri sig þar úr. Þetta er kák. Við vitum allir að hjól verðbólgunnar heldur áfram að snúast, það er enginn vandi leystur með þessum ráðstöfunum, en jafnframt er verið að kalla yfir efnahagslífið nýjan og meiri vanda en þann sem menn þykjast vera að leysa. Það þarf auðvitað heldur engan að undra, þótt liðsmenn núv. stjórnar séu harla óhressir yfir þessum aðgerðum, sem best lýsir sér í því, að merkisberi stærsta stjórnarflokksins í stærsta kjördæminu, hv. þm. Albert Guðmundsson, sá sem verður efstur á lista Sjálfstfl. hér í Reykjavík og er því helst í fyrirsvari fyrir þann flokk í stærsta kjördæmi landsins, hann treystir sér ekki til þess að skrifa undir nál. um þessar kákráðstafanir, ekki frekar nú en oft áður.

Við stjórnarandstæðingar höfum bent á aðrar leiðir sem beri að fara við ríkjandi aðstæður, leiðir sem ber að fara reyndar hvort heldur sem ráðstafanir ríkisstj. verða gerðar eða ekki. Það er alveg jafnrík þörf á þeim ráðstöfunum, sem við gerum till. um, hvort sem ríkisstj. framkvæmir áform sín, sem nú eru á döfinni, eða ekki, og jafnvel enn meiri þörf á að grípa til þeirra ráðstafana ef þessar ráðstafanir verða að veruleika. Ráðstafanir þær, sem við höfum gert till. um, eru, eins og kunnugt er, í grófum dráttum í því fólgnar að lækka vöruverð um 16 þús. millj. kr., annars vegar með afnámi vörugjaldsins og hins vegar með markvissum niðurgreiðslum, og í öðru lagi að lækka verslunarálagningu um 1.5%. en samanlagt mundu þessar ráðstafanir miða að 7% lækkun vöruverðs. Þær mundu þannig valda því, að launaskrúfan mundi minna hreyfast um næstu mánaðamót en hún gerir samkv. till. ríkisstj.

Því hefur verið haldið fram, að þessar ráðstafanir, sem við stjórnarandstæðingar stöndum að, séu ekki fullnægjandi, við höfum t. d. ekki komið með neinar till. sem jafnist á við áhrif gengisfellingarinnar, við höfum skilið það vandamál eftir, þ. e. a. s. þann vanda sem atvinnureksturinn er þegar kominn í, og till. okkar miði að því eingöngu að koma í veg fyrir frekari víxlhækkanir verðlags og launa. Þetta er ekki rétt. Við viðurkennum fúslega, að þær leiðir, sem nefndar eru. og bær ráðstafanir, sem nefndar eru í till. stjórnarandstæðinga og verkalýðshreyfingarinnar og kenndar eru við verðlækkunarleið, miðast fyrst og fremst við það að koma í veg fyrir frekari víxlhækkun verðlags og launa. En auðvitað mundi þurfa að gera margháttaðar aðrar ráðstafanir í efnahagsmálum. Ég rakti það í alllöngu máli hér í gær, hverjar þær ráðstafanir, þyrftu að vera, og ég vil taka það skýrt fram, að í till., sem við Alþb.-menn höfum gert grein fyrir í blaði okkar Þjóðviljanum nú á seinustu vikum, er gengið miklu lengra og farið út í miklu fleiri atriði en þau sem felast í sameiginlegum till. stjórnarandstæðinga.

Við gerum t. d. ráð fyrir því í till. okkar, við Alþb. menn, að um verði að ræða talsverðan niðurskurð á framkvæmdum, svo að ég nefni dæmi. Við gerum ráð fyrir því, að frestað verði byggingu Hrauneyjafossvirkjunar. Við gerum ráð fyrir því, að stöðvaðar verði stóriðjuframkvæmdir í Hvalfirði. Þessar aðgerðir eru ekki nefndar í sameiginlegum till. stjórnarandstæðinga, vegna þess að þar var aðeins fjallað um afmarkaðan hluta vandamálsins. En það segir sig sjálft, að ef við ættum að standa að heildaraðgerðum og taka stjórnina algerlega í okkar hendur, þá yrði auðvitað um að ræða margháttaðar aðrar ráðstafanir heldur en fólgnar eru í þessum till. sem komu fram í verðbólgunefndinni, eins og till okkar Alþb.- manna, sem gerð hefur verið grein fyrir í Þjóðviljanum, bera skýran vott um.

Annað dæmi um aðgerðir, sem við stjórnarandstæðingar teljum nauðsynlegar, er vaxtalækkun. Við teljum óhjákvæmilegt að vextir af rekstrarlánum til atvinnuveganna verði talsvert lækkaðir. Þetta er ein af mörgum till. sem við Alþb.-menn höfum sett fram í þeim till. sem við gerðum grein fyrir í Þjóðviljanum að loknum miðstjórnarfundi. Við teljum og erum sannfærðir um að þessi aðgerð ein sér mundi koma atvinnuvegunum að miklu meira gagni heldur en þessi gengisfelling, sem allir sjá að kemur atvinnuvegunum í koll að skömmum tíma liðnum.

En það er nú eitthvað annað en ríkisstj. sé sammála okkur um þetta atriði, því að nú mun hafa verið ákveðið að hækka vextina enn einu sinni um 3%, þannig að víxilvextir verði 23.5% og vaxtaaukalánin fari upp í 33%. Eins og menn vita, ákvað stjórn Seðlabankans í haust, að vextir skyldu fylgja vísitöluskrúfunni eftir ákveðinni formúlu sem sett var upp, og síðan hefur þetta verið framkvæmt hvað eftir annað. Þeir sáu að vísu í þetta sinn, að það væri hreint brjálæði að ætla að fara að fylgja formúlunni út í ystu æsar, því að ef formúlunni hefði verið fylgt í þetta sinn, þá hefðu vextir þurft að hækka líklega um 13–14% til þess að jafnast á við þá verðbólgu sem sannarlega er á ferðinni nú um þessar mundir. Þeir sáu að formúlan, sem sett var upp í haust, væri bersýnilega brjálæðisleg miðað við allt ástand mála. En þeir eru enn á þeim buxunum, að það sé gagn að því að hækka vextina enn og aftur, og ekki annað að sjá en þeir stefni í 40% vexti eða þar um bil áður en þessu ári lýkur.

Við Alþb.-menn erum allt annarrar skoðunar. Við viðurkennum að eðlilegt er að lán til fjárfestingar séu að einhverju leyti miðuð við verðbólguna í bjóðfélaginu, þannig að menn hljóti ekki óverðskuldaðan verðbólgugróða í stórum stíl. En auðvitað er það augljóst mál, að rekstrarlánin til atvinnuveganna gegna nokkuð öðru máli. Menn hljóta ekki verðbólgugróða við það að taka rekstrarlán sem eingöngu er tekið til þess að geta staðið undir kostnaði vegna hráefniskaupa eða birgðasöfnunar. Það er því ljóst, að þessar gífurlegu vaxtahækkanir eru fyrst og fremst til þess fallnar ásamt öðrum vitleysislegum ráðstöfunum að keyra upp verðbólguna í þjóðfélaginu.

Menn kvarta sáran yfir því, að um sé að ræða víxlhækkanir milli verðlags og launa, og gera sér ekki grein fyrir því, að launamenn í landinu eru nauðbeygðir til þess að halda eins fast um verðtryggingu launa og þeir mögulega geta, ef þeir eiga að geta lifað við mannsæmandi kjör. Þess vegna verður að ætlast til þess, að ríkisvaldið beiti þess háttar efnahagsstefnu sem heldur verðbólgu í skefjum, þannig að víxlhækkanir verðlags og launa eigi sér ekki stað. En þegar menn setja upp kerfi eins og þetta vaxtakerfi er, sem nú er búið að setja á laggirnar, þar sem vextirnir hækka í takt við verðbólguna og síðan hækkar verðbólgan að nokkru í takt við vextina, þá eru menn svo sannarlega að grafa sína eigin gröf og stuðla að því að verðbólgan æði upp úr öllu valdi.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frv., enda tel ég mig hafa gert allítarlega grein fyrir stefnu okkar Alþb.- manna í efnahagsmálum í ræðu minni í gær við 1. umr. Ég ítreka aðeins að við erum andvígir þessu frv. Við höfum ásamt fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar og öðrum fulltrúum stjórnarandstöðunnar bent á aðrar og skynsamlegri leiðir, — leiðir sem m. a. koma fram í því nál. sem við höfum sent frá okkur, og við leggjum sem sagt til að þetta frv. verði fellt.