16.02.1978
Efri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (1817)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það virðist svo sem þau fáu orð, sem ég sagði hér í gær, hafi kallað á æðimörg andsvör frá hv. stjórnarandstæðingum, og ég mun ekki skorast undan því að ræða þetta mál nokkru frekar við þá, þó að ég hafi ekki löngun til að tefja umr. úr hófi.

Hv. 5. þm. Norðurl. v., Ragnar Arnalds, talaði hér strítt um þær ráðstafanir, sem frv. fjallar um, og taldi þær, að mér skildist, fyrst og fremst og nánast eingöngu bera vott um illvilja ríkisstj. í garð vinnandi fólks. Ég held að þetta sé mikill misskilningur. Ég held að engin ríkisstj. og a. m. k. ekki sú, sem nú situr, hafi það að markmiði að búa illa að þegnum þjóðfélagsins. Ég leyfði mér að halda því fram hér í gær, að þessar ráðstafanir væru gerðar fyrst og fremst til þess að tryggja áframhaldandi rekstur atvinnufyrirtækjanna og þar með fólkinu atvinnu, og ég fór um það nokkrum orðum hér í gær, hversu það á miklu betur við a. m. k. Íslendinga og að ég hygg flesta aðra menn að vinna fyrir launum sínum en að sækja atvinnuleysisstyrki, jafnvel þó að þeir séu í boði, með reglulegu millibili. Ég held að það þurfi ekki að fara mörgum orðum um það.

Hér hafa verið boðaðar, bæði á hv. Alþ. og í ályktunum stéttarsamtaka, harðar gagnráðstafanir, eins og þær eru kallaðar, til að standa vörð um réttindi fólksins. Og bréf hefur borist frá Alþýðusambandi Íslands, frá svokallaðri formannaráðstefnu verkalýðsfélaganna innan þeirra samtaka sem haldin var í gær. (StJ: Af hverju svokallaðri?) Ja, hún er nefnd svo. Hún gæti kannske heitið eitthvað annað. Ég ætla ekki að fara að leggja dóm á það, hvað hún ætti að heita. Hún heitir þetta, og ég held að ég hafi farið rétt með nafnið á henni. Í þessu skjali eru tilteknar aðallega tvær ástæður sem kalli á þessar hörðu aðgerðir. Þar er í fyrsta lagi gerð grein fyrir þeirri breytingu, sem 1. gr. frv. hefur á launin, þ. e. a. s. að ráðgert er að greiða minnst hálfar verðbætur nú frá 1. mars og til áramóta. Þetta er auðvitað skerðing sem ekki þýðir að bera á móti og á sér þær ástæður, sem ég hef áður gert nokkuð að umtalsefni og aðrir hér og skal ekki eyða frekari tíma i. En önnur meginástæðan, sem tilgreind er, er 3. gr. frv., eins og það var í gær. Sú ástæða er nú fallin burt, þannig að eftir stendur þá ástæða nr. eitt. Síðan segir í þessu skjali: „Þótt ekki kæmu til margvísleg fleiri atriði en að framan er greint frá, er augljóst, að með ráðstöfunum þessum væri hafin slík aðför að verkalýðsstéttinni og samtökum hennar, að óhjákvæmilega nauðsyn bæri til að gegn henni yrði snúist með öllu því afli sem samtökin hafa yfir að ráða.“

Nú leikur mér nokkur forvitni á að vita hvaða margvíslegu fleiri atriði það eru en þarna eru greind sem þessu valda. Eru það ákvæði frv. um að lækka vörugjaldið úr 18% í 16%? Ég geri ekki ráð fyrir því, því að enda þótt lækkun vörugjaldsins hafi hér af hv. 5. þm. Norðurl. v. verið kölluð skrípaleikur, þá er það þó engu að síður „skrípaleikur“ sem færir niður vöruverð um 700 millj. kr. og minnkar tekjur ríkissjóðs að því skapi, svo það getur varla verið þetta. Eru það þá ákvæði frv. um auknar niðurgreiðslur sem kalla á harðar aðgerðir verkalýðssamtakanna? Ég á ekki von á því, að 1300 millj. kr. aukning á niðurgreiðslum, sem kemur fram í lækkuðu vöruverði og auknum kaupmætti launa, kalli á harðar gagnráðstafanir frá verkalýðssamtökunum, svo að varla er þá um þessa ástæðu að tefla. Ætli það sé þá e. t. v. ákvæði frv. um barnabætur í skatti sem eiga að hækka um 5000 kr.? Ég geri ekki ráð fyrir því og tel mig ekki þurfa að færa að því rök. Ég geri ekki heldur ráð fyrir því, að hér sé átt við skyldusparnað félaga. Hann á litlum vinsældum að fagna hjá sumum. Við höfum heyrt þess merki og séð í þessum umr., en ég efa að Alþýðusambandið og ráðstefna formanna verkalýðsfélaga innan þess sé að mótmæla þessu og safna liði til að mótmæla því, að félögin axli nokkurn hluta af sameiginlegum byrðum. Þá er eftir heimild til þess að draga úr ríkisframkvæmdum og lántökum. Ég býst ekki við að það séu þessi ákvæði sem verið er að mótmæla. Ef það er, þá er gott að fá það fram. Það væri mjög æskilegt, við síðara tækifæri, skulum við segja, því að hér er víst enginn sem hefur átt sæti á formannaráðstefnu verkalýðsfélaganna, að gerð yrði grein fyrir því, hvaða margvíslegu fleiri atriði það eru sem höfð eru í huga, þegar skorin er upp herör gegn þessu frv. En 1. gr. skerðir kaupmátt manna óumdeilanlega. Hún skerðir launin um helming af verðbótavísitölu, eins og hún verður reiknuð út hvern þessara þriggja daga: 1. mars, 1. júní og 1. sept., um helming hið mesta.

Hér hefur verið sagt, að af ríkisstj. hálfu, og það sagði hv. 11. landsk. þm., sem ég hef aldrei reynt að því að fara rangt með, gagnstætt ýmsum öðrum sem ég nafngreini nú ekki, — hann sagði að hér hefði því verið haldið fram, að um enga kaupmáttarskerðingu yrði að tefla. Þetta hef ég ekki heyrt. Ég hef fyrir framan mig þau plögg sem hér hafa verið lögð fram, og þar kemur glöggt í ljós að kaupmáttur ársins 1978 verður nokkru meiri en hann var að meðaltali á árinu 1977. Hinu hefur, held ég, enginn haldið fram, að kaupmátturinn verði ekki nokkru minni en hann annars hefði orðið. Það liggur auðvitað í augum uppi, og ég hygg að ekki nokkur einasti stjórnarstuðningsmaður hafi borið annað á borð. Það segir hér í plaggi frá Þjóðhagsstofnun, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1977 jókst kaupmáttur kauptaxta launþega um nálægt 9% að meðaltali frá árinu áður. Aukning kaupmáttar ráðstöfunartekna á mann var svipuð. Um áramótin 1977–1978 var kaupmáttur kauptaxta 6–7% meiri en að meðaltali 1977. Miðað við helmingun verðbóta og hliðarráðstafanir frv. til l. um efnahagsráðstafanir verður kaupmáttur kauptaxta sennilega 3–4% minni á síðasta ársfjórðungi í ár en hann var um áramótin, og er þá miðað við að hálfar verðbætur verði greiddar 1. des. Þarna ber að hafa í huga, að grunnkaupshækkanir launa 1. júní og 1. sept. vega að nokkru upp kaupmáttarrýrnun vegna helmingunar verðbóta. Að meðaltali á árinu 1978 verður kaupmáttur kauptaxta eftir sem áður nokkru meiri en að meðaltali á árinu 1977. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verður svipaður í ár og í fyrra, þar sem beinir skattar hækka umfram hækkun tekna, og því verður kaupmáttur ráðstöfunartekna óbreyttur, þótt kaupmáttur kauptaxta aukist nokkuð.“

Þetta er það sem Þjóðhagsstofnun segir okkur, og þetta er það sem a. m. k. ég vil leggja til grundvallar í þeim málflutningi, sem hér er uppi hafður um þetta frv., og hvorki betra né verra. Þetta er það, sem kemur út úr dæminu eftir útreikningi þessara sérfræðinga. Ef menn geta reiknað þetta á annan veg og sannað að það sé rangt reiknað, þá gera þeir það að sjálfsögðu. En ég hef ekki orðið þess var, og ég vænti þess ekki að sú verði niðurstaðan.

Ég mun hafa sagt það í gær, að verkalýðssamtök og launþegar hafi ærið oft þolað aðrar eins skerðingar eða við skulum kalla það árásir á kjörin og stundum miklu meiri. Ég vil minna á það, að í 4 ár, árin 1960–1963 að báðum árunum meðtöldum, voru engar vísitölubætur á laun í gildi, — engar, ekki hálfar, þaðan af síður heilar. Þær voru engar. Engu að síður minnir mig, og nú treysti ég á minnið, að þá hafi kaup hækkað verulega. Þá var kaupið hækkað í samningum. Þá var kaupið ekki bundið vísitölu. En ég veit ekki hvort verkalýðsfélögin og launþegar voru miklu verr settir, og ég hef ekki hugsað mér að breytingar á vísitölu, t. d. á þann veg að áhrif óbeinna skatta væru tekin þar út úr, ættu endilega að rýra kjör launþega. Það er ekki meining mín a. m. k. Ég held að það sé hægt að hugsa sér og ég held að margir telji nauðsynlegt að breyta vísitöluákvæðunum og grundvellinum til þess að færa hann í réttara horf, til þess að taka af honum ýmsa þá annmarka sem allir viðurkenna að á honum eru. Og ég segi það enn og aftur, að ég fagna því að 3. gr. þessa frv. hefur verið dregin til baka. Og ég vísa um það til þess, sem ég sagði hér í umr. í gær, og ætla ekki að endurtaka það. Hitt er rangfærsla hjá hv. 11. landsk. þm. — rangfærsla sem ég átti ekki von á frá honum, að hann segir að ég hafi þar með verið að segja að við mundum lögfesta þetta síðar. Ég sagði í gær og ég skal endurtaka það, að ég tel og hef alltaf talið að breytingar á þeim vísitölugrundvelli, sem hér hefur verið um að ræða, ættu að fara fram í samráði við aðila vinuumarkaðar, og ég held að með því eina móti verði hægt að skapa um það frið og komast að heppilegri niðurstöðu um nýjan verðbótamæli á launin. Þess vegna á ég ekki von á því, að farið verði út á þá braut að lögfesta einhliða breytingar á þessum vísitölugrundvelli. Ég á ekki von á því. Ég tel og hef alltaf talið, að það lægi ekki svo mikið á að setja ákvæði sem eiga að gilda eftir 10 mánuði, að það bæri nauðsyn til þess að lögfesta þau í sambandi við þær neyðarráðstafanir sem hér er verið að gera. Hitt vil ég undirstrika, að ég tel jafnmikla nauðsyn nú og áður og jafnvel meiri en nokkru sinni fyrr, að menn gefi þessu atriði gaum, að menn komi saman og ræði um vísitölugrundvöllinn og ekki bara ræði hann, heldur reyni að koma sér niður á heppilegri skipan þessara mála en við höfum búið við.

Viðreisnarstjórnin svokallaða reyndi það á þeim árum sem ég áðan nefndi, 1960–1963, að skipa þessum málum með þeim hætti, að ekki væri samband milli launa og verðlags. Sú tilraun gafst ekki vel. Henni var hætt og aftur horfið að gamla fyrirkomulaginu. Þess vegna sýnist það ekki vera lausnin. En réttlátari, sanngjarnari viðmiðunarmáti en sá, sem nú er búið við, verður að vera til, því að öllum er ljóst og allir viðurkenna að sú tilhögun, sem nú er höfð á þessum málum, er ekki réttlát, hún er ekki heppileg og hún gefur ekki rétta mynd. Það hafa verið nefnd í þessum umr. svo mörg dæmi um annmarkana á þessu fyrirkomulagi, að ég ætla ekki að fara að endurtaka neitt af þeim. Það er okkur öllum ljóst. Þess vegna vil ég segja það, að enda þótt ég fagni því, að 3. gr. hefur verið tekin út úr frv. og þetta mál afgreitt óháð því sem ég nú var að segja, þá er það í sjálfu sér engin lausn. Það, sem þarf að gera, er að setjast á rökstóla með þeim aðilum, sem beinna hagsmuna eiga að gæta, og finna réttláta mælistiku á þessi mál.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. er nú kominn í salinn og þá get ég aðeins snúið mér að þeim kafla ræðu hans, sem hann tileinkaði mér sérstaklega og 2. gr. þess frv. sem hér um teflir. Hann taldi þessa grein mjög lítils virði, sagði að ég hefði lagt mikið upp úr henni, og það er rétt, ég gerði það. Ég viðurkenndi í gær og viðurkenni enn, að framkvæmdin er nokkuð erfið, og það má vel vera, eins og hv. 1. landsk. þm. benti á, að í vissum tilvikum sé hér um erfiðleikamál að ræða og jafnvel árekstramál, þar sem menn vinna hjá mörgum atvinnuveitendum á sama tímabili, og það þarf að reikna út eftir nákvæmum reglum, hvort menn eiga rétt á bótum samkv. 2. gr. og þá hve miklum og þá hverjir eiga að greiða þær. Það er vissulega alveg rétt. Mér dettur ekki í hug að neita því, að það geti verið erfitt að setja þá reglugerð sem til á að koma og frv. gerir ráð fyrir. En ég neita að fallast á það sjónarmið, að það sé ekki hægt að halda uppi launajöfnunarstefnu. Ég neita því. Ég hlýt að verða að gera þá kröfu til þjóðfélagsins og til þeirra, sem eiga að fara með þessi mál, að það sé hægt að sjá til þess, að þeir sem búa við verstu launin, þurfi ekki að þola jafnmikla skerðingu og við hinir. Ein leið er auðvitað til í þessu. Hún er sú að hafa engin slík láglaun. Það er kannske auðveldasta lausnin. En um það hefur ekki verið samið, og ætti það yrði ekki talin íhlutun í hið frjálsa samningsform, ef Alþ. færi að lögákveða að enginn skyldi hafa lægri laun en tiltekna fjárhæð. Ég geri fremur ráð fyrir því. Samningar þeir, sem nú er verið að tala um og öllum eru heilagir, gera ekki ráð fyrir því, að vissir þjóðfélagshópar hafi þau lágmarkslaun sem þola slíka skerðingu. Þeir hafa það ekki. Þess vegna hef ég fyrir mitt leyti lagt á það ríka áherslu, að í þessum ráðstöfunum væri gert ráð fyrir að uppbætur til þeirra, sem verr eru settir, væru meiri en til hinna. Og ég vænti þess og vonast fastlega til þess, að viðfangsefnið sé ekki svo tröllaukið og ekki svo erfitt, að ég ekki segi óyfirstíganlegt, að það megi ekki finna einhverja leið, jafnvel þótt það kosti nokkra fyrirhöfn og kannske í undantekningartilfellum einhver leiðindi.

Það er auðvitað alveg hárrétt hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að þessar láglaunabætur verða í takmarkatilvikum hlægilegar. Það er auðvitað alveg rétt. Hann kaus að velja sér mann, sem var með laun svona alveg rétt undir því að fá engar bætur, og sannaði það með óyggjandi rökum og tilvitnunum í frv., að það væri heldur lítið sem þessi maður bæri úr býtum. Það er alveg rétt auðvitað. Það munar hársbreidd að þessi maður fái engar bætur. Ef hv. þm. hefði tekið dæmi af manni sem hefur örlítið betri laun, þá fékk hann ekki neitt og gat sannað að uppbæturnar væru núll, og þá hefðu ákvæðin vafalaust verið enn þá hlægilegri. Ef hann hefði t. d. tekið alþm., þá var útkoman ekki glæsileg fyrir þá. Þá dugði greinin ekki mjög mikið til þess að rétta þeirra hlut, enda er hún ekki ætluð til þess. En það er hægt að hugsa sér önnur dæmi um miklu lægri laun en hv. þm. tók til viðmiðunar, 167 þús. kr. miðaði hann við. Það eru ekki allir sem hafa 167 þús. kr. í laun. Og hvernig kemur dæmið út þegar reiknuð eru laun þeirra sem hafa 120–130 þús. kr. í mánaðarlaun? Ég er ekki svo reikningsglöggur að ég treysti mér til þess að fara með slíkar tölur. Ég á heldur enga tölvu til þess að sanna þetta með. En ég er viss um að það kemur allt annað út úr því dæmi heldur en það sem hv. 5. þm. Norðurl. v. var að reikna fyrir okkur með miklum glæsibrag áðan. Ég skil ekki hvers vegna þessi málsvari láglaunafólks og launþega leyfir sér að gera lítið úr því, þegar í þessu frv. er þó gerð tilraun til þess að rétta hlut þessa fólks. Mér finnst það koma úr hörðustu átt, miðað við annan málflutning sem úr þeim herbúðum kemur.

Auðvitað er erfitt að hafa undantekningarákvæði. Það er alltaf auðveldast að hafa lög klár og kvitt, eitt gildi fyrir alla. En staðreyndin er bara sú, að þjóðfélagsaðstæður fólks eru svo misjafnar að það, sem einn getur auðveldlega þolað, getur annar ekki búið við, og það er undir þennan leka sem reynt er að setja með ákvæðum 2. gr. Nú vil ég taka það alveg skýrt fram, að frá minni hálfu er ekkert heilagt við aðferðina í 2. gr., ekki einn einasti stafur. Það má breyta því öllu saman, ef hv. stjórnarandstæðingar og þeir, sem gagnrýna greinina, geta komið með aðra aðferð sem betur þjónar þeim tilgangi sem greininni er ætlað að þjóna. Og fyrstur manna skal ég verða til þess að ljá atkv. hér á hv. Alþ. þeirri leið sem er auðveldari í framkvæmd, en nær sama tilgangi.

Ég held að ég hafi tekið rétt eftir því í gær, að hv. 5. þm. Norðurl. v. — ég má til að segja eina setningu við hann enn þá — hafi sagt að ríkisstj. kæmi í veg fyrir launajöfnuð í landinu. Mér kemur ákaflega spánskt fyrir að heyra þetta. Ég veit ekki betur en launakjör séu yfirleitt háð samningum vinnuveitenda og launþega, og ég veit ekki betur en í samningum þeim, sem Alþýðusamband Íslands gerði á s. l. sumri, eins og það samband hefur gert við mörg svipuð tækifæri á undanförnum árum, hafi verið ákaflega mikill launamismunur, alveg gífurlega mikill. Innan þess vébanda eru, að því er mér skilst, hinir allra lægst launuðu í þjóðfélaginu og hinir allra hæstu, eins og t. d. flugstjórar. Alþýðusamband Íslands semur frjálst fyrir þessa menn við þeirra vinnuveitendur, og hefur verið komist að þeirri niðurstöðu, að flugstjórum beri þessi laun. Það er ekki ríkisvaldið, sem hefur ákveðið þessi laun, það eru frjálsir samningar, þar sem samið er annars vegar um 130 þús. kr. mánaðarlaun og hins vegar um — ja, guð má vita hvað, ég veit það ekki. (Gripið fram í.) Allt að milljón kannske. Ég tel ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þetta. Það segir sig sjálft, að það eru ekki áhrif neins ríkisvalds sem koma í veg fyrir að flugstjórar og Dagsbrúnarverkamenn búi við sömu laun. Það er eitthvað allt annað sem ræður því, og það getur vel verið að það eigi að vera launamismunur. Ég býst við að hann sé alveg óhjákvæmilegur. En að það sé eitthvert valdboð, sem bannar að menn búi við sömu laun eða svipuð kjör, það er ekki fyrir hendi.

Hér hefur verið nokkuð minnst á leiðir stjórnarandstöðunnar eins og þær eru settar fram m. a. í nál. hv. minni hl. fjh.- og viðskn. Hv. 5. þm. Austurl. gerði þessar leiðir rækilega að umtalsefni hér í gær, og ég heyrði ekki mótmælt hér í dag og ekki heldur í gær í málflutningi hans um haldleysi þessara leiða — svokölluðu leiða, og nú ætla ég að nota orðið svokallaða í annarri merkingu en áðan. Það, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. hafði við þær að bæta, af því að hann fann auðvitað að þær dugðu ekki einar sér, var að Alþb.-menn hefðu haft ýmislegt fleira fram að færa. Var sumt af því býsna nytsamlegt og ágætt. Hann talaði t. a. m. um niður skurð framkvæmda. Ég býst við því, að ég gæti orðið honum sammála um ýmsan niðurskurð framkvæmda. Hann nefndi tvö tilvik. Hann nefndi það að fresta Hrauneyjafossvirkjun. Ég er ekki sammála honum um það. Ég vil nú í allri vinsemd segja það við hann, að þó að hann hafi ekki sem besta reynslu af Kröflu, þá geri ég alveg ráð fyrir því og veit það raunar, að Hrauneyjafossvirkjun mun skila sínu afli undireins og í hana er ráðist. Hún er nefnilega vel undirbúin. Það hefur verið unnið að undirbúningi þessarar virkjunar í mörg ár og það af mönnum sem áður hafa virkjað og virkjað á þann hátt, að það hefur skilað rafmagni undireins og vélarnar voru settar í samband. Ég held einmitt að þar sem Kröflufyrirtækið verkar ekki sem skyldi, ekki enn þá a. m. k., þá sé aukin ástæða til þess að ráðast í Hrauneyjafossvirkjun, vegna þess að það vantar m. a. það rafmagn sem Kröfluvirkjun átti að skila. Og rafmagn geri ég ráð fyrir að við viljum hafa. Rafvirkjanirnar hafa skilað árangri og arði, hitaveiturnar hafa skilað arði, og það eru rangir búskaparhættir að leggja ekki í arðbærar og nauðsynlegar framkvæmdir. Það eru aðrar framkvæmdir, sem mín vegna má gjarnan fresta og hætta við, ef hægt er. Ég hef ekki verið mestur talsmaður kísiljárnsverksmiðju, hvorki í vinstri stjórn né í þeirri stjórn sem nú situr. (StJ: En greitt atkv. um það.) Ég greiddi atkv. í ríkisstj. með till. þáv. iðnrh., Magnúsar Kjartanssonar, um samningana við Union Carbide, og ég hef líka í framhaldi af því verið með samningum við Eikem-verksmiðjuna. (StJ: Þetta gildir.) Það gildir, já, já, hvort tveggja og alveg jafnt í mínum huga. Ég þakka ábendinguna. Ég ætla að undirstrika að þetta gildir í báðum tilvikum, vegna þess að menn töldu, og má vera að það eigi eftir að koma á daginn, að hér sé um nytsamt og arðbært fyrirtæki að ræða. Þeir, sem gleggst þekkja til ástands á heimsmarkaði kísiljárns, eins og hv. 5. þm. Norðurl. e., eru nú farnir að hafa efasemdir um, að verðið sé hagkvæmt, og byggja það á umsögnum annarra raunar. Kannske borgaði sig að við keyptum okkur út úr þessum samningi, eins og Union Carbide keypti sig út úr samningnum við okkur. En það er sennilega ekki til umr. hérna.

Hv. þm. Ragnar Arnalds nefndi líka vaxtalækkun, og ég get verið honum sammála um það, að vafasamt sé að hækka vexti eins og nú standa sakir, og hann talaði um að við í ríkisstj. værum enn á þeim buxunum að hækka nú vextina. En hefur hv. þm. kynnt sér það, í hvaða buxum fulltrúi Alþb. í stjórn Seðlabankans er í dag? Ég hefði gaman af að vita það, hvort hann er ekki á móti vaxtahækkun eins og hinir Alþb.- mennirnir — eða er hann með henni? Hann hefur nefnilega verið með henni hingað til. Fulltrúi Alþb.- manna í stjórn Seðlabankans hefur ævinlega verið með vaxtahækkun. Kannske hefur hann haft buxnaskipti í dag? Ég veit það ekki. Það kemur í ljós nú alveg næstu daga. Og ég get sagt það, að ég mundi að vissu leyti fagna því, ef menn hefðu fataskipti í þessu efni. En eins og ég sagði hér í gær, þá er bara gallinn á þessum vaxtamálum sá, að á þeim eru tvær liðar og um leið og vextirnir fylgja ekki nokkurn veginn verðbólgu, þá tapa sparifjáreigendur, og það er líka slæmt. Nei, ég held, því miður, að þessar leiðir sem verið er að benda á þarna, nái ekki tilgangi sínum. Ég segi því miður, því að auðvitað væri miklu betra, ef málið væri ekki margbrotnara en þetta, að þessi 4–5 atriði, sem hér eru talin upp í nál., eða 7, hvað það nú er, mundu leysa allan okkar vanda. En það held ég að sé afar langt frá, að svo geti talist.

Það er líka talað um það í þessu sambandi, að fyrirtæki og stofnanir, sem þjóna almenningi í landinu og eru ríkisrekin, hækki mikið sín þjónustugjöld og stundum jafnvel meira en sjálf verðbólgan vex. Þetta er vafalaust í sumum tilvikum alveg rétt. En ástæðan er ekki, held ég, slæmur rekstur þessara fyrirtækja. Ég held að ástæðan sé fyrst og fremst sú, að það vilja allir fá þessa þjónustu og þeir vilja fá hana strax, og sú leið hefur verið farin að verulegu leyti að láta þjónustugjöldin standa undir framkvæmdum og útþenslu þessara fyrirtækja. Með útþenslu á ég við dreifingu, að fleiri geti notið þjónustunnar heldur en hingað til hafa hana. Þetta er geysilega dýrt og hefur orsakað það, að þessi þjónustugjöld eru mjög há og fara hækkandi, m. a. vegna þess aukna tilkostnaðar sem við búum hér við, þessi þjónustufyrirtæki í landinu eins og allir aðrir. Það er náttúrlega hægt að draga úr þessum kostnaði með því að stöðva dreifingu þessara fyrirtækja. En vilja menn það? Ég held ekki. Og mér sýnist á þáltill.-flutningi, á umr. um þáltill., á fsp.-flutningi og umr. um þær, að þm. séu ákaflega viðkvæmir fyrir því, að þessi dreifing verði ekki stöðvuð, að henni verði flýtt. Þeir vilja það og það er ósköp skiljanlegt. Það er vegna óska frá því fólki, sem þeir eru umbjóðendur fyrir. En það kostar býsna mikið að búa 220 þús. manns í 100 þús. km2 landi. Öll dreifing á slíkri þjónustu er dýr hér og tiltölulega miklu dýrari en mjög víða annars staðar, þó að undantekningar séu til. Þess vegna verða menn, held ég, að átta sig á því, að annaðhvort er að gera: að bíta á jaxlinn og borga þessi gjöld, til þess að aðrir geti notið þjónustunnar, eða að stöðva aukninguna. Að hluta til hefur verið reynt að brúa þetta bil með erlendum lántökum. Þær eru náttúrlega gífurlega miklar, og ríkisstj. hefur sett sér það mark á þessu ári, að þær aukist ekki frá því sem þær voru við árslok, og ég held að út af fyrir sig hafi enginn gagnrýnt þá ráðstöfun. Sumum finnst kannske tæpast nóg að gert. En þetta þýðir þá það, að þessi leið er þar með að verulegu leyti lokuð. Nú held ég að menn þurfi ekki að hafa ýkjamiklar áhyggjur af þessum erlendu lántökum, þ. e. a. s. ef hér tekst að halda uppi fullri atvinnu og ef fiskistofnarnir bregðast ekki þeim mun meira, því að staðreyndin er sú, að á s. l. ári, þrátt fyrir þessar skuldir, var greiðslubyrðin ekki nema 14% af útflutningsverðmætinu og hefur oft verið hærri. Að vísu er spáð, að hún muni geta farið eitthvað upp. Allt fer það þó eftir ástandi efnahagsmálanna almennt, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds sagði raunar réttilega hér í gær.

Ég held að ég verði að fara að slá botn í þessa ræðu, sem átti að verða stutt og skal verða það. En ég vil aðeins segja það við hv. 12. þm. Reykv., áður en ég fer úr þessum ræðustól, að ég sé ekkert athugavert við það, ekki nokkurn skapaðan hlut athugavert við það, að félög og stofnanir séu skylduð til að leggja til hliðar í þjóðfélagspúkkið eins og allir aðrir. Unglingar hafa í mörg ár, allt að því börn, verið skyldaðir til að leggja til hliðar af sínu takmarkaða sumarkaupi töluverðar fjárhæðir til sameiginlegra þarfa, til húsbyggingarsjóðs held ég að það fari. Það segir enginn neitt við því, sumum þykir þetta ágætt. Fyrir nokkrum árum var ýmsum einstaklingum í þjóðfélaginu gert að leggja til hliðar, að vísu þeim sem höfðu háar tekjur og gátu staðið undir því, tilteknar fjárhæðir í sama skyni. Ég held að það sé ekkert athugavert við það, ekki nokkur skapaður hlutur. Alveg á sama hátt sé ég ekkert athugavert við það, að öllum félögum og öllum stofnunum í landinu sé samanlagt gert að leggja til hliðar 800 millj. kr. með fullum vísitölubótum í tiltölulega skamman tíma. Mér finnst það sanngjarnt og mér finnst að það hefði átt að lögleiða þetta fyrir lifandi löngu.

Ég ætla svo að ljúka þessum fáu orðum með því að endurtaka það, að ég sé ekki að með þessu frv., eins og það er nú orðið, séu lagðar þær kvaðir á launþegasamtökin í landinu, að þau geti ekki við unað í takmarkaðan tíma. Valið stendur á milli þess að hægja ferðina eða búa við atvinnuleysi. Hvort vilja menn? Ég vil fulla atvinnu.