16.02.1978
Neðri deild: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2513 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

182. mál, ráðstafanir í efnahagsmálum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Sterkasta ríkisstj., sem Ísland hefur þekkt í rúmlega tvo áratugi, er nú að stiga sín síðustu spor. Miðvikudaginn 8. febr. gerðu fulltrúar hennar í verðbólgunefnd ríkisstj. ákveðna till. Þeirri till. hafnaði ríkisstj. Mánudaginn 13. febr. s. l. gerðu fulltrúar hennar í verðbólgunefnd aðra till. til Alþ., sem var um margt annað en till. sem þeir höfðu gert til ríkisstj. miðvikudaginn 8. febr. Og nú nokkrum dögum síðar, fimmtudaginn 16. febr. gera fulltrúar ríkisstj. þriðju till. Hv. formaður fjh.- og viðskn. þessarar hv. d. hefur þannig á tímabilinu frá 8.–16. febr. gert þrjár till. um meðferð efnahagsmála.

Herra forseti. Þetta sýnir okkur aðeins hvers konar hrærigrautur ræður nú ferðinni hjá hæstv. ríkisstj., hvers konar upplausn er í stjórnarherbúðunum. Ég tel mig vera lýðræðis- og þingræðissinna. Ég geri mér engu að síður grein fyrir því, að þjóðfélag eins og okkar byggir lagasetningu sína á því, að borgararnir geri sér ljóst að lög séu réttlát og þau séu í samræmi við réttarvitund þeirra. Ég lét það í ljós í útvarpsumr. nú á dögunum, að ég óttaðist það mjög, að sú lagasetning, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði þá að gera og ætlar enn, bryti í bága við réttarvitund borgaranna, eins og hún brýtur í bága við fjárhagsskuldbindingar þær sem aðilar frjálsra kjarasamninga á vinnumarkaðinum, launþegar og vinnuveitendur, hafa bundist, eins og sú lagasetning brýtur í bága við fjárhagsskuldbindingar þær sem hæstv. ríkisstj. hefur fyrir aðeins þremur mánuðum bundist við starfsmenn ríkisins. Ég lét það í ljós í útvarpsumr., að ég óttaðist sérstaklega áhrif þeirrar ákvörðunar ríkisstj., sem fram kemur í 3. gr. frv., að gera með lögum breytingar á grundvelli vísitöluútreiknings án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Hæstv. ríkisstj. hefur nú dregið þann þátt stefnumörkunar sinnar í efnahagsmálum til baka. Það tel ég tvímælalaust spor í rétta átt. En ég bendi jafnframi á að það spor sýnir aðeins hversu óþarft þetta ákvæði var í upphafi. Þetta spor sýnir að hæstv. ríkisstj. lítur á afnám þessa ákvæðis frv. þannig, að það skipti engu máli um niðurstöðu þeirra aðgerða sem ákveða á með lagasetningunni, enda er það rétt. Það skiptir engu máli um niðurstöður þeirra aðgerða sem ákveða á með lagasetningu þessari, hvort 3. gr. er afnumin eða ekki. Það sýnir fram á það, að 3. gr., eins og hún var upphaflega ákveðin af ríkisstj., var ögrun gagnvart verkalýðshreyfingunni, sem hefur hrundið af stað atburðarás sem ekki verður séð fyrir endann á.

Sá flótti, sú hopun, sem felst í þeirri ákvörðun ríkisstj. að hverfa frá þessari 3. gr., kemur of seint. Ég vil hins vegar líta svo á að þessi afstaða hæstv. ríkisstj. sé til marks um það, að nú á elleftu stundu kunni að vera von til þess að hæstv. ríkisstj. vilji ganga til samningaviðræðna við verkalýðshreyfinguna um samstarf í kjara- og efnahagsmálum. Ég vona að svo sé.

Ég tek það fram, að ég óttast, ef svo heldur fram sem horfir, að ríkisstj. haldi fast við sitt og verkalýðshreyfingin, samtök 60 þús. launþega á Íslandi, haldi fast við sitt, eins og full ástæða er til þess að ætla, að þarna verði um að ræða mikla árekstra á milli. Ég óttast niðurstöðu af slíku. Ég er ekki einn um það.

Við stjórnarandstæðingar höfum lagt til, að á þessu stigi málsins taki ríkisstj. sér hlé, tíma til þess að kanna hvort möguleiki sé til að samstarf og samráð geti tekist á milli hennar og verkalýðshreyfingarinnar á elleftu stundu, — ekki á elleftu stundu fyrir hæstv. ríkisstj., ekki á elleftu stundu fyrir verkalýðshreyfinguna, heldur á elleftu stundu fyrir íslensku þjóðina. Það væri leitt til þess að vita, ef hæstv. ríkisstj. héldi svo fast við áform sín, að 2, 4, 10, 12 eða 24 klukkustundir mundu skilja á milli feigs og ófeigs, að jafnskammur tími í sögu íslensku þjóðarinnar mundi skilja á milli þess, að samvinna tækist á milli þeirra aðila í þjóðfélaginu sem ráða eftir hvaða farvegi íslensk efnahagsmál falla, samstarf tækist milli slíkra afla og ríkisstj. um að leysa efnahagsmálin, eða að stefnt yrði til stéttastríðs. Með því að fallast á till. okkar stjórnarandstæðinga um að vísa frv. þessu til ríkisstj. er ekki verið að taka efnislega afstöðu til frv. Alþingi er ekki með slíkri afgreiðslu að dæma um það, hvort till. ríkisstj. séu réttar eða rangar. Alþ. er aðeins að taka frest á elleftu stundu til þess að reyna að ná samkomulagi milli stjórnvalda og stéttarfélaga um samstarf og samstöðu. Ég tel að það sé ábyrgðarhluti af okkur alþm. undir slíkum kringumstæðum að neita slíkri beiðni.

Hæstv. ríkisstj. getur ekki stefnt landinu til stéttastríðs vegna þess að hún vilji ekki veita frest í 12 tíma. Hún getur ekki stefnt þjóðinni í stéttastríð vegna þess að hún eigi ekki 12 klukkustundir aflögu til þess að ræða við íslenska verkalýðshreyfingu. Það er engin minnkun fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. að samþykkja að gefa ríkisstj. og verkalýðshreyfingunni 24 stundir til þess að leita samkomulags. Það er skylda okkar alþm. að stuðla að slíku. Það er ekki minnkun fyrir stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. að gera slíkt. Þeir vaxa af slíku, en minnka ekki.