26.10.1977
Efri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 247 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

37. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Albert Guðmundason:

Herra forseti. Ég vil lýsa furðu minni á mörgu því sem kom fram hjá hv. þm. Ragnari Arnalds, 5. þm. Norðurl. v., í hans málflutningi. Það er e.t.v. Ekki ástæða fyrir mig að undrast, þegar tekjustofna er leitað, að það skuli án undantekninga, má segja, vegið í sama knérunn og þá helst skattlagningu á þau fyrirtæki eða þá starfsemi sem fer fram í Reykjavík. Ræða hv. þm. var þess eðlis, að ég mun óska eftir að fá hana nú að þessum umr. loknum til athugunar og áskil mér rétt til að svara henni við 2. umr. Mér þótti vænt um að hann áttaði sig á tímabili á því, að Reykjavík hefur ekki ein landið allt sem viðskiptasvæði þótt mörg fyrirtæki séu staðsett hér og heimilisföst, en aftur á móti hefur landið allt höfuðborgina eina til að beina athygli sinni að. Og því fylgja skyldur, það er alveg rétt. Ég fagna því að hann skuli hafa áttað sig á því. Og þær höfuðborgarskyldur ber Reykjavík með ánægju, þó að þær kosti peninga, og þær verða vonandi áfram á herðum Reykjavíkurborgar. Næsta skrefið er kannske að stinga upp á að eitthvert annað byggðarlag verði höfuðborg, og það væri jafnvel æskilegt að það kæmi fram. Í þessu tilfelli á þetta að kosta Reykjavík 65 millj. En þó ganga till. ekki nógu langt, þær þurfa að vera róttækari, sagði flm.

Það er eins gott að Reykvíkingar átti sig á því einmitt á þessum tímamótum sem við stöndum nú á, að þessi breyting til hins verra fyrir Reykjavíkurborg átti sér fyrst og fremst stað þegar vinstri stjórnin tók við völdum. Ég óska eftir því, ef hv. 1. þm. Reykv. er hér einhvers staðar í kallfæri, að hann taki nú þátt í þessum umr. eða sendimenn hans frá Morgunblaðinu birti þetta, þannig að fólk viti það. En ég geri ekki ráð fyrir að þeir hafi eyru fyrir þessari deild frekar en vant er.

Að öðru leyti vil ég segja það, að þetta er nýr auðlindaskattur sem á að leggja á fyrirtæki vegna þess að þau eru í Reykjavík, og um það vil ég segja að mér bregður ekkert, ég hef heyrt þetta áður. En ég vil endurtaka: Ég ætla að fá afrit af þessari ræðu hv. flm. og lesa hana vel yfir og reyna að komast fram úr þeim tölum sem hann var með, vita hvað er rétt og hvað er rangt í þeim og svara honum þá betur við 2. umr.