26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Pálmi Jónsson:

Hæstv. forseti. Ég átti sæti í þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. og þótti því nokkuð miður að geta ekki verið viðstaddur þá umr. sem hér fór fram s.l. mánudag um þetta mál. Hafi sú umr. verið með líkum hætti og hér hefur staðið í dag, þá hef ég vissulega allmikils í misst. Ég hef þó lesið greinargóða frásögn af ræðu hæstv. ráðh. í dagblaðinu Tímanum og nokkra frásögn af umr. að öðru leyti.

Ég vil fyrst segja það, að ég tel eðlilegt að setja löggjöf um Sinfóníuhljómsveit Íslands, svo fremi að menn telji að hljómsveitin eigi að starfa hér á landi. Það er óeðlilegt að slík stofnun starfi árum og áratugum saman án þess að um hana sé sett sérstök löggjöf. Ég vil jafnframt lýsa því yfir að frv. það, sem hér liggur fyrir, er að miklu leyti í þeim farvegi sem ég tel eðlilegt að slík löggjöf fari eftir, þ.e. rammalöggjöf sem hefur inni að halda ákvæði um skiptingu kostnaðar við rekstur stofnunarinnar, stjórn stofnunarinnar og hlutverk. Enn fremur tel ég eðlilegt að í slíkri löggjöf sé svo um hnúta búið að unnt sé að gæta aðhalds í rekstri stofnunarinnar af hálfu þeirra sem kostnaðinn bera. Ég átti sæti í undirbúningsnefnd frv. sem fulltrúi fjvn. Alþ., og ræður að líkum að ég hafi fyrst og fremst hugað að þeim þáttum frv. sem snerta fjármál. Ég tel að ég hafi ekki verið tilnefndur til setu í nefndinni vegna þekkingar minnar á listrænni hlið málsins, enda er skemmst frá að segja að sú þekking er af skornum skammti hjá mér. Mun ég ekki blanda mér í þær umr. sem hér hafa farið fram um listræna hlið þessara mál.

Það fór svo, að nefndin varð ekki alveg á eitt sátt og ég ásamt öðrum nm., Erni Marinóssyni þáv. skrifstofustjóra fjárlaga- og hagsýslustofnunar ríkisins, skilaði minnihlutaáliti um tiltekin atriði. Ég tel rétt, með leyfi hæstv. forseta, að lesa þetta minnihlutaálit hér, en það er dags. í Reykjavík 2. maí 1977 og er skrifað til menntmrh., svo hljóðandi:

„Með bréfi, dags. 27. apríl s.l., skilaði nefnd sú, er skipuð, var til þess að semja frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands, áliti sínu. Í bréfi þessu er tekið fram, að nefndin hafi eigi komist að sameiginlegri niðurstöðu og að tveir nm., við undirritaðir, Pálmi Jónsson og Örn Marinósson, muni gera sérstaka grein fyrir viðhorfum sínum.

Í framhaldi af því viljum við undirritaðir taka eftirfarandi fram:

1. Hlutfallsleg skipting stofn- og rekstrarkostnaðar hljómsveitarinnar samkv. 3. gr. frv. felur í sér mjög sambærilega byrði ríkissjóðs og verið hefur að undanförnu, þrátt fyrir nokkuð breytt fyrirkomulag. Teljum við að þar sé gengin til hins ítrasta að því er eðlilega hlutdeild ríkissjóðs varðar.

2. Við teljum eðlilegt, að fjöldi hljóðfæraleikara, samkv. 6. gr., sé ákveðinn með afgreiðslu fjárl. hverju sinni. Getum við því ekki staðið að því að leggja til, að lögfest verði, að við hljómsveitina starfi 65 fastráðnir hljóðfæraleikarar.

3. Við undirritaðir leggjum sérstaka áherslu á að fjárhagsleg þátttaka Þjóðleikhússins í rekstri hljómsveitarinnar sé háð þeim skilyrðum, sem fram koma í 9. gr. frv., þ.e. að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitarinnar fullnægi hluta af vinnuskyldu sinni hjá Þjóðleikhúsinu, í samræmi við þarfir þess. Væntum við, að þetta fyrirkomulag hafi í för með sér að komist verði að mestu hjá aðkeyptum tónlistarflutningi.

Virðingarfyllst,

Pálmi Jónsson.

Örn Marinósson.“

Ég tel, að ekki sé ástæða til að skýra þessi atriði mörgum orðum. En í sambandi við 1. tölul. er rétt að geta þess, að með frv. er gert ráð fyrir nokkuð breyttu greiðslufyrirkomulagi af hálfu þeirra aðila sem standa undir rekstri Sinfóníuhljómsveitarinnar, á þann veg að 10% skemmtanaskattsins, sem áður var innifalið í hlut ríkissjóðs í þessum kostnaði, renni nú beint til hljómsveitarinnar samkv. frv. Af þeim sökum er eðlilegt að dragi úr þátttöku ríkissjóðs, sem í frv. er gert ráð fyrir að verði 37% í stað 50.6%, eins og verið hefur. Þetta er mjög sambærilegt hlutfall við það sem áður var, og var ekki um að ræða af hálfu okkar, sem skipuðum minni hlutann, að ganga lengra í þátttöku ríkissjóðs.

Um 2. tölul. er það að segja, að við teljum eðlilegt að ekki sé lögfest ákveðin tala hljóðfæraleikara sem starfi sem fastráðnir við þessa hljómsveit. Við teljum að eðlilegra sé að það sé ákveðið af Alþ. hverju sinni við afgreiðslu fjárl. Með þeim hætti gefst Alþ. og fjárveitingavaldinu betri kostur á því að fylgjast með og takmarka fjárveitingar til stofnunarinnar heldur en ef fastákveðið væri í lögum að hljóðfæraleikarar væru allt að 65.

Ef litið er á það, hvernig þetta hefur verið að undanförnu, þá hafa starfað allt að 65 hljóðfæraleikarar hjá Sinfóníuhljómsveitinni. Samkv. starfsmannaskrá 1976 voru 68 stöður hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og hafa væntanlega verið 65 hljóðfæraleikarar þar af, en af þessum 68 stöðum voru 15 án heimildar. Hinum óheimiluðu stöðum er fækkað samkv. starfsmannaskrá 1. jan. 1977, þannig að nú virðist starfa hjá hljómsveitinni 61 maður, þar af átta án heimildar, eða að því er virðist 58 hljóðfæraleikarar. Ég tel að það liggi nokkuð ljóst fyrir, þrátt fyrir að mig bresti þekkingu á tónlistarflutningi, að verkefni, sem hljómsveitin tekur að sér, muni krefjast nokkuð mismikils mannafla og þegar samin er starfsáætlun fyrir hljómsveitina sé unnt að taka ákvörðun um það, hvort lagt skuli út í sérstaklega starfsmannafrek og fjárfrek viðfangsefni, og þær ákvarðanir þarf að taka það snemma að unnt sé að bera undir þá aðila sem standa undir rekstri stofnunarinnar, bæði áður en fjárl. eru afgreidd á Alþ. og áður en afgreiddar eru fjárhagsáætlanir fyrir þau sveitarfélög sem koma til með að standa undir rekstrinum. Þetta tel ég eðlilegra en að binda svo háa tölu sem gert er ráð fyrir í frv. um tölu hljóðfæraleikara.

Ég vil taka það fram, að framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar, Sigurður Björnsson óperusöngvari, gaf nefndinni mjög greinargóðar og trúverðugar upplýsingar um að þörf hljómsveitarinnar væri fyrir slíka starfskrafta sem hér er nú getið um, 65 hljóðfæraleikara, og hef ég í sjálfu sér ekki mikla aðstöðu til að rengja það og ekki ástæðu til. En mér sýnist þó augljóst að verkefnaval hlýtur að geta ráðið þarna verulegu og verkefnaval og kostnaður við rekstur þurfa að haldast í hendur við þær ákvarðanir sem teknar eru af Alþ. og þeim sveitarstjórnum sem koma til með að standa undir rekstri stofnunarinnar.

Í sambandi við 3. tölul. í minnihlutaáliti eða aths. okkar Arnar Marinóssonar víl ég láta það koma fram, að ég tel að 9. gr. frv. sé mjög mikilvæg gr., þar sem kveðið er á um að Sinfóníuhljómsveit og Þjóðleikhús skuli hafa samvinnu um flutning söngleikja, eftir því sem stjórn hljómsveitarinnar og þjóðleikhúsráð telja henta, og einnig að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar fullnægi hluta af starfsskyldu sinni með vinnu á vegum Þjóðleikhússins. Ég vil láta það koma fram, að forsenda fyrir því, að ég tel mér fært að samþykkja þann kostnaðarauka sem orðið hefur og fyrirsjáanlega verður af störfum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í framtíðinni, er forsenda að eitthvað marktækt komi út úr þessari grein, að það standist í raun að starfsmenn Sinfóníuhljómsveitar gegni starfsskyldu sinni að hluta á vegum Þjóðleikhússins, þannig að Þjóðleikhúsið þurfi ekki nema í mjög óverulegum mæli að eyða fé í aðkeyptan tónlistarflutning. Með þeim hætti ætti að sparast nokkuð í rekstri Þjóðleikhússins á móti því sem útgjöld aukast hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þetta tel ég mikilvægt, og ég tel eðlilegt að reynsla komi á hvernig þessi grein verður framkvæmd áður en gengið yrði í það að ákveða með lögum að hljóðfæraleikarar hjá hljómsveitinni skuli vera allt að 65.

Ég sé að hv. þm. Lárus Jónsson hefur þegar flutt brtt. við þessa gr., 9. gr. frv. Ég vil lýsa yfir fylgi við þá brtt. Ég tel að gr. sé tæplega nógu skýrt mörkuð eins og hún er í frv., og sé til bóta sú viðbót sem hv. þm. Lárus Jónsson leggur til að tekin verði upp. Enda þótt segja megi og það hafi verið skilningur nm., sem unnu að samningu frv., að þau atriði, sem hann telur upp í sinni brtt., felist í frv., þá er það skýrara og ótvíræðara að það sé betur tekið fram, eins og raunar er gert í þeirri brtt. sem hv. þm. Lárus Jónsson hefur lagt fram á þskj. 57.

Ég held að ekki sé sérstök ástæða fyrir mig að fara um þetta mörgum fleiri orðum. Ég get sumpart tekið undir það sem hv. þm. Karvel Pálmason sagði áðan, að betur mætti gera í því að Sinfóníuhljómsveitin færi í hljómleikaferðir út um land. Ég vil þó segja það sem ég tel lofsvert, að hljómsveitin fór a.m.k. eina ferð um landið á s.l. sumri, og það tel ég þakkarvert og vænti þess að verði framhald á því. Ég tel einnig að það sé réttlætanlegt og sjálfsagt, sem fram kemur í till. Lárusar Jónssonar, að slíkar ferðir eigi að teljast til vinnuskyldu starfsliðs hljómsveitarinnar og beri ekki að greiða sérstaka þóknun fyrir það. Eigi að síður hlýtur að leiða af því nokkurn kostnað af öðrum toga.

Það er svo með þá sem starfa í fjvn., og skýrir þá afstöðu sem ég hef sett fram í minnihlutaáliti ásamt Erni Marinóssyni, að okkur finnst ýmsir fjárlagaliðir hækka nokkuð milli ára oft á tíðum. Það hefur einnig gengið svo með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þó að ég lýsi því sjónarmiði, þá er það ekki af neinum fjandskap við listir í landinu, og ég tel að við eigum að geta rætt slík mál án þess að verið sé að túlka það sem einhverja árás á listir og þær stofnanir sem annast listflutning til þjóðarinnar.

Ég tel t.d. að ástæða sé til að fá skýringu á því, að í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, er gert ráð fyrir að launaliður Sinfóníuhljómsveitarinnar hækki frá fjárl. 1977 um 45% eða um 50 millj, kr. Samt hefur verið fækkað óheimiluðum stöðum hjá hljómsveitinni frá 1. jan. 1976 til 1. jan. 1977 um 7 talsins. Þannig er ýmislegt í þessum málum sem ástæða er fyrir Alþ. að fylgjast með. Af þeim toga er að mestu leyti það minnihlutaálit sem við Örn Marinósson höfum hér skilað.

Ég vænti þess, að hv. n., sem fær þetta mál til meðferðar, athugi einnig þá þætti málsins, og ég vil gjarnan beina því til þeirrar n., hvort ekki sé ástæða til að freista þess að afmarka enn frekar með orðalagi 9. gr. frv., þar sem fjallað er um vinnuskyldu hljóðfæraleikara úr Sinfóníuhljómsveitinni á vegum Þjóðleikhússins, hvernig því samstarfi yrði háttað.