28.02.1978
Sameinað þing: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (1960)

178. mál, uppbygging strandferðaþjónustunnar

Jón Helgason:

Herra forseti. Það hefur verið minnst í þessum umr. á flóabátana og endurskoðun á starfsemi þeirra, sem nú stendur yfir. Og þar sem ég hef átt sæti í þeirri nefnd, sem skipuð var af hæstv. samgrh. til að athuga þeirra mál, þá vildi ég aðeins skýra frá því, að þessari athugun er nú langt komið, þeirri athugun sem nefndin mun gera, og hún mun skila frá sér skýrslu innan skamms.

Þar sem þessu er ekki endanlega lokið, þá get ég ekki skýrt frá því, hvað þar muni verða endanleg niðurstaða, en af því, sem þegar liggur fyrir, er augljóst, að þar er um að ræða svipaðan vanda og hjá Skipaútgerð ríkisins, þ. e. a. s. að þeir bátar, sem a. m. k. sums staðar eru notaðir, eru óhentugir til þessara flutninga. Þarna er yfirleitt um lítið magn að ræða, miklu minna en það sem sumir þeirra a. m. k. bera, og þar að auki er ekki hægt að nota þá tækni, sem nú verður að krefjast, til þess að hagræði sé í rekstri þeirra. Enn fremur eru skipshafnir nokkuð stórar, alveg eins og á strandferðaskipunum, miðað við flutningamagnið. Það virðist því augljóst, að ef á að gera reksturinn á þessum bátum viðunandi, þá muni þurfa að kaupa nýja, a. m. k. í stað sumra þeirra sem nú eru notaðir, með það fyrir augum að gera reksturinn hagkvæmari og þjónustuna betri. Þeir mega, a. m. k. sums staðar, vera minni. Æskilegt væri að þeir væru hraðskreiðari, þannig að þeir gætu orðið fljótari í ferðum og veitt á þann hátt betri þjónustu.

Ég vildi fyrst og fremst láta það koma fram, að þessi nefnd mun ljúka störfum á næstunni. En það er einnig rétt, sem hér hefur komið fram, að niðurstöðurnar eða framkvæmd á niðurstöðum nefndarinnar mun að verulegu leyti fara eftir því, hvernig gengur með þá nýskipan Skipaútgerðar ríkisins sem lögð er til í skýrslunni frá henni.