02.03.1978
Sameinað þing: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (2006)

80. mál, járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði

Flm. (Jónas Árnason) :

Herra forseti. Ég er 1. flm. þeirrar till., sem hér er til umr., og hef þegar sem slíkur talað fyrir henni. Það er orðið æðilangt síðan, það var í desembermánuði, 8. des.

En enn er hafin umr. um Grundartangaverksmiðjuna. Mér hefur, þegar þessi verksmiðja hefur verið hér til umr., oft verið hugsað til þess sem Árni Pálsson prófessor sagði einu sinni, þegar hann var í framboði til Alþ. og var inntur eftir því, hvernig gengið hefði á tilteknum framboðsfundi. „Blessaður vertu,“ sagði hann, „blessaður vertu, það var frosið fyrir öll skilningarvit á þeim.“

Nú hafa hins vegar þau gleðilegu tíðindi gerst, að svolítið hefur gliðnað klakinn á skilningarvitunum á einum hv. þm. ríkisstj.-flokkanna, Þórarni Þórarinssyni. Ég læt í ljós mikla ánægju yfir því. Hann tekur að vísu fram, að hann sé ekki sammála okkur flm. þessarar till., en lýsir um leið yfir, að hann telji sjálfsagt að draga úr framkvæmdahraða við Grundartangaverksmiðjuna vegna hins slæma útlits varðandi markaðinn fyrir þá framleiðslu sem þaðan á að koma. Það er stigsmunur, en ekki eðlis á afstöðu okkar. Ég tel að þessi hv. stuðningsmaður ríkisstj. gangi eins langt og hann treystir sér til sem slíkur, og ekki óeðlilegt, að þrátt fyrir mjög ákveðinn stuðning við sjónarmið okkar hafi hann þann fyrirvara, að hann sé ekki með öllu sammála okkur flm. Ég hygg að í hjarta sínu sé hann alveg sammála okkur. Hann vill ekki láta kjósa nefnd til að kanna þessi mál, en telur sjálfsagt að sú þn., sem fær málið til athugunar, — ég stakk upp á því að það yrði fjvn., — kannaði málið og síðan yrði dregið úr framkvæmdahraða á Grundartanga, ef niðurstöður af athugunum n. mæltu með því. Ég er nú ekki svo kunnugur þingsköpum, að ég geti fullyrt um það hér, hvort fjvn. hefur í sjálfu sér vald til slíks. (Gripið fram í: Hún getur haft hjá sér atkvgr. um það.) Þá hlýtur það að vaka fyrir hv. þm., að málið yrði af hennar hálfu síðan lagt fyrir Alþ. til ákvörðunar. Það út af fyrir sig væri að mínum dómi ærið mikill árangur í þessu máli, og ég læt enn í ljós ánægju með þessa afstöðu. Hún er eins góð og hægt er að búast við af þessum hv. stuðningsmanni ríkisstj.

Hér hafa markaðshorfurnar verið til umræðu. Við fréttum öðru hverju af framkvæmdum á Grundartanga og þær fréttir eru allar í þeim dúr, að á tilteknum árstíma í ekkert mjög fjarlægri framtíð muni framleiðslan hefjast. Það er alltaf viss gleðiboðskapartónn í þessum fréttum, að þetta fari nú allt að koma. Þjóðin á að hressast við þessar fréttir. En samkv. þeim niðurstöðum, sem fyrir liggja, og þ. á m. niðurstöðum Þjóðhagsstofnunar, eru þetta tilkynningar um það, hvenær þjóðin megi búast við því að fara að tapa — ja, einum milljarð, einu þúsundi millj. kr. á framleiðslunni eða 1500 millj. eða kannske tveimur milljörðum á ári. Engin furða þó að fagnaðartónn sé í þessum tilkynningum! Þær koma frá hinum fræga Grundartangaforstjóra. Hann heitir Jón Sigurðsson.

Við þennan Jón Sigurðsson ræddi ég fyrir viku, vegna þess að þá var þetta mál líka á dagskrá og ég átti von á umr. Ég vitnaði til þess, sem ég nefndi í framsöguræðu minni í des., að hann hefði heitið því að hafa nána samvinnu við fjölmiðla. Hann var þá — í nóv. eða des. — að fara í reisu til útlanda og bjóst við að koma aftur eftir eina eða tvær vikur og þá ætlaði hann að gera grein fyrir markaðshorfum. Þetta var í viðtali við Dagblaðið. Svo kom Jón heim. Það dróst að hann héldi blaðamannafund. En þegar hann svo gerði það í janúarmánuði, þá var ekkert fjallað um markaðshorfur, heldur var hann að ræða við blaðamenn um það, hvernig mætti best koma fyrir samskiptum Grundartangaverksmiðjunnar og fjölmiðla. Og ein uppástunga hans var sú, að hver fjölmiðill tilnefndi sérstakan mann, sem forstjóri Grundartangaverksmiðjunnar gæti snúið sér til. M. ö. o.: þetta var till. um það af hálfu Grundartangaverksmiðjunnar, að hún fengi að koma sér upp ambassador við hvern fjölmiðil. Ég er alveg hissa á því, að blaðamenn skuli láta bjóða sér svona till. athugasemdalaust. Það var sagt frá þessu án nokkurra aths. t. d. í Tímanum, þar sem ég las þessa frétt, þar sem sagt var frá þessari ósvífni. En nú er sem sé komið til skjalanna hér á Íslandi fyrirtæki sem ætlar sér ekkert minna en þetta, sérstakan ambassador á hvern fjölmiðil. Sem gamall blaðamaður hefði ég ekki stillt mig um að spyrja, hvort svona ambassador yrði ekki að ganga undir sérstakt gáfnapróf og sýna hæfileika sína til þess að taka við upplýsingunum.

Síðan er það fyrir ekki mjög löngu, — ætli séu ekki svona þrjár vikur síðan, kannske mánuður, — að efnt er til blaðamannareisu þangað upp eftir að skoða framkvæmdir, ekki til þess að fræðast um markaðshorfurnar. Þegar einn blaðamaðurinn spyr, hvernig markaðshorfurnar séu, þá er honum tilkynnt að það verði talað um það seinna. Og þegar ég innti forstjóra járnblendiverksmiðjunnar eftir því fyrir viku, hvernig stæði á því, að hann hefði ekki rætt neitt markaðshorfurnar þennan dag, þá sagði hann : Okkur virtist að það veitti ekkert af þessum degi til þess að upplýsa þá um hinar tæknilegu hliðar málsins. — Ég leyfi mér að segja, að það væri ekki það sem Íslendingar væru að bíða eftir í þessu sambandi heldur hitt, hvort þeir töpuðu eða græddu og hvort það væri yfirleitt eitthvert vit í þessu fyrirtæki. Það, sem verið var að segja mér, var náttúrlega þetta: að það átti að vefja kjarna málsins, sannleikann um þetta hneyksli, í eitthvert tæknital, kannske óskiljanlegt tæknibull. Ég endurtek: Ég er alveg hissa á því, hvernig blaðamenn láta þetta fyrirtæki fara með sig aftur og aftur.

En hvenær má þá búast við tíðindum af markaðshorfunum? Hvenær á að kalla blaðamenn saman til þess að segja þeim hvernig markaðshorfurnar séu? Það sagði forstjórinn mér fyrir viku að yrði innan 2–3 vikna. Það eru sem sé ekki nema 1–2 vikur þangað til íslenskir fjölmiðlar mega búast við því að frétta ofan af Grundartanga það sem máli skiptir, hvernig markaðshorfurnar séu. En ég verð að segja það forstjóranum til hróss, að hann svaraði ýmsum spurningum mínum varðandi markaðshorfurnar. Hann sagði að því væri ekki að neita, að útlitið væri mjög vont. En eins og hann hefur nú áður reyndar sagt, þetta er, segir hann, ekki spurningin um hvort, heldur hvenær ástandið breytist til batnaðar. Ég spurði af hverju hann væri svo viss um að það breyttist endilega til batnaðar? Það er vegna þess að það er svo vont núna, að það getur ekki versnað. — Stundum er sagt: Lengi getur vont versnað. En þetta er eitt af því sem er svo vont, að það getur ekki versnað. (Gripið fram í: Er það ekki rétt?) Það getur staðist, jú. En það er þá heldur en ekki fagnaðarboðskapur! Við erum að byggja verksmiðju til að framleiða tiltekið efni, og markaðshorfurnar eru svo slæmar, á meðan við stöndum í þessu brambolti, að þær geta ekki orðið verri ! Það hefðu einhvern tíma verið talin ekki mikil meðmæli með okkar ágæta þorski, ef markaðshorfur væru svona ótryggar varðandi hann. Og mætti þá í þessu sambandi minna á, að þegar verið var að mæla fyrir þessari verksmiðju hér á Alþ. fyrst í sambandi við Union Carbide, síðan í samvinnu við Norðmennina, var það, sem hamrað var á fyrst og fremst af hálfu iðnrh., þetta: Við verðum að skjóta styrkari stoðum undir efnahag okkar og þess vegna þurfum við að koma okkur upp verksmiðju af þessu tagi, þar sem um er að ræða framleiðslu sem er svo trygg að því er markaðinn varðar, að við getum með henni treyst efnahag okkar. Styrkar stoðir! Það var það, sem verið var að smíða!

Satt er, að það hefur gengið upp og niður oft með markað fyrir framleiðsluvörur okkar, þær sem við byggjum á sjávarútvegi. En aldrei nokkurn tíma hef ég heyrt að menn teldu að ástandið væri svo slæmt á fiskmörkuðum, að það gæti alls ekki orðið verra.

Að því er varðar heimsframleiðsluna, meðaltalið, er það 15% fyrir neðan það, sem getur haldið uppi kostnaði við stálframleiðsluna. Þetta er ósköp einföld tala. En það þarf svo sem ekki að hringja í forstjóra járnblendiverksmiðjunnar til þess að fá upplýsingar um þetta. Þetta blasir við í blöðum. Ég hef hér úrklippur úr hlöðum sem allar eru á þessa leið. Þekktustu tímarit ýmis á þessu sviði flytja mönnum slíkar fréttir.

Útlitið er svona. Það er um að ræða niðurgreiðslu, eins og mönnum er kannske kunnugt, það er um að ræða gríðarlega niðurgreiðslu á stál- og járnframleiðslu í Evrópu núna. Það mættu þeir hugleiða sem býsnast mest út af íslenskum landbúnaði og niðurgreiðslum í sambandi við hann. Þeir greiða niður stálframleiðsluna svo gríðarlega í Evrópu, að Bandaríkjamenn, sem sjálfir eru í miklum vandræðum með sína stálframleiðslu, hafa miklar áhyggjur af og Carter, samkv. frétt í New York Times 29. nóv., varar ríkisstj. í Evrópu mjög við þessu og hvetur til þess að efnt verði til ráðstefnu til að ræða þessi mál, leita að lausnum.

Þetta læt ég nægja um markaðshorfurnar. Og satt að segja er ég búinn að segja svo mikið um Grundartangaverksmiðjuna, að ég get ekki miklu bætt við. En ég get ekki stillt mig um að benda enn á það, að með þessum nýju herrum eru komnir nýir siðir. Ég nefndi áðan oflætið sem kemur fram í því, að forstjóri verksmiðjunnar ætlar sér að fá sérstakan fulltrúa frá hverju blaði að ræða við, sérstakan aðila, sem hann getur snúið sér til, svo hann verði ekki fyrir allt of miklum óþægindum við að koma á framfæri upplýsingum um verksmiðjuna. En það er fleira sem sýnir að þarna eru komnir til skjalanna nýir herrar og nýir siðir. Þessi verksmiðja hefur nýlega tryggt sér fjórar íbúðir á Akranesi handa sínu fólki. Það eru í smiðum þar 14 íbúðir samkv. leiguíbúðakerfinu, og með því að leggja fram 13 millj. tryggir járnblendiverksmiðjan sér 4 af þessum íbúðum strax í haust. Á undan öllum öðrum fær járnblendiverksmiðjan til ráðstöfunar þarna 4 íbúðir. Þetta gerist á sama tíma og t. d. fjölbrautaskólinn á Akranesi, sem er ung stofnun og þarf á húsnæði að halda með tilliti til þess að ungir kennarar vilja kannske átta sig á staðnum áður en þeir festa sig þar til frambúðar, fjölbrautaskólinn hefur sótt um svona íbúðir. Sama er að segja um sjúkrahúsið. Hvorugum þessum aðila hefur verið svarað. En járnblendiverksmiðjunni er óðar svarað játandi: Gerðu svo vel. Fjórar íbúðir gegn þessum 13 millj. til 5 ára, sem er náttúrlega eins og hver annar tittlingaskítur.

Þetta sýnir að mínum dómi í fyrsta lagi ósvífni af hálfu þessa stóra fyrirtækis, að láta sér yfirleitt detta þetta í hug, og í öðru lagi þann undirlægjuhátt, sem því miður segir æðioft til sín hjá okkur Íslendingum, þegar útlendingar eða eitthvað sem er bendlað við útlendinga og er nógu stórt er annars vegar. Þá leggjast menn hundflatir. Þetta er eitt meiriháttar hneykslismál þar efra. Aðeins tveir af fulltrúum í bæjarstjórn Akraness greiddu atkv. gegn þessari ráðstöfun. Annar þeirra er eini fulltrúi Alþb. í bæjarstjórninni, hinn er einn af fulltrúum Sjálfstfl. Hann hafði manndóm til að segja nei við þessu hneyksli.

Ég held ég láti þetta nægja að sinni. Ítreka aðeins að ég fagna því, að svolítið skuli hafa þiðnað klakinn af skilningarvitum eins stjórnarþm. Vonandi er að hann þiðni af fleirum, svo að við komum einhverju viti í þessi mál áður en lýkur.