07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2813 í B-deild Alþingistíðinda. (2056)

174. mál, kortabók Íslands

Jón Helgason:

Herra forseti. Ég get tekið undir með þeim, sem rætt hafa um þessa þáltill., að ég tel hana athyglisverða. Slík kortabók sem þar er rætt um hefur tvímælalaust bæði hagnýtt og menningarlegt gildi. Undirstaðan að útgáfu slíkrar bókar hlýtur að verða góðar myndir af landinu. Ég vildi við þetta tækifæri einmitt vekja athygli á því, að Landmælingar Íslands hafa nú mikinn áhuga á því að taka nýjar, góðar myndir af landinu, sem gætu orðið undirstaða að kortagerð, og slík kortagerð hefði hagnýtt gildi á mjög mörgum sviðum. Kort þarf víða að nota, en eins og sakir standa telja Landmælingar að það vanti fjármagn til þess að vinna að þessu í nægilega miklum mæli, hins vegar séu nú til orðin góð tæki til þess að vinna þetta verk.

Það hefur verið gerð till. um það, að þessari þáltill. verði vísað til allshn. Ég á þar sæti og mun mæla með því, að efni þessarar till. verði samþykkt. Ég get lýst því hér strax yfir. Hins vegar finnst mér ég varla geta mælt með því, að hún verði samþykkt eins og hún er orðuð. A. m. k. er það andstætt minni málvenju að tala um það að hafa forgang að einhverju. Mér finnst a. m. k. að þetta væri atriði sem íslensk málnefnd, sem var rætt um í síðustu till., þyrfti að athuga. Ég hef vanist því að tala um forgöngu eða eitthvað slíkt og hlyti því að leggja til að það yrði breytt þarna um orðalag.