14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2885 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

335. mál, Kröfluvirkjun

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Því miður er varla hægt að þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör, því þetta voru auðvitað engin svör. Bréfið verður sem sagt birt þegar skýrsla verður birt. Það er margbúið að krefjast þess, að hún komi fram, þessi heildarskýrsla um þau hneykslanlegu vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð við virkjun Kröflu alveg frá upphafi vega. Það er margbúið að gagnrýna þessi vinnubrögð hér á þingi. Og það er ekki aðeins Orkustofnun, sem hefur varað við vinnubrögðum af þessu tagi, heldur var árið 1976 mjög eindregið varað við áframhaldandi vinnu við Kröfluvirkjun af jarðfræðingum. sem þá þegar spáðu hvernig fara mundi. Nú þegar er búið að sóa 10 milljörðum í þessa virkjun. Orkan er 6 mw. Ætli það sé ekki heimsmet.? Þetta er áreiðanlega dýrasta orka í heimi. Ég vil eindregið fara þess á leit við hæstv. ráðh., að hann birti þessa heildarskýrslu, sem hann er nú að boða, og þ. á m. þessi bréf, sem allra fyrst.

Hann segist ekki bera ábyrgð á komu „konunnar með svarta kassann“, en óneitanlega hlýtur það að vera dálítið undarlegt, að æðsti maður í þessum málum skuli ekki vita hver ber þá ábyrgðina. Hver bað konuna að koma?

Ég tel að þessum fsp. hafi alls ekki verið svarað hér.