16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2920 í B-deild Alþingistíðinda. (2160)

150. mál, endurskoðun skattalaga

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen) :

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. spurðist fyrir um áform ríkisstj. varðandi framlagningu frv. um skattamál og vék að því, að fjmrh. hefði verið iðinn við það á undanförnum þingum, allt frá upphafi kjörtímabils, að lofa skattalagabreytingum. Það er alveg hárrétt. Fjmrh. lagði fram á fyrsta þingi frv. sem var samþykkt, lagði fram á öðru þingi frv. sem var samþ., lagði síðan fram heildarfrv. á síðasta þingi, til þess að fá um það umr., opnar umr. sem hægt væri að taka mið af til lagfæringar og leiðréttingar.

Fram kom í stefnuræðu hæstv. forsrh. í haust og í fjárlagaræðu minni, að á þessu þingi yrði lagt fram frv. um skattamál og frv. um staðgreiðslukerfi skatta, sem miðaði að því að taka staðgreiðslu upp frá og með 1. jan. 1979. Er nú unnið að þessum frv. og hefur verið gert um hríð. En það liggur í hlutarins eðli, að þegar upp verður tekið staðgreiðslukerfi skatta verður því samfara breyting á almennum skattalögum og þess vegna tafsamara við endursamningu þess frv., sem lagt var hér fram í fyrra, ásamt með því að taka verður tillit til ábendinga og breytinga sem gerðar voru till. um af hinum ýmsu hópum sem fjh.- og viðskn. beggja d. ræddu við.

Þm. sagði að sumum hefði fundist loforðin bera keim af því, að það væri verið að halda mönnum uppi á snakki. Ég vonast til þess, að hv. þm. sé ekki einn í þeirra hópi. Ég veit að hann hefur áhuga á skattamálunum, og við höfum stundum tekið tal saman um þau mál. Ég vonast til þess, að hann verði þess fullviss, að ásetningur minn er að koma fram svo tímanlega eftir páska með þau frv., sem boðuð hafa verið, að þau geti hlotið lögfestingu fyrir þinglok.