30.03.1978
Neðri deild: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2975 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Mér finnst heldur andkannalegt að halda hér áfram umr. utan dagskrár um málefni sem heyra undir hæstv. ríkisstj. alla, eða a. m. k. var sá hv. þm., sem umr. hóf um málið, þeirrar skoðunar og beindi máli sínu til ríkisstj. í heild, tveir af hæstv. ráðh. hafa tekið þátt í umr. um þetta mál, en hvorugur þeirra er hér í d. eins og stendur og ekki heldur þeir fulltrúar Alþb. og Alþfl. sem hér hafa tekið þátt í umr. Vissulega væri æskilegra að þeir væru viðstaddir áframhald umr. um málið. — En kannske rætist úr. Menn tínast einn og einn af þeim sem gjarnan ættu í salnum að vera undir áframhaldandi umr., og fyrst tveir af hv. ræðumönnum, sem hér hafa talað í dag, þ. e. hæstv. iðnrh. og hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason, eru komnir í salinn og vonandi von á fleiri, þá ætla ég að halda örlítið lengra með mitt mál.

Það er ekki ætlun mín að ræða hér almennt um stefnuna í orkumálum eða ákvarðanir um einstakar framkvæmdir varðandi orkumál. Ég tel að það málefni, sem hér er fyrst og fremst til umr. og fyrst var vakið máls á, sé þess eðlis, að það sé ærið umræðuefni eitt sér og ekki ástæða til þess á þessu stigi að fara almennt í umr. um stefnuna eða framkvæmdir í orkumálum í heild tekið.

Það, sem hér er fyrst og fremst um að ræða og hv. þm. Lúðvík Jósepsson hóf hér umr. um, er sá fjárhagsvandi, sem nú er fyrir hendi hjá Rafmagnsveitum ríkisins, — fjárhagsvandi sem ekki er að koma nú á hinum síðustu tímum, heldur fjárhagsvandi sem að meira eða minna leyti hefur verið viðloðandi í allnokkurn tíma a. m. k. Það er auðvitað stórt mál þegar svo er komið, að í heilum landshlutum voru líkur á að öll orkuframleiðsla yrði stöðvuð vegna skulda sem Rafmagnsveitur ríkisins gátu ekki staðið skil á til þess að halda uppi orkuöflun á þessum stöðum. Þetta er ekki vandamál, sem er að koma upp núna. Það var ljóst um þær mundir sem fjárl. voru afgreidd hér í desembermánuði og raunar fyrr, að við allnokkurn vanda var að etja að því er varðaði fjárhagsmál Rafmagnsveitna ríkisins. Svo hefur verið um nokkurn tíma og því augljóst að í verulegt vandræðaástand stefndi þegar fjárl. voru hér afgreidd í desembermánuði. Það verður því að skrifast á kostnað hæstv. ríkisstj. að hafa ekki ráðið fram úr þessum vanda, og á hennar kostnað verða að skrifast þau vandkvæði öll sem þegar hafa af þessu hlotist og kunna af því að hljótast, ef ekki verður undinn bráður bugur að því að leysa þetta vandamál.

Það hefur ýmislegt komið fram í þessum umr. sem lýtur bæði að þessu máli einu sér svo og öðrum sem eru tengd því. Mig langar aðeins til að vekja athygli á því, að líklega er sú ástæðan mest fyrir því, að þetta mál kemur nú svo snögglega og almennt til umr. bæði hér á Alþ. og ekki síður í fjölmiðlum undanfarna daga, að þrír af stjórnarmönnum í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins sögðu af sér, þ. á m. formaður stjórnarinnar. Það vekur a. m. k. athygli mína, og ég hygg að það muni vekja athygli Vestfirðinga almennt, hverja þessir menn telja höfuðástæðuna fyrir því, að þeir telja sig knúna til að segja af sér störfum í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins. Það liggur fyrir skv. yfirlýsingum þeirra, að þá fyrst hafi mælirinn verið fullur að þeirra áliti að því er þetta mál varðar þegar taka átti ákvörðun um að hefja framkvæmdir við svokallaða Vesturlínu til Vestfjarða, og mér skilst að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hafi neitað að verða við þeirri beiðni hæstv. iðnrh. að panta efni til þessara framkvæmda. Það vekur a. m. k. athygli mína að fulltrúi Framsfl. í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins skuli telja sig knúinn til þess að segja af sér störfum þar þegar að því kom að átti að ákvarða framkvæmdir á Vestfjörðum. Það vekur líka athygli mína og ég hygg Vestfirðinga almennt, að fulltrúi Alþb. í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins skuli telja sig til þess knúinn að segja af sér störfum þar þegar að því kom að ákvarða framkvæmdir á Vestfjörðum. Það vekur líka athygli mína og Vestfirðinga almennt, að ég hygg, að fulltrúi Alþfl., að því er ég best veit, skuli einnig telja sig knúinn til þess að segja af sér störfum í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins þegar að því kom að ákvarða um framkvæmdir í raforkumálum á Vestfjörðum við hina svokölluðu Vesturlínu. Þegar hæstv. iðnrh. tók að framkvæma þá skyldu, sem Alþ. hefur á herðar ríkisstj. lagt með afgreiðslu fjárl. og lánsfjáráætlunar fyrir árið 1978, að því er tekur til framkvæmda við Vestfjarðalínu, — þegar hæstv. iðnrh. tók á því að framkvæma þá skyldu sína og ríkisstj. skv. umboði Alþ., þá töldu þessir einstaklingar sem fulltrúar þessara pólitísku flokka sig knúna til þess að láta af störfum í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins.

Ég vil lýsa því yfir strax og hér, að ég tel að það hafi verið sjálfsagt af hæstv. iðnrh. að fara þannig að eins og hann gerði. Honum bar skylda til að sjá um að pantað væri efni til þessarar framkvæmdar þannig að hægt væri í hana að ráðast eins og fjárlög og lánsfjáráætlun gerðu ráð fyrir og Alþ. hafði ákvarðað við afgreiðslu þessara mála í desember.

Það var ljóst, að ekki varð undan því víkist, ef framkvæma átti þetta verk, að fara að panta efni til þessara framkvæmda. En því miður hefur það allt of oft gerst, ekki bara hjá Rafmagnsveitum ríkisins, heldur og í öðrum ríkisfyrirtækjum og stofnunum, að þannig hefur verið á málum haldið, að dregið hefur verið von úr viti að panta efni til framkvæmda þangað til svo hefur verið orðið áliðið þess árs, sem verkið átti að framkvæma, að útilokað hefur verið að það yrði gert, — efni til framkvæmda pantað það seint, að gjörsamlega var útilokað að hægt væri þess vegna að framkvæma það sem átti að framkvæma skv. samþykkt Alþ. Skilst mér að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hafi ætlað að leika sama leikinn varðandi þetta, draga von úr viti að panta efni til þessarar framkvæmdar, þar til útséð væri orðið um það, að nokkur von væri til þess að hægt væri að ráðast í framkvæmdina, vegna þess að svo langt var á árið liðið að nær ógerningur var að ætla að framkvæmdin yrði af hendi leyst.

Það má því hæstv. iðnrh. vita, að hann á þakkir mínar fyrir að taka af skarið í þessum efnum. En ég hygg að enginn Vestfirðingur muni segja hið sama um þá fulltrúa hinna þriggja pólitísku flokka í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins sem töldu ástæðu til að segja af sér störfum vegna þess að þetta var gert.

Hitt gefur auðvitað auga leið, eins og ég aðeins vék að áðan, að það er auðvitað í syndarregistri hæstv. ríkisstj. að vera ekki búin að greiða úr þeim fjárhagsvanda sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa staðið frammi fyrir og standa frammi fyrir enn, á því her auðvitað hæstv. ríkisstj. fulla ábyrgð.

Áður en ég skil við þetta vil ég aðeins varpa því fram til hæstv. iðnrh. sem spurningu, hvort ekki sé alveg tryggt að það verði unnin sú framkvæmd sem gert er ráð fyrir að því er varðar Vestfjarðalínu, sem fjárlög og lánsfjáráætlun gera ráð fyrir. Ég spyr um þetta vegna þess, að oftar en einu sinni orðaði hæstv. forsrh. það svo, að það yrðu hafnar framkvæmdir við Vesturlínu. Vel má vera að hæstv. forsrh. hafi átt þar við, að þessi hluti, sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun og á fjárl., verði framkvæmdur. En ég vil spyrja hæstv. iðnrh. um það, hvort ekki sé tryggt að það verði unninn sá áfangi af þessu verki sem ætlaður er á fjárl. og lánsfjáráætlun fyrir árið 1978.

Ég vil lýsa vonbrigðum mínum með það, — það kom raunar fram við umr. í desembermánuði varðandi afgreiðslu fjárl., — að ekki skyldi í það ráðist að vinna á þessu ári að því er varðar þessa framkvæmd fyrir 800 millj., eins og í raun og veru var gert ráð fyrir í till. þar um. Ég vil þó treysta því í lengstu lög, að við það verði staðið, að þessu verki, Vestfjarðalínunni, verði lokið á þessu og næsta ári, þó að ekki verði unnið fyrir meira fjármagn en nú er gert ráð fyrir. Ég treysti á það, að þannig verði á þessu máli haldið, að þessu verki verði endanlega lokið á þessu ári og á árinu 1979, eins og í raun og veru loforð hafa verið gefin um.

Ég sagði hér áðan, að ég ætlaði ekki almennt að fara að ræða um stefnuna í orkumálum. Ég get þó ekki stillt mig um að fara örfáum orðum um eitt atriði, þó kannske væri ástæða til að ræða fleira af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. En það voru þau hin mörgu og stóru orð sem hann hafði um hina svokölluðu húsahitun með rafmagni. Nú er það svo, og það ættu allir að vita, að það er mjög mismunandi hversu mikið fé einstaklingar, eftir því hvar þeir hafa búsetu á landinu, þurfa að inna af hendi til upphitunar á sínum híbýlum. Að verulegu leyti er það svo í heilum landshlutum, að í meðalíbúðarhúsnæði er milli 25 og 30 þús. kr. kostnaður mánaðarlega við að standa undir því að kynda upp íbúðarhúsnæði, — 25–30 þús. á hverjum einasta mánuði í meðalhúsnæði. (Gripið fram í.) Ekki minna, nei. Það er ekki ofsagt um þessar tölur. Þetta er verulega minni upphæð ef um er að ræða að hægt sé að nýta raforku til þessarar hitunar. Það er því ekki nema eðlilegt, að fólk á svona stöðum leiti á um það að fá raforku til að hita upp sín híbýli, því að þessar drápsklyfjar, sem ég vil kalla, sem olíukyndingin er á þessum stöðum, eru orðnar slíkar, að það er í raun og veru orðið nú þegar hverjum meðalmanni að því er varðar tekjuspursmál ofviða að standa undir kostnaði sem leiðir af upphitun með olíu. (Gripið fram í.) Ég heyrði ekki betur en að hv. 9. þm. Reykv., Gylfi Þ. Gíslason, gagnrýndi harðlega að upphitun íbúðarhúsnæðis með rafmagni skyldi vera eins og raun ber vitni. Ég hygg að hv. þm. hefði ekki talað á þennan hátt, ef hann hefði búið t. d. á Vestfjörðum, Austurlandi eða Norðurlandi og þurft að snara út á hverjum einasta mánuði 25–30 þús. kr. tékka til þess að borga kyndinguna á sínu íbúðarhúsnæði. Það er nefnilega æðimikill munur á því, hvað þessi hv. þm. og aðrir íbúar hér á þessu svæði þurfa að borga í þennan kostnaðarlið eða við hinir, sem búum á þeim svæðum þar sem verður að kynda með olíu. (Gripið fram í.) Án þess að ég vilji neitt fullyrða það eða hafi um það alveg óyggjandi tölur, þá hygg ég t. d. að kostnaður á venjulega íbúð hér í Reykjavík, að því er varðar upphitun, geti hugsanlega verið einhvers staðar á bilinu frá líklega 5–8 þús. kr. á mánuði. Ég hygg að það sé ekki meira. En ég hugsa að gagnrýni á borð við þá, sem fram kom hjá hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasyni á þetta, hefði ekki heyrst hjá honum hefðum við snúið þessu dæmi við og hann þyrfti að borga 30 þús. kr. á mánuði í staðinn fyrir 6–8 þús. til að hita upp sína íbúð. (Gripið fram í.) Sannleikurinn er sá, að þetta stórkostlega vandamál fólks á landsbyggðinni er eitt af þeim stóru vandamálum sem þetta fólk hefur haft við að glíma og hefur enn, vegna þess að það býr á þessum stöðum á landinu, en ekki hér á Reykjavíkursvæðinu. Og það verður að teljast furðulegt, að flokksforingi á borð við Gylfa Þ. Gíslason skuli ekki skynja hversu það er þungbær baggi á launafólki úti á landsbyggðinni að þurfa að borga sem svarar þriðjungnum eða rúmlega það af sínum mánaðartekjum bara til þess að hita upp sitt íbúðarhúsnæði. Það væri ekkert lítil kjarabót fyrir þetta fólk, ef hægt væri að koma þessum kostnaði hjá því niður í það að vera í námunda við það sem t. d. Reykvíkingar þurfa að borga til þessa. Það væri stórkostleg kjarabót, ef slíkt væri hægt, og að því verður auðvitað að vinna.

Ég tek ekki undir þær gagnrýnisraddir, sem uppi hafa verið að því er varðar það, að óeðlilega mikið hafi verið að því gert að leyfa rafhitun á íbúðarhúsnæði hér að undanförnu.

Ég sagði, herra forseti, að ég skyldi ekki verða langorður hér um. Ég ætla því að þessu sinni a. m. k. að ljúka mínu máli, en ég taldi rétt að nota tækifærið til þess með örfáum orðum að gera grein fyrir viðhorfum mínum til þessara mála. Það er auðvitað margt sem er gagnrýnisvert að því er varðar stefnuna í orkumálum, en ég sé ekki ástæðu til að gera það að umtalsefni hér. Það, sem hér er fyrst og fremst til umr., er nægilegt tilefni til þess að ræða án þess að verulega sé farið út fyrir þau mörk.

Ég ítreka það svo, að það hlýtur í raun og veru að verða svo innan örfárra daga, að hæstv. ríkisstj. ráði fram úr þessum vanda. Það getur ekki og má ekki koma fyrir, að heilir landshlutar standi frammi fyrir því, að öll atvinnufyrirtæki og þar af leiðandi allur grundvöllur að atvinnulífi verði stöðvaður vegna þess að ekki sé ráðið fram úr þessum fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Hér hefur verið rætt um nokkrar leiðir eða ábendingar sem gerðar hafa verið af nefnd sem hæstv. ríkisstj. mun hafa tilnefnt til þessara hluta. Ég tók ummæli hæstv. forsrh. svo hér fyrr í dag, að að langsamlega mestu leyti væru hugmyndir eða leiðir þessarar n. til skoðunar hjá hæstv. ríkisstj. enn, og sé því ekki ástæðu til að gera þær að umræðuefni að öðru leyti en því, að ég fyrir mitt leyti er andvígur því, sem hæstv. ríkisstj. virðist nú hafa samþ., að hækka um 25% — hafi ég tekið rétt eftir — þann taxta sem nú er varðandi húshitun til íbúðarhúsnæðis. Eins og ég hef áður sagt hér, þá á að stefna að því, að sem flestir, helst allir íbúar í landinu búi við sama raforkuverð, hvar svo sem þeir eru í sveit settir. Og það er óeðlilegt, þegar hefur opnast möguleiki fyrir landshluta að hita upp með rafmagni, að þyngja enn þeirra byrðar með 25% hækkun á þessum taxta. Stefnan hlýtur að vera sú, eða ætti a. m. k. að vera, að létta byrðar þessa fólks sem hefur um árabil þurft að standa undir stórkostlega miklu meiri útgjöldum þessara hluta vegna heldur en stór hluti annarra landsmanna, þ. e. a. s. þeirra sem búa hér á suðvesturhorni landsins.

Ég vil svo ítreka það, að ég vænti þess fastlega eftir þá ákvörðun, sem hefur verið tekin um að panta efni til Vesturlínu, að allt það verk, sem átti að vinna samkv. fjárveitingu, fyrir 408 millj., það verði unnið á þessu ári, eins og þegar er búið að ákveða og lofað hefur verið.