31.10.1977
Neðri deild: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

16. mál, sveitarstjórnarlög

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég vildi láta það koma fram strax, áður en frv. þetta fer í n., að ég styð það heilshugar og tek undir þau rök sem hv. flm. frv. færði fram í ræðu sinni áðan fyrir því að sjálfsagt væri að lækka kosningaaldurinn niður í 18 ár.

Ég tek undir það t.d., að það er sjálfsagt að sýna ungu fólki þetta traust sem fælist í því að lækka kosningaaldurinn niður í 18 ár. Ég tel að það væri hollt fyrir unga fólkið að löggjafinn léti í ljós traust sitt á því með ýmsum hætti. Ýmislegt, sem talið er fara aflaga í hátterni unga fólksins stafi einmitt af því að þessu fólki sé ekki sýnt nógu mikið traust. En það er önnur saga.

Ég tek einnig undir það, að ekkert sé við það að athuga að lækka kosningaaldurinn í 18 ár að því er varðar sveitarstjórnarkosningar — þar er um að ræða einfaldari breytingu — þó að það yrði e.t.v. að bíða eitthvað að kosningaaldurinn yrði lækkaður í 18 ár einnig að því er varðar alþingiskosningar. En ég vona eins og hv. flm. að það megi verða sem allra fyrst.