12.04.1978
Efri deild: 77. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (2485)

266. mál, leigumálar og söluverð lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar

Flm. (Albert Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég leyfi mér að flytja á þskj. 513 frv. til 1. um breyt. á lögum nr. 86 frá 16. des. 1943, um ákvörðum leigumála og söluverðs lóða og landa Reykjavíkurkaupstaðar, svo hljóðandi:

„2. gr. laganna orðist svo:

Ársleiga eftir lóðir, sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga til 5 ára, skal ákveðin samkv. reglugerð, er borgarstjórn setur og rn. staðfestir. Leiga eftir þessar lóðir skal tryggð með lögveðsrétti í þeim byggingum, sem á lóðinni standa, í tvö ár eftir gjalddaga og með forgangsrétti fyrir öðrum veðskuldum. Leiga eftir aðrar lóðir og lönd skal ákveðin af borgarstjórn og hafnarstjórn.

2. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt eru úr gildi felld lög nr. 95 24. des. 1971.“ Fasteignaskattur samkv. II. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga er tryggður með lögveði í eign. Í mörgum sveitarfélögum landsins er skatturinn innheimtur sameiginlega með öðrum fasteignagjöldum. Svo er því einnig varið í Reykjavík. En með fasteignaskatti er innheimtur vatnsskattur og brunabótagjald, lóðarleiga, tunnuleiga og viðlagatryggingargjald. Í Reykjavík hefur fram til þessa verið talið nauðsynlegt að gera lögtak fyrir fasteignagjöldum, sem ekki hafa verið greidd á réttum gjalddögum, og biðja síðan um uppboð á eign. Eftir að breyting hefur verið gerð á álagningu fasteignagjalda og hver einstakur íbúðareigandi fær sendan sérstakan reikning fyrir sínum hluta gjaldanna verður mögulegt að beita nauðungarinnheimtuákvæðum laga nr. 49 frá 1951. um sölu lögveða án undangengis lögtaks.

Dregið hefur verið í efa, að innheimtuákvæði gildandi laga um þetta efni séu nógu skýr að þessu leyti, en vegna hinnar sameiginlegu innheimtu er nauðsynlegt að samræma innheimtureglur og setja ótvíræð ákvæði um lögveðsrétt. Frv. þetta er flutt til þess að taka af allan vafa í því efni. En gjöld þau, sem innheimt eru sameiginlega með fasteignagjaldaseðli í Reykjavík, eru öll tryggð með lögveði í eign nema lóðarleiga. Nái frv. fram að ganga mun sparast mikil vinna á skrifstofu Gjaldheimtunnar og hjá lögtaksfulltrúum og innheimtuaðgerðin mun taka mun styttri tíma en nú er.

Rétt er að taka fram, að í flestum ef ekki öllum leigusamningum um íbúðarhúsalóðir í Reykjavík eru ákvæði þess efnis, að leigutaki og veðhafi séu skyldaðir til að hlíta því, að í lög verði sett ákvæði um að leigan gangi á undan veðskuldum sem á eigninni hvíla. Leiga eftir íbúðarhúsalóð í Reykjavík er 0.145% af fasteignamati lóðarinnar. Einnig er rétt að taka fram, að mörg sveitarfélög hafa árum saman notfært sér ákvæði laga um uppboðssölu án undangengins lögtaks, m. a. öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu önnur en Reykjavík.

Þá vil ég taka fram að lokum, að frv. þetta er flutt að beiðni borgarstjórnar og borgarstjórans í Reykjavík með ósk um að það nái fram að ganga á þessu þingi ef nokkur tök eru á því.