13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (2514)

Umræður utan dagskrár

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Þar sem ég vonast til að mæla fyrir frv. mínu nú á eftir, þá ætla ég ekki að segja mikið núna, en ég vildi í tilefni af þeim orðum, sem féllu áðan, taka það fram, að mér finnst í sjálfu sér, að frv. mitt sé ekki illa undirbúið og það sé í raun og veru eina málið af þessum, sem hægt sé að samþykkja núna. Við skulum gera okkur það ljóst, að þó frv. yrði samþ. á þessu þingi hefur það ekki lagagildi fyrr en það hefur verið samþ. á öðru þingi, og í millitíðinni gefst ríkulegur tími til að rannsaka k:osti þess og galla. Með samþykkt þess frv. mundi vera komið mjög til móts við lausnina á vægi atkv. á þann veg, að bæði kjördæmin, Reykjaneskjördæmi og Suðvesturlandskjördæmi, mundu hafa fleiri íbúa en nokkurt annað fimm manna kjördæmi í landinu eftir sem áður. Þetta út af fyrir sig sýnir, hve gífurlegt misrétti er þarna orðið og hversu mikil þörf er á að lagfæra það. Með því að fjölga kjördæmakjörnum þm. í Reykjavík um tvo, þá er tekið tillit til þeirrar hættu sem litlir flokkar geta verið i, þ. e. a. s. að falla út af þingi, og þeim skapað mun meira öryggi en nú er. Hins vegar geri ég mér alveg ljóst, að svona mikil fækkun á uppbótarþm. hefur sínar afleiðingar. En það mundi án efa þýða, að hópar með kannske svipuð endanleg stefnumið mundu ekki bjóða fram í fjórum flokkum eða sex flokkum, eins og vel gæti komið fyrir og víða hefur komið fyrir. Þetta mundi vafalaust verða til þess að þjappa þeim saman og skapa þeim öflugra fylgi á þann hátt. Þess vegna lít ég svo á, að hreint ekki sé ástæðulaust að samþykkja þetta frv. Ég þarf reyndar að mæla fyrir því fyrst, en það mundi ekki vera annað. Nóg tækifæri yrðu til þess að rannsaka kosti þess og galla á milli þinga, því að sýnilegt er að ekkert kemur frá þeim nefndum, sem að þessu hafa unnið í 8 ár eða meira, og er það miður farið.