13.04.1978
Efri deild: 78. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3381 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

264. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Á þskj. 511 leyfi ég mér að bera fram frv. til laga um breytingu á stjórnarskipunarlögum. Um er að ræða breytingu á 31. gr. stjórnarskrárinnar, sem mundi hljóða svo að breytingunni samþykktri:

„Á Alþingi eiga sæti 60 þjóðkjörnir þm., kosnir leynilegum kosningum, þar af:

a) 30 þm. kosnir hlutbundinni kosningu í 6 fimm manna kjördæmum: Suðvesturlandskjördæmi: Garðakaupst., Kópavogskaupstaður, Seltjarnarneskaupstaður, Kjósarsýsla.

Vesturlandskjördæmi: Borgarfj.sýsla, Akraneskaupstaður, Mýrasýsla, Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla og Dalasýsla.

Vestfjarðakjördæmi: Barðastrandarsýsla, Vestur-Ísafjarðarsýsla, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðarkaupstaður, Norður-Ísafj.sýsla, Strandasýsla.

Norðurlandskjördæmi vestra: Vestur-Húnavatnssýsla, Austur-Húnavatnssýsla, Skagafjarðarsýsla, Sauðárkrókskaupstaður og Siglufjarðarkaupstaður.

Austurlandskjördæmi: Norður-Múlasýsla, Seyðisfjarðarkaupstaður, Suður-Múlasýsla, Eskifjarðarkaupstaður, Neskaupstaður og Austur-Skaftafellssýsla.

Reykjaneskjördæmi: Hafnarfjörður, Gullbringusýsla, Grindavíkurkaupstaður, Njarðvíkurkaupstaður, Keflavíkurkaupstaður.

h) 12 þm. kosnir hlutbundinni kosningu í tveim 6 manna kjördæmum: Norðurlandskjördæmi eystra: Eyjafjarðarsýsla, Akureyrarkaupstaður, Dalvíkurkaupstaður, Ólafsfjarðarkaupstaður, Suður-Þingeyjarsýsla, Húsavíkurkaupstaður og Norður-Þingeyjarsýsla.

Suðurlandskjördæmi: Vestur-Skaftafellssýsla, Vestmannaeyjakaupstaður, Rangárvallasýsla og Árnessýsla.

c) 14 þm. kosnir hlutbundinni kosningu í Reykjavík.

d) 4 landskjörnir þm. til jöfnunar milli þingflokka, svo að hver þeirra hafi þingsæti í sem fyllstu samræmi við atkvæðatölu við almennar kosningar.

Þingmenn skulu kosnir til 4 ára. Á hverjum framboðslista skulu að jafnaði vera tvöfalt fleiri menn en kjósa á í því kjördæmi, og skulu varamenn, bæði fyrir kjördæmakosna þm. og landsk., vera svo margir sem til endist á listanum.“

Breytingarnar fela það í sér, að kjördæmum yrði fjölgað úr átta í níu.

Reykjaneskjördæmi yrði skipt í tvö kjördæmi: Reykjaneskjördæmi, þ. e. Hafnarfjörð og byggðarlögin þar fyrir sunnan, og Suðvesturlandskjördæmi, þ. e. Garðabæ, Kópavog, Seltjarnarnes og Kjósarsýslu. Þessi kjördæmi eiga að hafa 5 þm. hvort. þannig að kjördæmin með 6 kjörnum þm. yrðu 6 í stað 5. Þrátt fyrir þessa skiptingu Reykjaneskjördæmis yrðu nýju kjördæmin fjölmennustu 5 þingmannakjördæmin í landinu. Íbúafjöldinn eftir breytinguna í 5 þingmannakjördæmunum yrði þá þessi: Reykjaneskjördæmi með 24 350 íbúa. Suðvesturlandskjördæmi með 23052 íbúa, Vesturlandskjördæmi með 14017 íbúa, Vestfjarðakjördæmi með 10181 íbúa, Norðurland vestra með 10 304 og Austurland með 12 083.

Þriðja breytingin yrði sú, að kjörnum þm. Reykjavíkur yrði fjölgað úr 12 í 14.

Fjórða breytingin er sú, að uppbótarþm. verða 4 í stað 11.

Með þessum breytingum næst mjög aukinn jöfnuður í vægi atkv. á milli landshluta, þannig að á eftir úthlutun uppbótarþingsæta verður munurinn minni en 1:2 á vægi atkv. Íbúar á bak við hvern þm. verða svipaðir að fjölda í Reykjavík, Reykjanesi, Suðvesturlandi og Norðurl. e. Mjög þolanlegur mismunur verður á milli Reykjavíkur og Suðurlands, svo að aðeins verða þrjú fámennustu kjördæmin þar sem munurinn er verulegur.

Annmarki þessarar breytingar er sá að erfiðara verður að fá jöfnuð á milli flokka þar eð uppbótarsætum fækkar svo mjög. En tvennt ber að hafa í huga þegar um þetta atriði er rætt. Í fyrsta lagi, að sú óánægja, sem hefur verið undanfarin ár í vaxandi mæli, hefur verið einkum varðandi fjölda þm. í hverju kjördæmi og það, hve mismunur á fjölda íbúa á bak við hvern þm. er gífurlegur. Svo kemur það einnig til, að þessi till. tryggir betur en áður var þingsæti smæstu flokkanna, þar eð þm. í Reykjavík fjölgar úr 12 í 14, en það gefur nokkuð sterkari líkur til þess að fá mann á þing en áður var.

Yrðu þessar breytingar lögfestar mundu þær vafalaust hamla gegn klofningi flokka og framboðum í mörgu lagi, hópa sem hafa áþekkar grundvallarskoðanir í stjórnmálum. Annars er þörfin fyrir jöfnuð svo misjöfn frá kosningum til kosninga, að mjög erfitt er að segja fyrir um framtíðarþörfina.

Skipting Reykjaneskjördæmis í tvö kjördæmi er að ýmsu leyti æskileg, þótt horft sé fram hjá þeirri nauðsyn að jafna vægi atkv. Atvinnu- og félagsmál eru með nokkuð öðrum hætti í Hafnarfirði og þar fyrir sunnan en í byggðarlögunum umhverfis Reykjavík. Þetta hefur greinilega komið fram á sviði sveitarstjórnarmála. Nokkru eftir að Reykjaneskjördæmi var stofnað voru mynduð Samtök sveitarfélaga í Reykjaneskjördæmi SASÍR. Þau störfuðu allmikið lengi vel og gera það reyndar enn. En nokkru síðar voru samt mynduð Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum í þeim tilgangi að vinna sérstaklega að málefnum sveitarfélaga á Suðurnesjum. Fyrir nokkrum árum hætti svo Hafnarfjörður að taka þátt í samstarfi sveitarfélaganna. Þetta sýnir ljóslega, að þarfir og hagsmunir sveitarfélaga á Reykjanesi eru mjög breytileg.

Ég vil svo leggja áherslu á það, sem við vitum allir að sjálfsögðu, að þó að þetta frv., sem hér er til umr., yrði samþykkt á þessu þingi, þá hefði það ekkert lagagildi fyrr en það hefði verið samþykkt á þingi eftir næstu kosningar. Samþykkt þess nú mundi því engu breyta fyrirkomulagi og framkvæmd kosninganna í vor, en samþykkt þess mundi tryggja Reykjavík og Reykjanesi bætta stöðu á þessu sviði í kosningum sem fram færu eftir mitt ár 1978.

Að sjálfsögðu er þetta frv. og önnur þau um svipað efni, sem fram hafa verið lögð nú síðustu dagana, fram komið svona seint vegna þess að þm. biðu eftir umbótatill. frá stjskrn. Af ræðum forustumanna stjórnmálaflokkanna í haust og vetur varð ekki annað ráðið en allir hefðu hug á því að leiðrétta þann óhóflega mun á vægi atkv., sem nú er og hefur farið vaxandi undanfarið. Vonir okkar brugðust og þrátt fyrir áralangt starf hinna mætustu. manna í stjskrn. bólar ekki á árangri af störfum þeirra.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.