22.04.1978
Efri deild: 82. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3779 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

235. mál, lyfjafræðingar

Frsm. (Oddur Ólafsson) :

Herra forseti Frv. til laga um lyfjafræðinga hefur verið til umfjöllunar í heilbr.- og trn. í nokkra daga. N. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og leggur einróma til að það verði samþ. óbreytt.

Hér er um allmikinn lagabálk að ræða sem fjallar um starf lyfjafræðinga og stöðu þeirra innan heilbrigðiskerfisins. Því er ekki að neita, að starf lyfjafræðinga hefur tekið nokkrum stakkaskiptum nú á síðustu árum og áratugum og orðið ábyrgðarmeira og flóknara en áður. Hefðum við því mjög gjarnan viljað hafa svolítið meiri tíma til þess að rannsaka þetta frv. Hins vegar gátum við ekki séð neina þá stóra annmarka á því, sem yrðu þess valdandi að við sæjum ástæðu til að fresta afgreiðslu málsins, og teljum að hér sé um ótvíræðar umbætur að ræða frá því sem var. Það er þess vegna sem við leggjum til að frv. verði samþ. óbreytt.