27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4046 í B-deild Alþingistíðinda. (3296)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Ég held að það sé mesti misskilningur hjá flugráðsmönnum, — hv. þm. Steingrímur Hermannsson var að ljúka máli sínu og tók sérstaklega fram í upphafi að hann talaði sem flugráðsmaður — að hér sé verið að leggja til að málinu verði vísað til ríkisstj. Það er verið að leggja til að málinu verði vísað frá og næsta mál tekið á dagskrá. Það er ekkert um það í þessari till., að málinu verði vísað til ríkisstj. Séu allar athuganir og upplýsingar flugráðsmanna byggðar á svipuðum grundvelli og þessi afstaða hv. þm. Steingríms Hermannssonar, 2. þm. Vestf., þá gef ég ekki mikið fyrir það að eiga allt undir flugráði um það, hvort þessi athugun fer fram eða ekki. Þá er eins gott fyrir hv. þm., a. m. k. þm. Vestfjarðakjördæmis aðra en hv. þm. Steingrím Hermannsson, að samþykkja þessa þáltill. og það verði Alþ. sjálft sem sker úr um það, hvort þessi athugun fer fram eða ekki.

Ég var ekkert hissa á þeirri ræðu sem hv. þm. Ellert B. Schram flutti áðan. En ég var nánast furðu lostinn yfir þeirri ræðu sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson flutti sem þm. þess kjördæmis sem hér á í hlut, þess kjördæmis sem er langsamlega verst sett af öllum kjördæmum í landinu að því er varðar samgöngur, ekki bara í lofti, heldur og á landi og legi. Kannske er það vegna búsetu þessa hv. þm. hér syðra sem honum er ekki um þetta kunnugt, en þá væri til leiðbeiningar fyrir hann rétt að hann flytti lögheimili sitt og byggi vestra, þannig að hann vissi af eigin raun hvernig þessum málum er háttað þar.

Það eru fleiri en ég, sem þykir bréf flugráðs eða flugmálastjóra óljóst. Hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir sagði áðan, að henni þætti það óljóst, en hún vildi enn sem fyrr treysta á fögur orð og fyrirheit góðra manna og láta á það reyna. Hún er í 4 ár búin að treysta á yfirlýsingar hæstv. samgrh. um ýmis málefni hér á Alþ. og ekkert hefur staðist. Og enn ætlar hv. þm. að treysta á fögur orð og fyrirheit, í þessu tilfelli flugráðs eða flugmálastjóra. Guð gefi að þeir séu betur heima í málinu en hv. þm. og flugráðsmaður Steingrímur Hermannsson sem var að tala áðan.

Það kemur ekkert fram í því bréfi, sem liggur fyrir frá flugmálastjórn, um að þessi athugun verði gerð. Það er rétt að þm. fái að heyra þetta bréf einu sinni enn, með leyfi forseta:

„Bréf yðar varðandi umsögn um till. til þál. um athugun á úrbótum í flugsamgöngum við Vestfirði, 39. mál, var lagt fyrir 931. fund flugráðs og samþykkt að flugmálastjórn veiti umbeðna umsögn um þær úrbætur, sem getið er um í till. Verður væntanlega unnið að þeirri umsögn n. k. sumar með það fyrir augum, að hún liggi fyrir“, þ. e. a. s. umsögnin.

Ég heyrði ekki betur en hv. þm. Steingrímur Hermannsson vissi allt um þessi mál. Hann útilokaði lýsingu á Ísafjarðarflugvelli. Það má vel vera rétt. Og hann bað guð að forða mönnum frá því að hafa neitt slíkt í huga. Hann útilokaði líka lýsingu á Patreksfjarðarflugvelli. (StH: Nei.) Mjög torveld, sagði hv. þm. Og það veit ég hvað þýðir í hans munni. Svona taldi hann upp svo að segja hvern einasta lið, sem greint er frá í till. og á að athuga, og hafði í raun og veru á takteinum upplýsingar um hvert og eitt einasta atriði annað en um sameiginlegar vindmælingar á Ísafirði og Flateyri í Önundarfirði. Allt annað vissi hann um, þannig að hann hefði væntanlega sem flugráðsmaður getað veitt þessa umsögn á stundinni. Séu aðrir í flugráði jafnvel uppbirgðir af upplýsingum um þessi málefni, þá hefði þessi umsögn átt að geta legið fyrir.

Ég vísa því á bug, sem hv. 2. þm. Vestf. lét í ljós áðan, að Vestfirðingar megi vel við una það sem fyrir þá hefur verið gert í framkvæmdum í flugmálum. Ekki síst miðað við þá aðstöðu og þá sérstöðu, þá einstæðu sérstöðu sem sá landshluti hefur við að búa í þessum efnum, þá tel ég ekki lofsvert þó að hann hangi aftan í öðrum kjördæmum að því er varðar fjárveitingar til flugmála, sem ætti, ef rétt væri á málum haldið, að veita sérstakan forgang um framkvæmdir varðandi flugsamgöngur og raunar fleiri samgöngur. Því fer víðs fjarri, og það fullyrði ég að talað sé í nafni Vestfirðinga, þegar hv. 2. þm. þeirra, Steingrímur Hermannsson, segir að Vestfirðingar geti vel við unað það sem þar hefur gert. Ég vísa því a. m. k. á bug fyrir mitt leyti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson telur nægilegt fyrir framkvæmdir í flugmálum á Vestfjörðum, í því kjördæmi sem er algerlega einangrað, að það fái 70 millj. af þeim 543 millj. sem ætlaðar eru til framkvæmda í flugmálum á öllu landinu á fjárlagaárinu 1978. Þetta er hæfilegur skammtur handa Vestfirðingum, segir hv. 2. þm. þeirra, Steingrímur Hermannsson. Þeir væntanlega þakka fyrir þessa kveðju í júní, þegar þeir hafa til þess tækifæri.

Ég eða við, sem að þessari þáltill. stöndum, höfum ekki slegið einu eða neinu föstu um það, hvað hægt væri að gera í þessum efnum. Það eina, sem við höfum farið fram á og förum fram á, er að málin verði atbuguð. (Gripið fram á: Það held ég að sé best.) Það má vel vera og það er meira að segja mjög líklegt að mínu viti, að útilokað sé að lýsa upp Ísafjarðarflugvöll. En þá þarf það bara að koma í ljós, en ekki vera að slá því neitt föstu fyrir fram eða meira eða minna út í loftið. (Gripið fram í.). Ég á nú eftir að koma betur að hv. þm. Ellert Schram hér á eftir, þannig að hann getur beðið rólegur. (Gripið fram í: Þarf hann ekki að vara sig?) Nei, það eru kannske aðrir sem þurfa frekar að vara sig varðandi þetta mál.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Ellert B. Schram, að ég sé með neinn krónískan sjúkdóm varðandi gagnrýni, en ég gagnrýni það sem mér finnst gagnrýnisvert. Og þessi gagnrýni á ekki bara við þennan hv. þm. Hún beinist að öllum nm. allshn. og nú beinist hún líka að hv. 2. þm. Vestf. fyrir þá afstöðu sem hann tekur í málinu. Og svo segir hv. þm. Ellert B. Schram að ég tali hér í smæstu málum. Þetta telur hann eitt af smæstu málunum sem hér sé um að ræða, að gera tilraun til þess að fá athugun á því, að Vestfirðingar búi við svipað og aðrir landsmenn á samgöngusviði. Það er smámál á Alþ. En þetta er ekki lítið smáum augum heima í héraði, það get ég fullvissað þennan hv. þm. um. Það skyldi ekki vera, að hann hefði í fórum sínum, þó að þess hafi ekki verið getið hér, sérstaka ályktun og samþykkt frá bæjarstjórnum vestur á fjörðum um að þessi þáltill. yrði samþykkt? Það hefur ekki komið fram enn í umr., en ég veit að slík samþykkt hefur verið gerð og send hv. n. a. m. k. af einni bæjarstjórn á Vestfjörðum. Heimaaðilar heima í héraði, sem við þetta þurfa að búa ár eftir ár og áratug eftir áratug, eru því annarrar skoðunar en þeir, hvort sem þar er um að ræða þm. Reykvíkinga eða Vestfirðinga, sem sitja hér á Suðurlandsundirlendinu, í gósenlandinu sem þeir telja vera.

Það er ljóst að ekkert liggur fyrir um það í bréfi flugráðs, að þessi athugun fari fram. En umsögnina ætlar flugráð að veita eftir að þetta sumar er liðið. Það er það eina sem fram kemur og er ljóst í bréfinu. Ég get að sjálfsögðu getið í eyður eins og aðrir hv. þm., en a. m. k. er ekki ljóst eða ótvírætt að þessi athugun verði gerð. Svo segir hv. þm. að það væri í meira lagi óþinglegt, ef alþm. tjáðu sig um málið þó svo að viðkomandi embættismenn eða flugráðsmenn væru jákvæðir í málinu og vildu láta athuga það, þá er ekki óþinglegt að Alþ. taki ákvörðun um mál sem liggur fyrir því. Og ég vil spyrja hv. þm. Steingrím Hermannsson, 2. þm. Vestf., flugráðsmanninn: Hvers vegna lét ekki flugráð framkvæma þessa athugun á s. l. sumri? Það lá sams konar till. fyrir á síðasta þingi. Af hverju sváfu menn þá? Hver var ástæðan? Eða þurfti að flytja þetta mál tvisvar á Alþ. til þess að flugráðsmenn vöknuðu? Það er engu líkara en að hv. þm. Steingrímur Hermannsson sé að segja það fullum fetum, að málið hafi tvisvar þurft að koma til umr. á Alþ. til þess að þeir í flugráði vöknuðu og veittu málinu þá athygli sem það á fyllilega skilið. En þá er líka best að Alþ. taki málið til endanlegrar afgreiðslu, en vísi því ekki frá.

Það er mesti misskilningur hjá hv. þm. Ellert B. Schram, að ég sé með stöðugt þokuvæl eða barlóm fyrir hönd Vestfirðinga. En við Vestfirðingar krefjumst þess, að við séum settir við sama borð og aðrir landsmenn í þessu sem öðru. Nógu lengi höfum við verið meðhöndlaðir af stjórnvöldum og ráðandi mönnum í þjóðfélaginu sem annars eða þriðja flokks þjóðfélagsþegnar og á fleiri sviðum en þessu. Það er kannske sá boðskapur sem hv. þm. Ellert B. Schram vill nú koma á framfæri, að haldið skuli áfram að meðhöndla Vestfirðinga á þann hátt sem gert hefur verið. Ég a. m. k. vænti þess, að hv. 2. þm. Vestf., Steingrímur Hermannsson, taki ekki undir þann boðskap, þó að hann hafi tekið undir margt af því, og hann hefði gjarnan mátt láta ógert að taka undir það sem undir bjó í ræðu hv. þm. Ellerts B. Schram.

Vestfirðingar krefjast þess, að þeir fái sambærilega aðstöðu í samgöngum og aðrir landsmenn hafa og hafa búið við í mörg ár og áratugi. Það ætti ekki að vera neitt sérstakt áhorfsmál um að við þeirri beiðni mætti verða á Alþ., en því miður virðist allt annað vera uppi á teningnum. Ég held sem sagt enn við þá afstöðu, að ótvírætt liggi á borðinu að flugráð ætli að framkvæma þessa athugun í sumar. Það, sem frá flugráði hefur komið, er vægast sagt það óljóst, að það gefur ekki tilefni til þess að ætla að þetta verði framkvæmt. Ég held mig því enn við þá afstöðu, að það eina, sem sæmir Alþ. í þessu efni, er að þessi þáltill. verði samþykkt, en henni verði ekki vísað frá með rökstuddri dagskrá. Henni verður ekki vísað til ríkisstj. Ég leiðrétti enn einu sinni þann misskilning hv. þm. Steingríms Hermannssonar. Og a. m. k. er ég viss um það, að það verður sérstaklega eftir því tekið hjá viðkomandi aðilum, sem hér eiga hlut að máli, ef þessu máli verður vísað frá Alþ. með rökstuddri dagskrá. Það verður miklu frekar litið svo á að þeir, sem slíkri afgreiðslu veita liðsinni, séu höfuðandstæðingar þess, að eitt eða neitt verði gert á Vestfjörðum umfram það, sem gert er annars staðar á landinu hlutfallslega, þó svo Vestfirðingar hafi setið á hakanum í áraraðir. Og Alþ. gerir sig ekki hlægilegt með því að samþykkja þessa þáltill. Alþ. setur blett á sig að mínu viti með því að vísa þáltill. frá og samþykkja þá rökstuddu dagskrá sem allshn. hefur lagt fyrir Alþ. Ég vona fastlega að hv. þm. átti sig á því, hvað hér er að gerast, a. m. k. vænti ég þess, að þm. Vestf. átti sig á því.