28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4107 í B-deild Alþingistíðinda. (3335)

233. mál, vátryggingarstarfsemi

Frsm. meiri hl. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um vátryggingarstarfsemi. N. hefur gefið út svo hljóðandi nál.:

N. hefur fjallað um frv. á nokkrum fundum. Hún fékk á sinn fund Guðmund Guðmundsson tryggingafræðing. Einar B. Ingvarsson aðstoðarmaður ráðh. hefur einnig verið n. til aðstoðar. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem n. flytur till. um á sérstöku þskj., en Helgi Seljan mun skila séráliti.“

Það þótti orðið tímabært að endurskoða lögin frá 1973 um vátryggingarstarfsemi og vegna ýmissa breyttra viðhorfa var talið rétt að endurskoða lögin í heild. Afleiðingin er sú, að ýmis nýmæli og breytingar koma fram í þessu frv. Helstu breytingar, sem felast í frv., eru þessar:

Lágmarkshlutafé félags, sem sækir um leyfi til vátryggingarstarfsemi, er hækkað úr 20 millj. kr. og ekki gerður greinarmunur á líftryggingarhlutafélögum og öðrum. Til líftrygginga voru áður gerðar lægri kröfur, eða 10 millj. svipaðan hátt eru kröfur um stofnfé gagnkvæms vátryggingarfélags, sem starfsleyfis óskar, hækkaðar úr 5 og 10 millj. í 35 millj. kr.

Þá eru sett ný og ítarleg ákvæði um ávöxtun eigin tryggingarsjóðs erlends vátryggingarfélags sem starfar hér á landi á sviði skaða- og endurtrygginga. Eru þessar reglur hliðstæðar þeim sem eru í gildandi lögum um íslensk vátryggingarfélög.

Í nýrri grein er gerð krafa um skýrleika í nafni tryggingarfélaga og að umboðs- og sölumenn beri jafnan skilríki frá félaginu er sanni störf á vegum þess.

Veigamikil breyting er fólgin í þeirri till. rn. að hella niður núverandi 38. gr. laga nr. 26 frá 1973 um tímabundna skipun til fjögurra ára í senn í tryggingaeftirlitið. Kostnaður við þessa stjórn eftirlitsins nam s. l. ár nálægt 2 millj. kr.

Þá er í gildandi lögum ákvæði sem sætti mikilli gagnrýni tryggingamanna á sínum tíma. Það hljóðar svo:

„Telji tryggingaeftirlitið ekki, að þörf sé fyrir þá starfsemi, sem félagið hyggst reka, né að starfsemi þess sé til eflingar heilbrigðri þróun vátryggingarstarfsemi í landinu eða til hagsbóta fyrir vátryggingartaka og vátryggða, getur trmrh. neitað að skrá félagið í vátryggingarfélagaskrá og veita því starfsleyfi.“

Í ljósi þeirrar reynslu, sem á lögin og framkvæmd þeirra er komin, telur rn. ekki lengur þörf á slíku ákvæði og leggur til að það falli burt.

Síðasta veigamikla breytingin er sú, að skipuð verði þriggja manna nefnd til þess að fjalla um ágreining, sem rísa kann milli tryggingaeftirlitsins og vátryggingarfélags um framkvæmd laganna. Nefnd þessi yrði umsagnar-, en ekki úrskurðaraðili.

N. sendi þetta frv. til umsagnar og fékk einkum frá tveimur aðilum viðamiklar umsagnir, frá tryggingaeftirlitinu og frá Sambandi ísl. tryggingarfélaga. Ekki var unnt að fallast á allar þær breytingar sem lagðar voru til af þessum aðilum, enda voru þær nokkuð misjafnar, en meiri hl. n. kom sér saman um vissar breytingar á frv., sem lagðar eru fram á þskj. 756.

Er þá fyrst til að taka, að við 6. gr. leggjum við til að í staðinn fyrir að innborgað hlutafé skuli nema minnst 50 millj. verði það 65 millj. Síðasta mgr. 6. gr. orðist svo:

„A. m. k. einn endurskoðandi, löggiltur, skal kjörinn til þess að endurskoða reikninga félagsins.“

Þarna var áður talað um kjörinn endurskoðanda eða ráðinn, en samkv. þeim hlutafélagalögum, sem nú er verið að ganga frá hér á hv. Alþ., var talið rétt að gera þessa breytingu, þar sem er kveðið svo á að endurskoðendur skuli kjörnir.

Við 10. gr. leggjum við til, að í staðinn fyrir 35 millj. komi 45 millj. Þar stendur að stofnendur gagnkvæms vátryggingarfélags skuli leggja fram stofnfé sem nema skuli hið minnsta 35 millj. Við leggjum til að það hækki um 10 millj. upp í 45 millj.

Síðasta mgr. 10. gr. orðist svo:

„A. m. k. einn endurskoðandi, löggiltur, skal kjörinn til þess að endurskoða reikninga félagsins. Um hæfnisskilyrði endurskoðenda skulu gilda sömu reglur og um endurskoðendur í hlutafélögum.“

Þá gerum við till. um 15. gr., að í staðinn fyrir 25 millj. komi 35 millj.

Við 22. gr. hafði hv. þm. Albert Guðmundsson lagt fram brtt. Þetta varð til þess að við rannsökuðum þá till. allítarlega. N. flytur hana hér nokkuð breytta. Er hún þá þannig, að aftan við 22. gr. komi svo hljóðandi viðbót:

„Aðilar hér á landi, sem hyggjast tryggja erlendis verðmæti, sem eru eign viðkomandi að einhverju eða öllu leyti, án milligöngu vátryggingarfélags sem hefur starfsleyfi á Íslandi samkv. lögum þessum, skulu sækja um leyfi til trmrh., sem að fenginni umsögn tryggingaeftirlitsins getur veitt slíkt leyfi til eins árs í senn. Þeir, sem samkv. leyfi trmrh. tryggja erlendis án milligöngu íslensks tryggingafélags, skulu árlega senda tryggingaeftirlitinu skýrslu um tryggingar sínar, svo sem um væri að ræða íslenskt vátryggingarfélag, sbr. 42. gr. laga þessara. Þeir eru og gjaldskyldir til tryggingaeftirlitsins á sama hátt og íslensk tryggingafélög, sbr. 46. gr. laganna.“

Við leggjum til að 1. mgr. 23. gr. orðist svo: „Í nafni vátryggingarfélags skal koma fram, að félagið reki vátryggingarstarfsemi. Aðrir en þeir, sem leyfi hafa til vátryggingarstarfsemi, mega ekki bera heiti, sem kunna að benda til eða gefa í skyn að vátryggingarstarfsemi sé rekin. Nafn vátryggingarfélagsins, eða skrásett firmamerki þess“ — þetta er það sem bætist við frá okkur — „skal koma skýrt fram í tilkynningum og öllu prentuðu máli, sem frá félaginu fer. Starfi félag eða annar aðili sem umboðsaðili fyrir vátryggingarfélag, skal koma fram, að um umboð sé að ræða“ o. s. frv.

2. mgr. 40. gr. leggjum við til að orðist svo: „Hyggist þeir, sem leyfi hafa til vátryggingarstarfsemi, breyta vátryggingarskilmálum sínum, eða semja nýjan skilmála, skulu þeir senda tryggingaeftirlitinu fyrirhugaða skilmála svo fljótt sem auðið er til athugunar. Endurrit breytinganna og hina nýju skilmála í endanlegu formi skal senda tryggingaeftirlitinu þegar í stað.“

Í frv. stendur, að breytingar skuli senda tryggingaeftirlitinu með hæfilegum fyrirvara, en talið var að þar væri ekki nógu vel um hnúta búið, því hæfilegur fyrirvari gæti verið ósköp óákveðið tímatakmark. Þess vegna var farin sú millileið að segja: „svo fljótt sem auðið er“.

Við gerum enn fremur till. um að 48. gr. verði breytt á þann veg, að síðari mgr. orðist svo:

„Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. tryggingafélaga eða viðkomandi vátryggingarfélags, hagstofustjóri og er hann formaður nefndarinnar og einn án tilnefningar.“

Þetta byggist á því, að í frv. stendur:

„Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. tryggingafélaga, hagstofustjóri og er hann formaður nefndarinnar og einn án tilnefningar.“

Samkv. upplýsingum frá tryggingaeftirlitinu kom það í ljós, að ekki eru öll tryggingafélög í Sambandi ísl. tryggingafélaga, og þess vegna þótti nauðsynlegt samkv. till. þeirra að setja inn: „eða viðkomandi vátryggingarfélags.“

„Ég vil enn fremur geta þess, að n. ræddi allmikið um 38. gr. frv., þar sem ræðir um stjórnarfyrirkomulag stofnunarinnar. 38. gr. hljóðar svo: „Sérstök stofnun, tryggingaeftirlitið, hefur eftirlit með starfsemi vátryggingarfélaga og rekstri þeirra samkv. ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkv. þeim.

Ráðh. skipar forstöðumann tryggingaeftirlitsins, en forstöðumaður ræður annað starfsfólk. Forstöðumaður annast stjórn stofnunarinnar og gætir þess að hún starfi í samræmi við lög og reglugerðir á hverjum tíma, allt undir yfirstjórn trmrn. og ráðh.

Ráðh. setur í reglugerð nánari ákvæði um verksvið og skyldur tryggingaeftirlits.“

Eins og nú er hefur tryggingaeftirlitið sérstaka stjórn þriggja manna, sem síðan ræður framkvæmdastjóra. Lagt er til að þetta breytist á þann veg, að tryggingaeftirlitið heyri beint undir ráðh. og forstöðumaður annist stjórn stofnunarinnar á ábyrgð ráðh., en ekki stjórnar eins og áður var. Um þetta ræddum við allmikið og að höfðu samráði við ýmsa merka aðila ákváðum við að breyta ekki þessu fyrirkomulagi. Það er ýmist á Norðurlöndunum, að tryggingaeftirlitið er undir sérstakri stjórn eða þá það heyrir beint undir rn. Þetta fyrirkomulag, sem nú er lagt til, mun hins vegar aðeins vera í einu Norðurlandanna, Finnlandi, en mér er sagt að það hafi reynst þar vel og við séum ekki það stórir í sniðum að við ættum ekki að geta unað við þetta fyrirkomulag.

Að þessum till. fluttum leggur meiri hl. n. til að frv. verði samþykkt.