29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4251 í B-deild Alþingistíðinda. (3474)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir áliti hv. heilbr.- og trn. um frv. til l. um heilbrigðisþjónustu. N. hefur rætt frv. á allmörgum fundum. Einn þeirra var sameiginlegur með heilbr.- og trn. Ed. Þá mættu og á fund n. Ólafur Ólafsson landlæknir, Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri heilbr.- og trmrn., Magnús Guðjónsson framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga og Páll Gíslason læknir, formaður heilbrigðismálaráðs Reykjavíkurborgar. Komu þeir fram með ýmsar aths. og ábendingar sem n. athugaði síðar og tók tillit til. Tveir þessara aðila sendu og n. skriflegar álitsgerðir og nokkrar brtt. og kemur nokkuð af því fram í brtt. n. á sérstöku þskj., 767.

Hæstv. heilbr.- og trmrh. hefur gert ítarlega grein fyrir frv. sem heild í framsögu málsins á sínum tíma hér í hv. þd., og mun ég því nú takmarka framsögu mína fyrir þessu nál. við þær breytingar sem heilbr.- og trn. varð ásátt um að gera till. um. Allir nm. skrifa undir álitið, en Ragnhildur Helgadóttir og Karvel Pálmason með fyrirvara. Einstakir nm. áskilja sér samkv. nál. rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.

Þá bárust og, eftir að n. afgreiddi málið, álitsgerðir sem fólu í sér nokkrar brtt. frá Hjúkrunarfélagi Íslands og VRS, nefnd þeirri sem fjallað hefur að undanförnu um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. N. gat ekki fjallað um þessar álitsgerðir þar eð hún hafði þegar afgreitt málið, en þær verða væntanlega teknar til skoðunar á síðara stigi málsins í meðförum Ed.

1. brtt., sem n. flytur, gerir ráð fyrir að aftan við málsl. 7.2, sem er ákvæði sem fjallar um heilbrigðismálaráð, bætist nýr málsl. þess efnis, að í Reykjavík kjósi borgarstjórn 7 fulltrúa óbundinni kosningu, en stjórnir heilbrigðisstofnana ríkisins og einkaaðila tilnefni fulltrúa frá hverri stofnun. Þótti eðlilegt með tilliti til þess, að heilbrigðisstofnanir í Reykjavík eru fleiri og eignaraðild fjölbreytilegri en annars staðar, að nánar sé kveðið á um skipun heilbrigðismálaráðs Reykjavíkurborgar, þ. á m. hversu margir fulltrúar heilbrigðisstofnana borgarinnar, borgarspítala og heilsugæslustöðvar skuli eiga þar sæti. Þetta var fyrsti liður 1. brtt.

Annar liður eða b-liður 1. brtt. gerir ráð fyrir að málsliðir 7.3.4. og 7.3.5. í kaflanum um heilbrigðisráð falli út. Allmiklar umr. urðu í n. um heilbrigðismálaráðin. Nm. voru yfirleitt á einu máli um að í læknishéruðum úti á landsbyggðinni og þá í einkum hinum dreifbýlli landshlutum, þar sem erfiðast er um samgöngur allar, væri varla grundvöllur fyrir því, að heilbrigðismálaráðin gætu gegnt því víðfeðma hlutverki, sem þeim er ætlað í frv., og því eðlilegt og raunhæft að þessir liðir, sem kveða á um heilbrigðiseftirlit í héraði og skýrslugerð um heilbrigðismál, falli út.

2. brtt. n., a-liður, gerir ráð fyrir að á Kópaskeri verði H 1. þ. e. a. s. heilsugæslustöð með einum lækni, en samkv. gildandi lögum er þegar H 1 á Kópaskeri og þykir ekki ástæða til að breyta þeirri skipan nú. Ég tel ástæðu til að benda sérstaklega á í þessu sambandi ákvæði 14. og 15. gr. frv., en í 14. gr. 11 segir svo. með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem þrír læknar eða fleiri eru starfandi á heilsugæslustöð getur ráðh. ákveðið að fengnum tillögum landlæknis og heilbrigðisráðs, að einn þeirra skuli hafa tímabundna búsetu á heilsugæslustöð (H) í sama umdæmi, enda sé starfs- og húsnæðisaðstaða þar viðunandi að mati landlæknis og héraðslæknis og sérstök staðarleg rök mæli með slíkri skipan.“

Í 15. gr., þeirri sem kemur næst á eftir, er kveðið svo á, að ráðh. sé heimilt að breyta með reglugerð flokkun stöðva samkv. 19. gr. ef aðstæður breytast svo að þess sé talin þörf. Með þessum ákvæðum í frv. er tryggður nauðsynlegur sveigjanleiki í samræmi við slíkar aðstæður og þarfir.

B-liður brtt. nr. 2 er um að í gr. 14.11 komi tveir læknar í stað þrír læknar, þ. e. a. s. að ráðh. geti, enda þótt ekki séu nema tveir læknar á heilsugæslustöð lögum samkv., ákveðið að læknir sé búsettur á H-stöð ef ástæða þykir til.

3. brtt. er við 19.1. 5. lið 10. Þessi brtt. er auðskýrð og sjálfsögð og fyrst og fremst málfarslegs eðlis. Við stefnum varla að því að vernda sjúkdóma, en viljum gjarnan leita þá uppi, lækna þá og auðvitað best af öllu að fyrirbyggja þá, því að í því er hin eiginlega heilsuvernd að sjálfsögðu fólgin. En þarna er aðeins lagt til að í staðinn fyrir hópskoðanir og skipulega sjúkdómavernd komi hópskoðanir og skipulögð sjúkdómaleit. Þetta er í kaflanum um hlutverkaskipun heilsuverndar.

Brtt. 4 frá n. gerir ráð fyrir að aftan við gr. 20.1 komi ákvæði um að ráðh. setji gjaldskrá um greiðslu sjúkrasamlaga fyrir rannsóknir og meðferð veitta á heilsugæslustöð, aðra en læknishjálp. Þessi breyting er til komin fyrir ábendingu frá sveitarfélögum og gefur ráðh. möguleika til að stuðla að því, að heilsugæslustöðvar geti rekið eigin rannsóknarstofur, röntgenstofur, meinatæknistörf og annað slíkt, þar sem ástæður gera slíkt eðlilegt og hagkvæmt, í stað þess að leita til annarra stærri stöðva þar sem slík þjónusta er veitt nú.

Í brtt. 5 er lagt til að auk viðkomandi héraðslæknis skuli koma til álit landlæknis á nauðsyn og gagnsemi heilbrigðisstofnana sem leyfi er veitt fyrir af ráðh. Virðist þessi viðbót eðlileg og þarf ekki nánari skýringar.

Brtt. 6, við 30. gr., 5. lið, gerir ráð fyrir að þróunar- og rekstraráætlun sjúkrahússtjórna skuli send viðkomandi heilbrigðismálaráðum til samþykktar í stað umsagnar, eins og stendur í frv., ég tel ekki fremur en um brtt. á undan ástæðu til. að gefa þar sérstakar skýringar á.

7. og síðasta brtt. n. gerir ráð fyrir að aftan við 1. lið ákvæða til bráðabirgða um fjárframlög úr ríkissjóði til eldri læknastöðva, þar sem enn hafa ekki verið reistar heilsugæslustöðvar samkv. nýjum lögum, komi ákvæði um greiðslu á húsaleigu sé um leiguhúsnæði að ræða. Það virðist eðlilegt og sanngjarnt að þeir staðir, sem ekki eru fullkominnar heilsugæslustöðvar aðnjótandi, beri ekki einnig skarðan hlut fjárhagslega á meðan þeir þurfa að búa við bráðabirgðalausn á sviði heilsugæslumála.

Fleiri voru brtt. n. ekki og ég tel mig hafa gert nægilega grein fyrir þeim og þarf því ekki að fjölyrða frekar um það nú.

Mig langar aðeins, úr því að ég er hér í ræðustól og þarf að hverfa af fundi fljótlega nú á eftir, að skjóta hér inn í örstuttu máli aths. frá eigin brjósti.

Ég átti sæti í þeirri n., sem endurskoðaði heilbrigðisþjónustulögin, og við héldum marga fundi, víst eina 40, og ræddum mikið. Það var ágætur starfsandi í þessari n. og fór vel á með okkur. En ekki er fyrir það að synja, að ágreiningur var nokkur um ýmis veigamikil atriði, og ég hlýt að segja það fyrir mitt leyti, að frá minni hálfu var í mörgum tilvíkum um málamiðlun að ræða, því að sjálfsögðu gátu ekki allir fengið fram það sem þeir helst vildu, og vona ég að frv. sé þannig úr garði gert, að það horfi til bóta frá því sem var. Alla vega er nú búið svo um hnútana að heilbrigðislöggjöfin nær til alls landsins, sem ekki var áður, þar sem Suðurland hafði ekki komið undir framkvæmd laganna.

En það er eitt atriði sem brennur mér mjög í huga í sambandi við heilbrigðisþjónustu almennt, og ég get ekki látið vera að minnast á það, af því að nú fer sumar í hönd og þar með sá þáttur í íslenskri heilbrigðisþjónustu, sérstaklega að sumrinu til, að læknastúdentar eru sendir út á landsbyggðina. Sumir þeirra hafa varla meira en hálflokið námi og gegna þar þjónustu í mánaðartíma, síðan fara þeir og annar nýr kemur í staðinn. Ég hef mjög oft minnst á þetta við yfirstjórn heilbrigðismála og þó sérstaklega landlækni, sem ég tel að þetta heyri beint undir, mönnun læknishéraða, og hann hefur tekið mjög vel þeirri ábendingu, að óboðlegt væri fólki að búa við slíka læknisþjónustu. Þetta er þannig til komið, að mér skilst, að ráðningarstjóri læknadeildarstúdenta útdeilir milli námsmanna í háskólanum þessum héraðslæknis- eða heilsugæslulæknastörfum úti á landsbyggðinni. Þeir færa það sem rök fyrir þessari ráðstöfun, að það sé nauðsynlegt fyrir verðandi lækna að kynnast heilbrigðisþjónustunni úti á landsbyggðinni. Þetta eru ágæt rök út af fyrir sig, sem ég viðurkenni. En mánaðartími á stað úti á landi er auðvitað hvorki fugl né fiskur fyrir læknastúdentinn til þess að öðlast nokkra marktæka reynslu, og fyrir fólkið, sem verður að búa við þetta, er þetta fyrir neðan allar hellur, og ég vil skora á þá, sem fara með úrskurðarvald í þessum málum, að láta ekki slíkt viðgangast lengur. Fólk er langþreytt orðið á þessu, það sem hefur orðið að búa við þetta ár eftir ár, og að mínu mati er það engan veginn réttlætanlegt og algerlega óbrúklegt. Ég veit ekki betur en þessir ungu læknar eða læknastúdentar taki auk þess fullt þjónustugjald á við fullmenntaðan lækni, þó þori ég ekki að fullyrða um það, en ég held að svo sé. Og því forkastanlegra er þetta þar að auki.

Launaþátturinn að því er læknastéttina varðar er auðvitað kapítuli út af fyrir sig og verulega gagnrýnisverður. Ég vakti oftlega máls á þessu í n. Hér er víst erfitt að koma við breytingum, og ég viðurkenni að hingað til hef ég látið sitja við orðin tóm að reyna ekki að ná fram breytingum þarna, að læknar eins og aðrir opinberir starfsmenn hlíti launakjörum opinberra starfsmanna. Þeir eru eina stéttin innan Bandalags háskólamanna sem gerir sérsamninga, og samkv. þessu frv., sem hér er lagt fram og samkv. gildandi heilbrigðislögum taka þeir laun með tvennu móti: föst laun og síðan samkv. sérstökum samningum Læknafélags og fjmrn. Ég vona að þetta skoðist ekki sem árás á læknastéttina. Í henni eins og öðrum stéttum og starfshópum eru margir sannir heiðursmenn og ég þekki marga slíka. En þetta er óeðlileg skipan og einn angi af því ófremdarástandi sem ríkir í kjaramálum á okkar landi, þessir sérsamningar hér og þar, útúrkrókar og afkimar, þar sem menn geta tekið laun margfalt hærri en nokkurn tíma í rauninni kemur fram opinberlega. Að sjálfsögðu ættu læknar að geta unað því eins og aðrir opinberir starfsmenn að taka laun samkv. launataxta opinberra starfsmanna, og það hlýtur að koma að því, að þessu verði breytt í þessa sjálfsögðu átt.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira hér um. Ég vænti þess, að hér verði einhverjar umr. á eftir, en því miður verð ég að hverfa af fundi.