02.05.1978
Neðri deild: 93. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4395 í B-deild Alþingistíðinda. (3691)

242. mál, lyfjalög

Frsm. (Jón Skaftason):

Virðulegi forseti. Heilbr.- og trn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar að undanförnu frv. til lyfjalaga, sem er 242. mál þessa þings og er komið hingað frá Ed.

Hinn 9. mars 1973 skipaði heilbr.- og trmrn. nefnd til þess að endurskoða lyfsölulög, nr. 30 frá 1963. Komst nefndin að þeirri niðurstöðu, að heppilegt væri að skipta efni þessara laga niður í þrenn lög, þar sem ein lögin fjalla um lyfjafræðinga, önnur um lyfjabúðir og þriðju lögin um lyfin sjálf og framleiðslu þeirra. Frv. um lyfjafræðinga hefur þegar verið samþykkt sem lög á þessu þingi, en þetta frv. fjallar um lyfin og framleiðslu þeirra.

Heilbr.- og trmrn. sendi till. nefndar þeirrar, er ég gat um í upphafi, eftirtöldum aðilum til umsagnar: Í fyrsta lagi Apótekarafélagi Íslands, í öðru lagi Lyfjafræðingafélagi Íslands, í þriðja lagi Læknafélagi Íslands og í fjórða og síðasta lagi lyfjavöruhóp Félags ísl. stórkaupmanna. Bárust umsagnir frá öllum þessum aðilum og komu þær til athugunar við endanlegan frágang á frv.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta frv., en heilbr.- og trn. mælir einróma með samþykkt þess, með þeim fyrirvara þó, að einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt.