03.05.1978
Efri deild: 97. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4411 í B-deild Alþingistíðinda. (3756)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt og hefur skilað nál. á þskj. 837. Frv. þetta hefur ekki verið til meðferðar mjög lengi hér á Alþ., en hins vegar var á s.l. vetri fjallað mjög ítarlega um frv. til l. um tekjuskatt og eignarskatt, sem fjmrh. flutti á síðasta þingi. Við meðferð þess máls var það frv. sent til umsagnar fjölmargra aðila og var til ítarlegrar meðferðar í fjh.- og viðskn. beggja d. Það má segja, að þetta frv., sem hér er fram komið, sé að miklu leyti ávöxtur og niðurstöður af því starfi, sem unnið var á s. l. vetri, og þær breytingar, sem á frv. hafa verið gerðar, taka mið af þeim sjónarmiðum sem fram komu við meðferð málsins.

Aðdragandi þessa frv. um tekjuskatt og eignarskatt er orðinn mjög langur. Það hefur í tíð þriggja síðustu ríkisstj. og þriggja fjmrh. verið stefnt að því að gera umfangsmiklar breytingar á skattalögum. Í þessum efnum hefur verið unnið mikið starf, en það má segja að sú löggjöf, sem við byggjum einkum á, sé að stofni til frá árunu 1971 og 1972. Þeim lögum, sem voru sett á árinu 1971 af þáv. ríkisstj., var síðan breytt af þeirri ríkisstj., sem tók við, svokallaðri vinstri stjórn, ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, á árinu 1972. Ekki voru gerðar umfangsmiklar breytingar á þeim lögum. Það voru gerðar á þeim ýmsar breytingar, en hins vegar var þar ekki um mjög veigamiklar breytingar að ræða. Því má segja að allir þeir stjórnmálaflokkar, sem starfa í landinu í dag, hafi staðið að þeim lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem í gildi eru. Hins vegar hefur komið gjörla fram að allir eru meira og minna óánægðir með þessi sömu lög., og er það ekki að undra, því að lög, sérstaklega skattalög, þurfa að taka sífelldum breytingum og taka mið af aðstæðum í þjóðfélaginu á hverjum tíma.

Það má segja að mikið hafi verið unnið að endurskoðun þessara mála. Allir hafa að vísu ekki verið sammála um það, hvað væri að núgildandi lögum, en flestir sammála um að eitthvað væri að. Það, sem einkum hefur komið fram og gagnrýnt hefur verið í sambandi við núgildandi skattalög og þá í fyrsta lagi varðandi einstaklinga, eru að mínum dómi þrjú atriði:

Í fyrsta lagi er það skilgreining á tekjuhugtakinu, þ. e. a. s. sá stofn, sem skattur er lagður á, er oft og tíðum nokkuð óljós og ófullnægjandi. Þar kemur til að ýmiss konar hlunnindi geta verið skattfrjáls, um það getur verið að ræða að aðilar hafi heimildir til úttektar úr atvinnurekstri eða fyrirtækjum án skattskyldu af eigin hendi og reglur um meðferð söluhagnaðar eru mjög ófullnægjandi miðað við þá verðlagsþróun sem hefur orðið á undanförnum árum.

Í öðru lagi hafa frádráttarheimildir þótt og eru mjög rúmar og verið mikið gagnrýndar. Frádráttarheimildir þessar hafa nýst þeim mun betur sem tekjur eru hærri, og þessar frádráttarheimildir hafa skapað verulegan ójöfnuð þannig að aðilar, sem búa við sambærilegar aðstæður, hafa á engan hátt alltaf fengið sambærilega skatta.

Í þriðja lagi er að vísu um að ræða frádráttarheimild, en ég vil nefna það atriði sérstaklega. Það er svokölluð 50% regla, þ. e. a. s. að helmingur af launum eiginkonu sé frádráttarbær frá skatti. Þessi regla er fyrir löngu orðin úrelt og hefur skapað verulegan ójöfnuð þannig að það er ekki sama hvort hjóna vinnur fyrir tekjunum. Á því er verulegur munur, hvort eiginkona vinnur fyrir tekjunum eða eiginmaður.

Það frv., sem hér liggur fyrir, gengur að mínum dómi alllangt í þeim efnum og í mörgum tilfellum mjög langt í að leiðrétta þessi atriði. Varðandi fyrsta atriðið er þess einkum að geta, að framtalsskylda á margvíslegum hlunnindum er stóraukin og ætti því að verða til þess að skilgreining á tekjuhugtakinu gæti orðið ljósari. Einnig er reglum um meðferð söluhagnaðar breytt verulega. Og síðast en ekki síst verður skylt samkv. 7. gr. frv. að sérhver maður, sem vinnur að eigin atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, telji sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hann hefði innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila. Mun ég koma að þessu atriði síðar.

Þessi atriði, sem ég hef hér greint, eru út af fyrir sig tilraun til þess að varpa nýju ljósi á tekjuhugtakið og þann stofn sem skattur er lagður á. Í öðru lagi varðandi frádráttarheimildir, þá er frádráttarliðum fækkað nokkuð. En það, sem skiptir einnig miklu máli, er að tekinn er upp ákveðinn staðlaður frádráttur, eða 10% af tekjum, sem allir hafa heimild til að draga frá tekjum sínum. Mun þetta væntanlega verða til þess, að allt að 70% eða meir af framteljendum mun fremur velja þetta form heldur en tíunda einstaka frádráttarliði, sem mun verða til verulegrar einföldunar í framkvæmd skattamála. Og varðandi þriðja atriðið, sem ég nefndi, þá er tekin upp takmörkuð sérsköttun hjóna og þar með úr gildi felld sú 50% regla sem verið hefur í gildi um langan tíma.

Það má segja að ýmsar leiðir séu til þess að skattleggja einstaklinga í þjóðfélaginu. Í fyrsta lagi getur verið um það að ræða að skattleggja hjónin, í öðru lagi getur verið um það að ræða að skattleggja fjölskylduna og í þriðja lagi að skattleggja einstaklinginn. Það má færa rök að öllum þessum leiðum. Hjón og fjölskylda lifa í félagi og sameiginlegu búi og heimili og þess vegna hlýtur stærð þeirrar fjölskyldu og aðstæður að móta að verulegu leyti greiðslugetu þessara aðila. Að hinu leytinu á sérhver einstaklingur rétt til þess að mínu mati, að á tekjur hans og eignir sé lagt sjálfstætt skattalegt mat þannig að hann geti vitað sjálfur hvað honum ber að greiða til samfélagsins. Þessi sjónarmið stangast á í verulegum mæli, og þess vegna hefur verið farin sú leið að viðurkenna rétt sérhvers einstaklings til sjálfstæðs mats á tekjum sínum og eignum að nokkru leyti. Hins vegar varð ekki hjá því komist, að unnt væri að taka verulegt tillit til fjölskylduaðstæðna, hvort viðkomandi einstaklingur býr í hjónabandi eður ei, og þess vegna heimiluð millifærsla á þeim persónufrádrætti, sem ekki nýtist hjá viðkomandi einstakling, yfir á maka þessa aðila.

Það má segja að í stuttu máli séu þetta þau stærstu atriði sem varða skattlagningu einstaklinga. Hins vegar er ljóst að nokkrar og verulegar breytingar verða á skattleysismörkum. Skattleysismörkin samkv. þessu frv. munu hækka og skattbyrðin færist til á hina hærra launuðu og frá hinum lægra launuðu. Skattbyrðin færist einnig til frá þeim, sem nutu verulegrar ívilnunar í formi frádráttar, sérstaklega í sambandi við 50% regluna, yfir til þeirra sem nutu þeirra ekki. Um umtalsverða breytingu á skattbyrði er því að ræða.

Að því er varðar félög og rekstraraðila, þá hafa einkum þrjú atriði vakið deilur og umtal í sambandi við skattlagningu þessara aðila. Í fyrsta lagi, og það er að mínum dómi langstærsta atríðið, er skattfrelsi söluhagnaðar af eignum. Söluhagnaður af fyrnanlegum eignum er samkv. núgildandi lögum skattfrjáls að hálfu, hafi aðili átt þá eign í tvö ár, en skattfrjáls að fullu hafi aðili átt hana í fjögur ár. Þessi söluhagnaður getur í mörgum tilfellum verið mjög mikill, og þegar við verðbólgu er að etja eins og í þjóðfélagi okkar, þá getur þessi söluhagnaður og skattfrelsi þessa söluhagnaðar orðið til þess að rekstraraðili búi jafnvel við skattfrelsi um aldur og ævi. Ef viðkomandi aðili er nægilega duglegur og iðinn við að skipta um eignir og skapa sér þar með skattfrjálsan söluhagnað, sem verður aðallega til þess að nýr fyrningarstofn myndast, þá er það svo í einstaka atvinnugreinum, að slíkir hlutir geta orðið til þess, að um skattfrelsi sé að ræða þótt greiðslugeta sé mjög bærileg.

Í öðru lagi hafa ýmis atriði varðandi fyrningar vakið deilur, en að mínu mati eru þetta minni háttar atriði í samanburði við söluhagnaðinn. Það, sem einkum er ámælisvert varðandi þær fyrningar sem gilda samkv. núgildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt, er svokölluð verðstuðulsfyrning, en verðstuðulsfyrning leggst á fengnar fyrningar, og þeir sem hafa hæstu fyrningarnar, fá hæstu verðstuðulsfyrninguna, en þeir, sem hafa lægstu fyrninguna, fá lægstu verðstuðulsfyrninguna. Þetta verður til þess, að tiltölulega nýjar eignir fá mjög háar verðstuðulsfyrningar, en gamlar eignir fá svo til engar verðstuðulsfyrningar. Að sjálfsögðu er miklu meiri ástæða til þess, að þeir, sem eiga gamlar eignir, sem keyptar hafa verið á lágu verði, fái fremur hækkun á sínum fyrningum heldur en þeir sem nýlega hafa keypt eignir.

Í þriðja lagi hafa, eins og ég nefndi áður, ýmis atriði varðandi einstaklinga í atvinnurekstri vakið deilur og umtal, og þar er komið í reynd það sama vandamál sem ég minntist á áðan, þ. e. a. s. skilgreining á tekjuhugtaki. Um það hefur verið að ræða í allmörgum tilfellum, að tapsfrádrættir; sem t. d. eru myndáðir með fyrningum, hafa orðið til þess að tekjur eru sáralitlar þótt greiðslugeta geti verið bærileg. Mjög mikill mismunur er því í einstökum tilfellum á milli þess, sem viðkomandi aðilar hafa sér til neyslu og sér til framfæris, og þess sem skattskylt er samkv. skilgreiningu skattalaga.

Varðandi þessi atriði er ýmislegt gert í þessu frv. sem lagfærir þessa ágalla. Í fyrsta lagi verður það ófrávíkjanleg regla, að söluhagnaður samkv. skilgreiningu, sem fram kemur í 10. gr., verður ávallt skattskyldur. Heimilt verður að vísu að fyrna aðrar eignir sem nemur þessum söluhagnaði, en að stofni til verður þessi söluhagnaður ávallt skattskyldur í sambandi við fyrnanlegar eignir. Söluhagnaður í sambandi við íbúðarhúsnæði verður hins vegar ekki skattskyldur. Hafi aðili átt eignina í fimm ár eða lengur og viðkomandi aðili á ekki meira en 600 m3 eða hjón 1200 m3, þá verður ávallt um skattfrelsi að ræða. Hafi viðkomandi aðili átt eignina í skemmri Ríma, þá verður einnig um skattfrelsi að ræða, ef viðkomandi aðili kaupir aðra eign í staðinn, og skiptir þá eigi máli á hvaða byggingarstigi eignin er.

Þetta atriði hefur valdið verulegum erfiðleikum. Það er algengt í þjóðfélaginu, að ungt fólk ráðist í að byggja húsnæði sem það síðan ræður ekki við að byggja og þarf að selja á byggingarstigi. Ef slík eign er seld með söluhagnaði, þá verður sá söluhagnaður ávallt skattskyldur því að um skattfrelsi getur ekki verið að ræða nema búseta hafi verið hafin í viðkomandi eign. Hér er því um verulega bót að ræða.

Ákvæðum um fyrningar er breytt verulega. Fyrningarhlutfall er lækkað, en hins vegar tekið upp endurmat á öllum eignum og fyrningar síðan skertar í hlutfalli við skuldastöðu og skal það fært á svokallaðan mótreikning fyrninga. Hér er um allflókið mál að ræða við fyrstu sýn, en það verður það þó ekki þegar menn byrja að athuga það nánar. Hins vegar er rétt að gera sér grein fyrir því, að slíkt endurmat verður vart tekið upp nema um allflóknar reglur sé að ræða. Ég vil taka það fram, að ég hef ekki verið sérstaklega bjartsýnn á það fram að þessu, að takast mætti að taka upp sjálfvirkt endurmat í skattalögum. Það má segja að slíkt hafi verið reynt hér allt í kringum okkur, í löndunum í kring, ekki með löggjöf, heldur hafa menn hugleitt það nú í mörg ár, hvernig takast megi að taka upp endurmat í skattalögum og fyrningar af endurmatsverði. Mér er ekki kunnugt um að nein þjóð í löndunum hér í kring hafi enn tekið slíkar reglur upp. Þess vegna er um verulegt nýmæli að ræða.

Í fyrsta lagi verður heimilt samkv. þessu frv. að endurmeta gamlar eignir með ákveðnum verðstuðli og endurmatið verður þeim mun hærra sem eignirnar eru eldri. Hins vegar verða fyrningar endurmetnar einnig með verðstuðli þess árs, sem eignin er keypt á, þannig að fyrningarnar verða endurmetnar með mun hærri verðstuðli en annars væri tilefni til. Af þessum orsökum verður þetta endurmat allverulega lægra en verðlagsþróunin að öðru leyti gefur tilefni til. Þess vegna mun endurmatið hafa tiltölulega litla þýðingu í sambandi við gamlar eignir. Fasteignir verður hins vegar heimilt að endurmeta upp að fasteignamatsverði, sem mun hafa verulega þýðingu. Í framhaldi af þessu verður heimilt að endurmeta eignir með vísitölu byggingarkostnaðar á hverju ári og fyrningar verða endurmetnar á sama hátt.

Það er hins vegar svo, að viðkomandi aðilar skulda oft verulegar fjárhæðir í þessum eignum, borga fyrir þau lán verðtryggingu, gengistap og fleiri atriði koma til, þannig að ef ekkert væri frekar að gert væri það í mörgum tilfellum svo, að viðkomandi aðilar fengju frádrátt tvívegis varðandi þetta. Þess vegna hefur verið tekin upp í frv. svokallaður mótreikningur fyrninga eða takmörkun á fyrningum vegna skulda. Reiknað er út samkv. ákveðnum aðferðum, hversu mikið lánsfé stendur á bak við fyrnanlegar eignir, og síðan mótreikningur færður upp til samræmis við það. Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara ítarlega út í þennan reikning, en ég vil þó geta þess, að ljóst er að nauðsynlegt er að gera ítarlegri prófanir á því hvernig þessi reikningur virkar, heldur en hingað til hefur verið gert, til þess að gera sér glögga grein fyrir þýðingu hans. Mér er ljóst, að þessi mótreikningur og takmörkun á fyrningum verkar mun meir þegar líður fram í tímann heldur en á fyrstu árunum. Má í stuttu máli segja að viðkomandi aðilar fái ekki í reynd til frádráttar meira en sem svarar jákvæðum vöxtum á hverjum tíma. Mótreikningurinn verkar á þann hátt. Neikvæðir vextir miðað við verðlagsþróun koma því ekki til frádráttar þegar tímar líða. En ég vil aðeins ítreka það. að ég tel nauðsynlegt að tíminn verði vel notaður í sumar til þess að fullkanna þessi atriði og athuga fleiri leiðir í þessum efnum. Ég er ekki með þessu að segja, að ég telji ekki að þessi leið, sem hér hefur verið valin, geti ekki gengið, þvert á móti, aðeins það, að rétt er að leita leiða, ef hægt væri að einfalda þessar færslur, því að það er töluvert gefandi fyrir að geta haft framkvæmdina sem einfaldasta.

Ég mun nú aðeins víkja að frv. því, sem flutt var á s. l. ári, og þeim helstu breytingum, sem hafa verið gerðar í þessu frv., sem nú liggur fyrir.

Að mínum dómi lá fyrir á s. l. vetri frv. sem fól í sér verulegar endurbætur á skattakerfinu. Þetta varðaði sérstaklega skilgreiningu á tekjuhugtaki, reglur um söluhagnað, fyrningarreglur og framkvæmd skattamála og ýmissa frádráttarliða, sem voru lagðir niður og einfaldaðir, sem varð til verulegra bóta. Hins vegar komu fram við meðferð málsins fjölmargar aths. frá ýmsum aðilum og hefur að mörgu leyti verið tekið verulegt tillit til þeirra atriða.

Í fyrsta lagi virtist vera almennur vilji fyrir í þjóðfélaginu að taka upp einhvers konar sérsköttun einstaklinganna, sérsköttun hjóna, og það frv., sem nú liggur fyrir, felur slíkt í sér. Hins vegar er ljóst að þetta er ekki ágallalaust því að m. a. mun þessi háttur hafa í för með sér að framteljendum mun fjölga um 40–50 þús. Það fer ekki hjá því, að þessi fjölgun framteljenda mun hafa í för með sér nokkurn kostnaðarauka. En hins vegar hefur það verið mat manna, að þessi regla sé bæði réttlætismál og einnig sé hún einfaldari ef upp verður tekið staðgreiðslukerfi skatta.

Reglum um söluhagnað hefur ekki verið breytt að neinu ráði nema að því leytinu til, að endurmat eignanna hefur nokkur áhrif á söluhagnað á hverjum tíma, en í því sambandi verður einnig að taka tillit til þess, að fengnar fyrningar verða líka endurmetnar. Í sumum tilfellum hefur viðkomandi endurmat því ekki eins mikil áhrif og við fyrstu sýn mætti halda og einnig skiptir þarna miklu máli hinn svokallaði mótreikningur fyrninga.

Þá hefur verið horfið frá afsláttarkerfi frv. frá því í fyrra og tekið upp frádráttarkerfi í stíl við gildandi lög, þó með þeim hætti, eins og ég áður gat um, að ákveðinn staðlaður frádráttur er heimilaður.

Varðandi skattmeðferð barna er gert ráð fyrir því, að börn verði skattlögð sérstaklega af séraflafé. Þá hefur verið felld niður heimild til þess að arður af hlutafé barna verði frádráttarbær eins og gert var ráð fyrir í fyrra frv., en hins vegar er gert ráð fyrir því, að arður af hlutafé allt að 500 þús. kr. verði ekki skattlagður hjá hjónunum. Aftur á móti fær viðkomandi félag ekki frádrátt vegna þessa arðs nema að hálfu leyti. Ef arður er hærri en 500 þús. hjá hjónum, þá getur það orðið til þess að arður verði í einhverjum tilfellum tvískattaður.

Söluhagnaðarreglum er að mestu leyti haldið og litlar breytingar í þeim efnum.

Ákvæðum um heimildir samvinnufélaga til útborgunar til félagsaðila og til færslu í stofnsjóði er breytt frá frv. þannig að þau verða með svipuðum hætti og í gildandi lögum.

Eignarskattur lögaðila verður ekki frádráttarbær, enda hefur eignarskattshlutfall þessara aðila þegar verið lækkað og því ekki eðlilegt að eignarskattur lögaðila sé frádráttarbær, en eignarskattur einstaklinga ekki.

Þá hefur verið tekin upp sérstök heimild til niðurfærslu á útistandandi viðskiptaskuldum í atvinnurekstri að hámarki 5% af nafnverði þeirra. Þessi heimild hefur ekki verið fyrir hendi, en hins vegar hefur verið fyrir hendi heimild fyrir atvinnurekstur að draga frá allt að 30% af verðmæti vörubirgða. Það er oft nokkrum tilviljunum háð um hver áramót, hversu mikil verðmæti liggi annars vegar í vörubirgðum og hversu mikil verðmæti hinsvegar í útistandandi skuldum. Og útistandandi skuld um áramót, sem á að greiðast nokkrum mánuðum síðar, getur ekki verið nafnvirðis síns virði. Bæði er um vaxtatap að ræða og einnig er alltaf einhver hætta á því, að viðkomandi eignir tapist. Þess vegna tel ég að þessi heimild sé mjög eðlileg og sjálfsögð.

Ýmsar fleiri breytingar hafa verið gerðar frá fyrra frv., en ég sé ekki ástæðu til að rekja þær frekar.

Ég ætla að gera stutta grein fyrir þeim breytingum, sem gerðar voru á frv. þegar það var til meðferðar í Nd. Unnið var að málinu sameiginlega í báðum n. og þess vegna var nm. í Ed. kunnugt um þessar brtt. Mun ég því í stuttu máli gera grein fyrir þeim.

Í fyrsta lagi er gerð sú breyting á skattfrelsi íbúðarhúsnæðis, þ. e. brtt. nr. 3 á þskj. 764, að miðað verði við 600 m3 og 1200 m3 í staðinn fyrir 750 m3 og 1500 m3 áður.

5. brtt., sem gerð var í Nd., var þess efnis, að söluhagnaður af eignum, sem greiddur er með skuldabréfum, kæmi aðeins til skattlagningar miðað við greiðslu skuldabréfanna. T. d. ef söluhagnaður væri 50 millj. og hann lægi allur í skuldabréfum, þá yrði hann skattlagður á afborgunartíma skuldaviðurkenninganna, en þó ekki á lengri tíma en 7 árum.

6. brtt., sem gerð var í Nd., fjallar um að lífsábyrgð yrði áfram frádráttarbær.

8. brtt. gekk í þá átt að hækka fyrningarhlutfall af skipum úr 8% í 10% og af ýmsum eignum úr 15% í 18%. Þessi breyting var gerð með tilliti til þess, að menn töldu að hér væri um að ræða nokkuð raunhæfa viðmiðun varðandi endingartíma þessara eigna. En hitt er svo annað mál, að ógerlegt er að finna almenna skilgreiningu á endingartíma eigna og þess vegna yrði að taka upp mjög mörg fyrningarhlutföll ef vel ætti að vera. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að fyrningarhlutföll séu tiltölulega fá, og þess vegna verða slíkar afskriftir eða fyrningar að geta gilt almennt og eiga við í sem flestum tilfellum.

9. og 10. brtt. miðuðu að því að gera nokkrar lagfæringar á greinum um mótreikninga, en 11. og 12. brtt. miða að því að heimila sameignarfélögum að sameinast hlutafélögum án þess að til skattlagningar komi á varasjóð eða þá að heimila sameignarfélagi að breyta forminu yfir í hlutafélag. Hér er um mikilvægt ákvæði að ræða vegna þess að menn byrja oft rekstur sinn í formi sameignarfélags, en síðar, þegar fleiri koma til og menn vilja taka fleiri aðila inn í sinn rekstur, verður mjög erfitt að halda sameignarfélagsforminu. Með þessu er tekin upp heimild til þessara aðila að breyta félaginu í hlutafélag.

14. brtt., sem gerð var í Nd., var þess eðlis, að tekjuskattur lögaðila yrði 45%, en ekki 48%, sem var upphaflega prentvilla, eftir því sem mér skilst. 45% skattur samsvarar því, að svipuð breyting verði á félagaskatti og í hæsta þrepi þegar um einstaklinga er að ræða og miðað sé við staðgreiðslukerfi. Hér er um nokkra hækkun á félagaskatti að ræða sé tekið tillit til þess, að hér er miðað við staðgreiðslukerfi.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að gera grein fyrir þeim breytingum sem gerðar voru í Nd.

Þótt þessi löggjöf, sem væntanlega verður sett um tekjuskatt og eignarskatt, sé að mínum dómi mjög mikilvæg, þá má ekki gleyma því, að framkvæmd núgildandi laga og framkvæmd þessara laga er það sem skiptir meginmáli. Nokkrar breytingar eru gerðar á frv., sem geta orðið til þess að auðvelda framkvæmdaaðilum í skattamálum vinnu sína. Bæði er um að ræða aukna framtalsskyldu og það, að viðurlög verða þyngd við skattsvikum. Þessi viðurlög verða verulega þyngd, t. d. ákveðin há sektarmörk. En veigamesta stefnubreytingin í þessu efni er þó að heimilað er við ítrekuð brot eða fyrir miklar sakir að dæma auk sektar í varðhald eða fangelsi allt að 6 árum, eins og nú gildir um þjófnað, fjárdrátt og önnur auðgunarbrot samkv. almennum hegningarlögum.

Þá er gert ráð fyrir því, að ríkisskattanefnd verði breytt í þá veru, að þar starfi fast 3 menn sem hafi það sem aðalstarf eins og hver annar dómstóll að dæma í skattamálum. Núverandi skipan ríkisskattanefndar er í þá veru, að þar starfa 6 menn sem hafa það sem aukastarf. Ég tel að með þessu sé stefnt í rétta átt, en hins vegar vil ég láta í ljós nokkrar efasemdir um að það sé ávallt heppilegast, að þeir, sem starfa í ríkisskattanefnd, hafi það allir sem aðalstarf. Að mínum dómi er nauðsynlegt að þar séu menn, a. m. k. tveir, sem hafi það sem aðalstarf. Hins vegar held ég að til bóta sé að inn í störf nefndarinnar komi menn með víðtæka reynslu., sem starfa annars staðar í þjóðfélaginu, koma út úr hinu daglega lífi með oft og tíðum önnur sjónarmið en þeir sem starfa eingöngu að þessum málum, þannig að þeir geti haft nokkur áhrif þar á, ekki að þeir hafi alla tíð úrslitaáhrif, heldur verki þannig á nefndina að fleiri sjónarmið komist að. Þess vegna vil ég segja, að ég hefði talið að það hefði að sumu leyti verið betra að hafa eitthvað fjölmennari nefnd, en hluti af nm. skyldi starfa eingöngu við nefndina.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því, að komið verði á staðgreiðslukerfi skatta, og frv. þess efnis hefur verið lagt fyrir Alþ. Það frv. hefur enga meðferð hlotið í þinginu og var alveg ljóst að útilokað mundi vera að afgreiða það frv., vegna þess að það hafði ekki verið til umfjöllunar hjá þeim aðilum sem það kemur til með að snerta. Hér er um mjög veigamikla breytingu að ræða sem snertir hvern einasta einstakling í þjóðfélaginu og hvern einasta lögaðila og einnig þá sem starfa að innheimtu skattanna. Innheimtukerfið kemur til með að gjörbreytast og álagningin líka. Gert er ráð fyrir því, að hver einstaklingur þurfi að skila áætlun um tekjur sínar og einnig að lögaðilar, þ. e. a. s. fyrirtæki, þurfi að skila áætlun um sínar tekjur. Þessar breytingar eru það umfangsmiklar, að taka hlýtur alllangan tíma að undirbúa þær og kynna þær, ef vei á að takast til. Í mínum huga er ljóst að ekki er raunhæft að stefna að því að taka upp slíkt kerfi um næstu áramót, en þetta frv. heldur alveg gildi sínu þótt svo verði ekki, ef auðnast má að taka upp slíkt kerfi 1. jan. 1980. Hins vegar er ljóst að fara þarf mjög vel yfir það, á hvern hátt þessari staðgreiðslu skuli háttað, t. d. hvort tekin skuli upp staðgreiðsla á sköttum lögaðila. Ég hef ekki sannfæringu um það, að það sé rétt eða besta leiðin að taka upp staðgreiðslu hjá lögaðilum, en ég er þeirrar skoðunar, að eindregið skuli stefna að því varðandi einstaklinga. Um þessi atriði er þó í sjálfu sér ekkert hægt að fullyrða né mynda sér um þau fasta skoðun nema ræða þau mál við hina ýmsu aðila sem málið snertir. Það er mjög brýnt að koma á staðgreiðslukerfi hér á landi, m. a. vegna hagstjórnaráhrifa slíks kerfis, og hljóta allir að stefna að því, að slíkt: kerfi verið tekið upp sem fyrst. Aftur á móti mega menn ekki flýta sér það mikið, að það sé dæmt til að mistakast.

Ýmsar aðrar lagfæringar koma fram í þessu frv. og mun ég ekki ræða þær frekar. Hins vegar vildi ég að lokum fara nokkrum orðum um brtt. sem fram hafa komið frá hv. þm. Ragnari Arnalds á þskj. 871.

Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að fyrningarhlutföll breytist nokkuð. Hér er ekki um veigamiklar breytingar að ræða. Eins og ég sagði áður má ávallt um það deila, hversu langur endingartími eigna er. Þessar brtt. hafa ekki veruleg áhrif og eru þess vegna að mínum dómi minni háttar.

Það, sem hins vegar er mikilvægt, er 3. brtt., við 42. gr., að greinin falli niður. (Viðbótarfyrning á skattskyldum hluta söluhagnaðar.) Ef þessi skipan yrði tekin upp, þá mundi það verða til þess, að mönnum væri í mörgum tilfeilum ómögulegt að skipta um eign. Ef maður selur bát til þess að kaupa sér nýjan bát og stækka við sig, sem er alltaf þróunin, að menn stækka og ná sér í betri tæki, þá er um það að ræða að honum bæri að greiða skatt af söluhagnaðinum, hvort sem hann keypti sér nýjan bát í staðinn eða ekki. Þetta yrði til þess að stöðva þróun í sumum atvinnugreinum. Ég fæ ekki skilið hvaða markmiðum á að ná með svona ákvæði. Söluhagnaðurinn kemur til skattlagningar á þann hátt, að fyrningarnar lækka, en mundi hins vegar verka til þess, ef skattskyldan ætti að koma á strax, að þróun í ýmsum atvinnurekstri mundi jafnvel fara aftur á bak.

4., 5., 6. og 7. brtt. hv. þm., hafa veruleg áhrif. Hér er um það að ræða, að fluttar eru brtt., sem þá hafa í för með sér lækkun á skattlagningu sem nemur um það bil 13.5 milljörðum. (RA: Vill ræðumaður endurtaka.) Ræðumaður sagði, að brtt. þær, sem fluttar eru í 4., 5., 6. og 7. lið, væru þess eðlis, að um væri að ræða að lækka tekjuskatta í þjóðfélaginu um 13.5 milljarða. Ég vildi gjarnan upplýsa hv. þm. um þetta. Ég hef fengið þetta reiknað út gróflega — um einhverja skekkju getur verið að ræða en ég skal rekja það í nokkrum atriðum:

Að lækka skattstiga úr 18% í 15% kostar u. þ. b. 6 milljarða kr. Að lækka tekjuskatt úr 26% í 24% mun kosta u. þ. b. 1.6 milljarða kr. a. m. k. Að hækka skatt úr 34% í 38% mundi hafa í för með sér u. þ. b. 600-700 millj. kr. tekjuaukningu. Að hækka persónuafslátt úr 250 þús í 300 þús. þýðir 5.3 milljarða skattalækkun. Að hækka persónuafslátt 67 ára og eldri um helming þýðir u. þ. b. 500 millj. kr. skattalækkun. Að hækka barnabætur úr 65 þús. í 85 þús. og úr 100 í 120 þús. þýðir u. þ. b. 1.5 milljarð og að hækka skatt lögaðila úr 45% í 53% hefur í för með sér u. þ. b. 1/2 milljarð í hækkun. Nettóáhrifin eru þess vegna u. þ. b. 13.5 milljarðar. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að tekjuskattur sé 21 milljarður 565 millj. mínus barnabætur og endurgreiðslur á útsvari, þannig að nettótekjuskattur er 12 milljarðar 188 millj. Tekjuskattur félaga er einhvers staðar á milli 3 og 4 milljarða. Eftir stæðu þá nettó af tekjuskattinum u. þ. b. 15 milljarðar. Mér er ekki ljóst, hvernig hv. þm. gerir ráð fyrir því, að ná tekjum hér á móti eða lækka fjárveitingar til ýmissa verkefna í þjóðfélaginu, en ég vildi aðeins upplýsa það, því að nauðsynlegt er að menn geri sér grein fyrir áhrifum slíks.

Varðandi það að hækka persónuafslátt þeirra, sem eru 67 ára og eldri, sem hefur oft og tíðum verið vinsælt á Alþ., að koma á alls konar skattívilnunum fyrir fólk sem er orðið 67 ára og eldra, þá kemur þetta náttúrlega fyrst og fremst þeim til góða sem hafa tiltölulega hærri tekjur. Að mínum dómi væri nær að verja þeim fjármunum, sem þetta kostar, til þess að hækka tekjutryggingu og aðrar greiðslur til gamalmenna með litlar tekjur. Það var ívilnun í skattalögum fyrir nokkrum árum til handa þessum aðilum, sem var felld út úr lögunum og í þess stað var samsvarandi fjárhæð notuð til að hækka tekjutryggingu. Ég held að nauðsynlegt sé að gera sér grein fyrir því, að þótt fólk hafi náð ákveðnum aldri, þá er til fólk á þeim aldri í þjóðfélaginu sem hefur verulegar tekjur, t. d. úr lífeyrissjóðum. Og að mínum dómi er engin ástæða til þess að eyða fjármunum ríkisins til þess að bæta hag þessa fólks. Fremur ætti að eyða þeim til að bæta kjör þeirra sem verr eru staddir. Þess vegna er ég undrandi á því, að hv. þm. skuli leggja slíkt til.

Varðandi aðrar brtt. skal ég ekki fjölyrða að sinni. Það, sem sagt er í nál. með þessum brtt., er fyrst og fremst um fyrningarhlutföll og endurmat eigna. Ég hef skilið hv. þm. þannig að undanförnu, að hann telji mjög til bóta að taka upp endurmat. Hann hefur viðhaft þau orð, að það sé eitt hið besta í þessu frv. að taka upp endurmatið. Hann fullyrðir að í þessu séu alls konar ívilnunarreglur og samanlögð áhrif af öllum þessum smugum, eins og hann orðar það, hljóti að verða þau, að verulegur hluti atvinnurekstrar í landinu sleppi með að borga lítinn sem engan tekjuskatt. Ég held að þetta sé langt frá því að vera rétt.

Ég tel að með þessu frv. sé tekjuhugtakið verulega betur skilgreint en áður og muni hafa áhrif í réttlætisátt í miklum mæli. Og menn mættu einnig hafa í huga að það endurmat, sem hér á að eiga sér stað, mun hafa þau áhrif að eignarskattsstofn mun verulega hækka. Ekki hefur verið reiknað út hversu mikið eignarskattur mun hækka, en hins vegar er mér ljóst að það mun vera um allverulega hækkun á eignarskatti að ræða, þannig að þótt auknu endurmati fylgi nokkur réttindi fylgja því einnig verulegar kvaðir.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða meir um þetta mál, en vildi aðeins ítreka að meiri hl.n. leggur til að frv. verði samþykkt. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., en hv. þm. Ragnar Arnalds og Albert Guðmundsson munu skila séráliti.