05.05.1978
Sameinað þing: 74. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4452 í B-deild Alþingistíðinda. (3812)

68. mál, öryggisbúnaður smábáta

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil þakka yfirlýsingu hæstv. samgrh, þess efnis, að hann muni setja reglugerð um þetta efni, ef ég hef skilið hann rétt. Mér er um það kunnugt, að siglingamálastjóri fyrir hönd Siglingamálastofnunarinnar hefur tekið þátt í samstarfi um mótun reglugerðar fyrir skemmtibáta 12 m og styttri sem á að reyna að koma á samræmdri fyrir Norðurlöndin öll. Þetta starf er langt komið, og ég hygg að það sé sú reglugerð sem beinagrind liggur að í samgrn. Það er ekki nema gott um það að segja, að sú reglugerð verði sett. Þó er við það að athuga, eins og hér hefur raunar fram komið, að ákvæði eru ekki til í íslenskum lögum um neitt eftirlit með bátum 6 m og styttri, og ef skemmtibátar eða svokallaðir sportbátar, sem við köllum gjarnan í mæltu máli, eru af þeirri stærð eða minni, þá er óvíst að slík reglugerð næði til þeirra.

Nú er það svo, að miklu fleiri bátar eru í notkun hér á landi heldur en þessir svokölluðu sportbátar og eru framleiddir innanlands og það einmitt innan þeirra stærðarmarka sem hér er fjallað um eða styttri en 6 metra. Engar reglur hafa verið settar, hvorki um flothæfni þeirra, búnað á nokkurn hátt eða annað það er máli skiptir í sambandi við öryggi þessara tækja. Það eru þessir bátar, sem ekki eru notaðir alfarið sem skemmtibátar, heldur einnig sumpart í atvinnuskyni, sem allra mest nauðsyn er á að settar séu reglur um.

Ég kom nú upp í ræðustólinn m. a. til þess að greina frá því, að ég hef fengið í hendur það plagg sem Slysavarnaþing sendi hv. allshn. Sþ., og með leyfi forseta vil ég leyfa mér að lesa það hér. Það hljóðar svo:

„Aðalfundur Slysavarnafélags Íslands 1978, haldinn í Reykjavík 28.–30. apríl 1978, skorar eindregið á samgrh. að setja nú þegar reglugerð um öryggi smábáta, eins og fram kemur í þáltill. er nú liggur fyrir 99. löggjafarþingi, 68, mál, á meðan undirbúin er löggjöf samkv. brtt. allshn. Haft verði samráð við Slysavarnafélag Íslands, rannsóknarnefnd sjóslysa og Siglingamálastofnun ríkisins við samningu þessarar reglugerðar.“

Undirskriftir eru, að mér sýnist, á milli 140 og 150 þingfulltrúa og ætla ég að það sé Slysavarnaþingið allt. Ég vænti þess og hef ekki ástæðu til annars en að vænta þess, að hæstv. samgrh. setji þær reglur sem hér er um rætt og hann hefur a. m. k. tekið vel undir í ræðu sinni hér áðan, og það með svo skjótum hætti að þær verði tilbúnar innan fárra vikna eða áður en sá tími ársins er kominn sem slysahættan er mest af þessum bátum. Ég vænti þess einnig, að hæstv. ráðh. hafi ekki einvörðungu um slíkar reglur samráð við Siglingamálastofnun ríkisins, og felst í því engin gagnrýni á þá stofnun, heldur einnig og ekki síður hitt, sem fram kemur í bréfi Slysavarnaþings, að haft verði samráð við Slysavarnafélag Íslands og sjóslysanefnd. Þessir aðilar a. m. k. ráða yfir þekkingu og geta miðlað bæði gögnum og af sinni þekkingu sem verða má ákaflega mikilsverður stofn til slíkra reglna. Ég treysti því, að fram hjá þeim aðilum verði ekki gengið við setningu þeirra reglna sem hér er rætt um.

Að svo mæltu þakka ég undirtektir hæstv. ráðh, og treysti því, að það komist fram sem ætlast var til að kæmist fram með flutningi þessarar þáltill.