05.05.1978
Efri deild: 100. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4479 í B-deild Alþingistíðinda. (3860)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Við umr. hér á miðvikudag kom ýmislegt fram sem ég sé ástæðu til að fara nokkrum orðum um.

Í fyrsta lagi lýsti hv. þm. Ragnar Arnalds yfir undrun á því, að ég skyldi hafa leyft mér að slá lauslega á hugsanleg áhrif af brtt., sem hann hafði flutt, og koma með þær upplýsingar hér fram, en ekki í fjh.- og viðskn. Sannleikurinn er sá, að ég veit ekki betur en ég hafi reynt sem formaður n. að afla allra þeirra upplýsinga sem um hefur verið beðið. M. a. bað hv. þm. mig um að hlutast til um það, að reiknaður yrði skattur sem fólk 67 ára og eldra greiddi hér í landinu, og reyndi ég að verða við þeim óskum. Hann hafði hins vegar ekki óskað eftir því, að ég aflaði upplýsinga varðandi þessar brtt. hans, enda hafa þær sjálfsagt verið að mótast stuttu áður en umr. hófst, og það er náttúrlega erfitt út af fyrir sig fyrir flm. till. að gera sér fulla grein fyrir þeim hlutum á svo stuttum tíma sem hann hafði þar til umráða. Hins vegar er það svo, að ég vil gjarnan vita nokkurn veginn hvaða áhrif brtt., sem ég hef hugsað mér að greiða atkv. gegn, hafa, þótt vera megi að hv. þm. hafi getað hugsað sér að samþykkja þær án þess að vita um það. Sannleikurinn er sá, að m. a. hv. þm. Gylfi Þ. Gíslason flutti ýmsar brtt. í Nd. og var með ýmsar hugmyndir í þeim efnum og fékk áhrif þeirra reiknuð út. Hitt er svo annað mál, að nú liggja þessir útreikningar fyrir frá öðrum aðilum en frá mínum munni, og veit ég að hv. þm. hefur fengið þá í hendur. Þar kemur hins vegar fram, að það munar lítillega á þessum útreikningum og því sem ég gat hér um, og sýnist mér það vera um það bil 500 millj. eða að áhrif þessara brtt., sem ég gat hér um, séu 13.5 milljarðar á einstaklingum. Ég mun hafa talað um u. þ. b. 14 milljarða eða 14.2 milljarða, en síðan hækkun á félögum u. þ. b. 500 millj., þannig að heildaráhrifin séu um 13 milljarðar.

Hann gat þess við umr., að ég hefði gert mér far um að pilla út einn og einn lið, en ekki tekið önnur atriði sem ekki hefði verið síður þörf á að reikna, og þá átti hann sérstaklega við 9. brtt. um niðurfellingu á verðstuðulsfyrningu, flýtifyrningu og viðbótarfyrningu vegna skattskylds hluta söluhagnaðar. Ég geri mér fullkomlega ljóst að þessi breyting hefur sjálfsagt veruleg áhrif. Hins vegar er þessi brtt. nokkurs annars eðlis, því að hún gerir ráð fyrir að þessar fyrningar falli brott á einu ári. Það kemur ekki til með að gilda um nokkra framtíð, og þess vegna mun brtt. nr. 9 ekki hafa áhrif á þetta dæmi í heild sinni í framtíðinni. Hins vegar mun brtt. 9 hafa áhrif við álagningu á næsta ári, en þá verður væntanlega lagt á að mínum dómi eftir gildandi lögum og sú breyting mun því hafa áhrif á skattlagningu þess árs. Um hvað miklar upphæðir er þar að tefla höfum við ekki getað fengið upplýsingar.

Ég er því sammála, að verðstuðulsfyrningin er mjög gölluð fyrning, og hef oft lýst því yfir. Hins vegar gildir ekki sama varðandi flýtifyrninguna. Það eru viss rök fyrir flýtifyrningunni, þau rök einkum, að ekki er í gildi endurmat á eignum, og þess vegna þótti mönnum rétt að heimila hraðari fyrningu, m. a. með tilliti til þess, og þar að auki verðstuðulsfyrninguna. Ég get út af fyrir sig fallist á þau rök, sem liggja að baki flýtifyrningunni, og vil ekki fjölyrða fremur um það. Það er hins vegar rétt., að brtt. nr. 3, viðbótarfyrning á skattskyldum hluta söluhagnaðar, mun hafa nokkur áhrif, og hef ég ekki tölur á takteinum í þeim efnum. Hins vegar mun sú breyting ekki hafa áhrif til langs tíma, vegna þess að þessi fyrning kemur til frádráttar stofnverði eigna þegar söluhagnaður myndast og dregur úr seinni tíma fyrningum og sú fyrning veðrur reiknuð út með vísitölu. Hins vegar trúi ég því vart, að þegar til kastanna kæmi mundi hv. þm. standa að því að fella niður þessa fyrningu, og ég endurtek það, að hann er með því að leggja til að þróun í vissum atvinnugreinum stöðvist hreinlega, — eða hvernig hefur hann hugsað sér það, ef maður, sem á 60 tonna bát, ætlar að kaupa sér 100 tonna bát, — hvernig hefur hann hugsað sér, ef þetta ákvæði á að falla niður, að honum verði það almennt kleift, — eða þá aðili, sem vill flytja atvinnurekstur sinn t. d. frá Reykjavík austur á Selfoss eða norður í land, hvernig honum mundi verða kleift að gera það ef til skattlagningar á þessum söluhagnaði ætti að koma þá þegar, án tillits til þess, hvort hann ætlar að fjárfesta í nýjum hlutum? Þess vegna finnst mér þessi brtt. varla vera þess verð að ræða hana frekar.

Hv. þm. Albert Guðmundsson og hv þm. Jón G. Sólnes hafa gert að nokkru umtalsefni meðferð á sparifé og framtalsskyldu á sparifé. Ég tók eftir því, að hv. þm. Albert Guðmundsson sagði að hann og hv. þm. Ragnar Arnalds væru sammála um það, að frv. væri mjög gallað og slæmt frv., en hins vegar væru þeir ekki sammála um gallana. Ég hef nokkra tilhneigingu til þess að halda því fram, að þetta geti verið merki þess, að um nokkuð gott frv. sé að ræða, þar sem það fari e. t. v. meðalveg á milli þess, sem þeir telji vera mikla galla. En það er hins vegar rétt í sambandi við sparifé, og ætla ég nú að gera það að nokkru umtalsefni, að sparifé hefur ekki verið framtalsskylt undir vissum kringumstæðum hingað til og vextir af sparifé hafa undir vissum kringumstæðum ekki verið framtalsskyldir og ekki skattskyldir.

Í 7. gr. núgildandi laga kemur fram, að arður af hlutabréfum, skuldabréfum og öðrum innlendum og erlendum verðbréfum svo og vextir af sparisjóðsinnstæðum og útistandandi skuldir og öðrum arðberandi kröfum eru að stofni til skattskyldir. Hins vegar eru undanþegnir skattskyldu vextir af skattfrjálsum sparisjóðsinnlánum samkv. 21. gr. En þeir, sem eru undanþegnir framtalsskyldu og eignarskatti af innstæðum í bönkum og sparisjóðum, eru aðilar sem ekkert skulda, sem sagt, innstæður skattgreiðenda, sem ekkert skulda, og í öðru lagi innstæður manns, sem ekki skuldar meira fé en jafngildir hámarki lána Húsnæðismálastofnunar ríkisins til einstaklings um hver áramót, enda séu skuldir þessar fasteignaveðlán tekin til 10 ára eða lengri tíma og sannanlega notuð til að afla fasteigna eða endurbæta þær.

Það, sem breytist í þessu frv., er ekki skattskylda á vöxtum af sparifé. Sú skattskylda verður nokkurn veginn sú sama og áður hefur verið, þ. e. a. s. ef aðili skuldar ekkert, þá er ekki um skattskyldu að ræða. Hins vegar verður um framtalsskyldu að ræða, sem ekki var áður. Skuldi maður hins vegar umfram það sem hér greinir, þ. e. a. s. veðskuldabréf sem eru hærri en húsnæðismálastjórnarlán eða önnur fasteignaveðlán, tekin til 5 ára í stað 10 ára áður, þá getur orðið um skattskyldu af vöxtum að ræða. Og einnig verður sú breyting, að skattskyldir vextir geta aldrei numið meiru en upphæð vaxtanna sem frá eru dregnir, en það hefur ekki verið skýrt í gildandi lögum, þannig að sú breyting, sem hér verður, er ekki sú að auka skattskyldu á vöxtum frá því sem í gildi er, heldur er breytingin í þá átt að auka framtalsskyldu á sparifé.

Varðandi gengishagnað er sama regla í þessu frv., þ. e. a. s. að sé ekki um skuldavexti að ræða umfram það sem nemur vöxtum af húsnæðismálastjórnarlánum, þá verður gengishagnaður ekki skattskyldur. Hins vegar er það ekki skýrt í núgildandi lögum, hvort gengishagnaður fellur undir skilgreiningu laganna á skattfrelsi á vöxtum af sparifé. Sem sagt, þá er gengishagnaður lagður að jöfnu við vísitölubætur, vexti af vaxtaaukalánum og aðra slíka hluti, enda er eðlilegt að mínum dómi að leggja þetta að jöfnu, þótt ég viðurkenni að það geti skapað vissa erfiðleika.

Hv. þm. Jón Sólnes gat um það, að með því að loka sem mest fyrir upplýsingastreymi væri hægt að auka verulega sparnaðinn í landinu. Það má vel vera að svo sé. Mér er ljóst að það er ekki nægilega vel farið með upplýsingar um mál sem eiga að fara leynt. Hins vegar er það svo í mínum huga, að ef menn geta ekki talið fram þann sparnað, sem þeir hafa myndað, og greint frá honum á skattskýrslu, þá má spyrja sjálfan sig, hvort þ;að sé þá þess virði að halda uppi þjóðfélagi á þann hátt, að ekki sé hægt að greina frá slíku. Ég er þeirrar skoðunar, að framtalsskylda á sparifé sé nauðsynlegur þáttur í starfi þeirra aðila sem hafa með höndum eftirlit með framkvæmd skattamála og það sé mikið fyrir það gefandi að auðvelda starf þeirra sem mest, þannig að þeir geti haft sem best yfirlit yfir það, á hvern hátt fjármagn myndast. Hins vegar leggur það þær skyldur á þá aðila að fara sem best með þær upplýsingar og þær verði ekki birtar almenningi. Ég taldi nauðsynlegt að geta um þetta atriði, þannig að það væri skýrt í hugum manna að frv. gerir ekki ráð fyrir því að auka skattlagningu á vöxtum af sparifé. Í þeim efnum er frv. eins og gildandi lög.

Í framsöguræðu féll niður að fjalla um ákvæði 7. gr., en ég hafði getið þess í ræðu minni, að ég mundi gera það síðar, en síðan féll niður að ég gerði það, enda er það svo, að á þessum síðustu dögum er erfitt að koma þessum hlutum skilmerkilega til skila í þeirri tímapressu sem nú er hér ríkjandi. En í 7. gr. segir svo: „Vinni maður við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, skal hann telja sér til tekna“ og ég endurtek: „skal hann telja sér til tekna“ — það er sem sagt ætlast til þess að viðkomandi aðili geri það sjálfur, en ekki sé um áætlun skattstjóra að ræða — „eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hann hefði innt það af hendi fyrir óskyldan eða ótengdan aðila.“

Um þetta ákvæði er fjallað frekar í 59. gr. frv., en þar segir:

„Ríkisskattstjóri skal árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur við slíkar ákvarðanir,“ þ. e. a. s. skattstjórar skulu hafa viðmiðunarreglur til að miða við við endurskoðun framtala. „Skattstjóri ákvarðar síðan tekjur þessar með hliðsjón af viðmiðunarreglunum og skal þá gætt aðstöðu viðkomandi aðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfsins og annarra atriða er máli skipta.“

Í nál, sem meiri hl. fjh.- og viðskn. Nd. skilaði, kemur skýrt fram, að eftir þessu skuli farið, og ekki er talin hætta á að hér verði um misnotkun að ræða. Það, sem þetta ákvæði hefur fyrst og fremst sér til gildis, er það, að ekki verður heimilt að draga frá tekjum tap af atvinnustarfsemi. T. d. ef um er að ræða skipstjóra eða stýrimenn eða slíka aðila sem eiga bát og telja fram á sínu nafni, þá ber þeim að reikna sér sinn hlut samkv. reglum um hlutaskipti og verður ekki heimilt að draga frá tap af atvinnustarfsseminni.

Varðandi bændur, sem allmikið hefur verið rætt um, segir:

„Viðmiðunartekjur þeirra, er landbúnað stunda, skulu miðast við launaþátt í verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða, þó að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni, svo sem því ef bóndi nær ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis og annarra atriða er máli skipta að mati ríkisskattstjóra.“

Það er út af fyrir sig fróðlegt að íhuga hvernig þetta muni verka. Þær viðmiðunarreglur, sem nú gilda um þá sem stunda landbúnað, eru þær, að það er reiknað með því að tekjur bóndans og konu hans í verðlagsgrundvelli séu 2.373.900 kr. ef miðað er við árið 1977. Til þess að fella þessar tekjur inn í frv. þyrfti að hækka þær um 35%, en það er sú almenna viðmiðun sem frv. gerir ráð fyrir, og þá yrðu þessar tekjur 3.2 millj. Þetta eru sem sagt þær hæstu tekjur sem bónda yrðu væntanlega reiknaðar eða hann reiknaði sér sjálfur samkv. þessu frv. Hins vegar skal taka tillit til aðstæðna hverju sinni, svo sem þess að hann nái ekki heildartekjum grundvallarbúsins vegna afurðaverðs, árferðis og annarra atriða er máli skipta að mati ríkisskattstjóra. Og ríkisskattstjóra ber að sjálfsögðu að fara eftir þessum reglum og því sem stendur í 59. gr., þannig að í mörgum tilfellum yrði um mun lægri tekjur að ræða. En þetta eru sem sagt þær hæstu tekjur sem unnt væri að reikna samkv. þessu frv. Síðan þarf bóndinn að skipta þessum tekjum á milli sín og konu sinnar og miða þá við það hvernig vinnan skiptist milli þeirra. Ef reiknað er með að þessi vinna skiptist á svipaðan hátt og gert er ráð fyrir í verðlagsgrundvellinum, þá kæmu í hlut bóndans um það bil 2,5 millj. kr. og í hlut konunnar um það bil 700 þús.kr. Ef um þessa skiptingu yrði að ræða yrði skattur þeirra um það bil 60 þús kr. á ári, væri um barnlaus hjón að ræða, en lækkaði hins vegar sem barnabótum nemur sé um fjölskyldu að ræða. Ef hins vegar tekjur þessar skiptust að jöfnu yrði skatturinn einhvers staðar á milli 10 og 20 þús. kr., þannig að ég tel, að það sé ekki hægt að halda því fram með réttu að hér sé um íþyngingu að ræða. Ég leyfi mér að fullyrða að hér er um skattalækkun að ræða á þessu eins og á öðru lágtekjufólki, en bændur eru eins og allir vita, því miður, oft í hópi þeirra sem lægst launin hafa í þjóðfélaginu. Það er alls ekki hugmynd þessarar frvgr. og hugmyndin, sem að baki henni býr, að auka skattlagningu á þessu fólki, láglaunafólki sem einhvers konar atvinnurekstur stundar, heldur er hér fyrst og fremst um það að ræða að koma í veg fyrir að menn geti dregið tap í atvinnurekstri óendanlega frá launatekjum sem allir hljóta að þurfa að fá.

Ég vildi einnig víkja að því, sem hv. þm. Albert Guðmundsson sagði, að ég hefði talið að það þyrfti að gera ýmsar endurbætur á þessu frv. sem ég væri að leggja til að væri samþykkt. Ég held að það hafi ekki verið orð mín. Ég sagði að það þyrftu að fara fram margvíslegar athuganir til þess að gera sér betur grein fyrir ákvæðum sem eru á nokkrum stöðum í frv.

Það er alveg rétt sem hv. hv. þm. Jón Sólnes sagði áðan, að það er búið að leggja gífurlega vinnu í þetta frv., og ég er fullviss um það, að sú vinna, sem í þetta frv. hefur verið lögð og keypt, t. d. tölvuvinnsla, hlýtur að kosta mjög mikla fjármuni, og ekki vil ég deila á það. En ég vil aðeins undirstrika þetta sem hann sagði, vegna þess að það hefur verið lögð gífurleg vinna í þetta frv. og ýmsir embættismenn hafa lagt — ja, maður má næstum því segja: kannske að sumu leyti óeðlilega mikið á sig við vinnu í sambandi við þetta frv. Það hafa unnið við það mjög færir og duglegir menn sem hafa lagt sig mjög fram um að gera það sem best úr garði. Hins vegar er það svo á hverjum tíma, að það þarf að fara fram stöðug athugun á skattamálum og skattlagningu, og þess vegna hélt ég að mönnum þætti það út af fyrir sig ekkert óeðlilegt þó að það þyrftu að fara fram frekari athuganir á ýmsum ákvæðum þessa frv. áður en frv. tekur gildi.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að hafa þessi orð fleiri, en ég vænti þess, að hv. þm. Ragnar Arnalds hafi fengið þær upplýsingar sem hann þarf á að halda í sambandi við endurmat á sínum brtt. Hann getur þá annaðhvort dregið þær til baka eða lagt til að þær verði samþykktar með þeim áhrifum sem honum eru nú kunn.