06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4603 í B-deild Alþingistíðinda. (3934)

240. mál, heilbrigðisþjónusta

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Við afgreiðslu heilbr.- og trn. Ed. á frv. til l. um heilbrigðisþjónustu gerðum við breytingu á 14, gr. 10. Hún hljóðaði svo, eftir að við höfðum gert þá breytingu:

„Þrátt fyrir framangreinda skiptingu og þar til öðruvísi verður ákveðið, skal heilsugæslustöð í Stykkishólmi þjóna Flateyjarhreppi, heilsugæslustöð í Búðardal sjá um læknismóttöku á Reykhólum og heilsugæslustöð á Þórshöfn þjóna Skeggjastaðahreppi. Ráðh. getur í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir fellt niður einn eða fleiri af málsliðum þessarar greinar.“

Þegar farið var að huga að þessu í Nd. komust menn að þeirri niðurstöðu, að ekki væri eðlilegt að ráðh. gæti fellt niður ákvæði í lagagrein. Þeir fóru því höndum um greinina á ný og umbættu á þann veg, að nú hljóðar hún þannig:

„Þrátt fyrir framangreinda skiptingu og þar til öðruvísi verður ákveðið, skal heilsugæslustöð í Stykkishólmi þjóna Flateyjarhreppi, heilsugæslustöð í Búðardal, sjá um læknismóttöku á Reykhólum og heilsugæslustöð á Þórshöfn þjóna Skeggjastaðahreppi. Ráðh. getur í samráði við hlutaðeigandi sveitarstjórnir ákveðið breytingar á framkvæmd einstakra málsl. samkv. 2.–9. mgr. þessarar greinar.“

Heilbr.- og trn. hefur á fundi sínum í gærkvöld tekið þetta mál fyrir og leggur einróma til að frv. verði samþ. svo breytt.