06.05.1978
Efri deild: 103. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4627 í B-deild Alþingistíðinda. (3964)

309. mál, almannatryggingar

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Það voru aðeins tvö atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég vildi segja nokkur orð út af.

Varðandi endurskoðun á almannatryggingalögunum og endurskoðunarnefndina, þá vildi ég upplýsa það, að nefndin hefur ekki hætt störfum og hún er áfram að vinna að endurskoðun laganna. En ástæðan til þess að frv., sem hafa komið frá Alþ., hafa ekki ætíð farið beint til hennar, er sú að henni eru í sjálfu sér falin ákveðin verkefni af heilbrmrn. eða tryggingaráði á hverjum tíma, en ekki að hún taki til meðferðar hvert það mál sem upp kemur. Nú stendur fyrir dyrum að endurskoða kaflann um sjúkrahús og enn fremur verða þá tekin inn ýmis önnur almenn ákvæði sem beðið hafa.

Ég vildi líka segja frá því varðandi það atriði, sem hv. 7. landsk. þm. gerir brtt. við í 12. gr., að tryggingalæknirinn meti örorku þeirra sem sækja um örorkubætur, að það hefur nú þegar að nokkru leyti verið framkvæmt sem hann er að ræða um. Nýlega hefur starfskraftur verið ráðinn til þess að kynna sér félagslegar aðstæður þeirra sem sækja um örorkubætur, og á þann hátt er komið að einhverju leyti til móts við þetta atriði.

Annars vil ég segja það, að almannatryggingalöggjöfin er alltaf í endurskoðun og eins og komið hefur fram hér, þá eru hér tvö frv. sem ekki verða útrædd nú. Þess vegna vona ég að hv. þm. fallist á að við látum þau ákvæði, sem við höfum báðir áhuga á að komi fram, bíða núna, en þau verði tekin upp síðar.