14.11.1977
Neðri deild: 14. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 617 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

21. mál, kosningar til Alþingis

Tómas Árnason:

Hæstv. forseti. Þetta mál, sem hér er til umr., fjallar um breytingar á kosningalögum og miðar að því að gera kjósendum auðveldara að velja á milli frambjóðenda á listum. Ég á sæti í þeirri stjórnarskrárnefnd sem kosin var á Alþ. 1972 til þess að fjalla um endurskoðun á stjórnarskránni. Ég var skipaður í þessa nefnd í fyrra og hef setið þar nokkra fundi. Eins og komið hefur fram í umr. áður, hefur stjórnarskrárnefndin ekki tekið til meðferðar þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem fjalla um kjördæmaskipun og kosningatilhögun. Hins vegar hefur hún safnað saman margs konar gögnum sem að gagni koma við endurskoðun þessara mála, þ. á m. öllum samþykktum sem vitað er um að borist hafa frá mörgum aðilum. Á þeim fundum, sem ég hef setið, hafa verið rædd ýmis grundvallaratriði stjórnarskrárinnar, eins og t.d. eignarréttarákvæði, svo dæmi sé nefnt, en það er ljóst, ég hef a.m.k. ekki trú á því að það sé að vænta tillagna eða niðurstöðu af starfi stjórnarskrárnefndarinnar á næstunni. Það hafa ekki verið haldnir fundir í sumar og haust og ég hef ekki trú á því.

Í þessu sambandi vil ég gjarnan láta koma fram, að ég er eindregið fylgjandi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar. Ég held að það sé meira en tímabært að það fari fram heildarendurskoðun á stjórnarskránni, eins og raunar hefur verið fyrirhugað allt frá því að Ísland varð lýðveldi árið 1944, en þá voru þær einar breytingar gerðar á stjórnarskránni sem beinlínis voru nauðsynlegar til þess að svo gæti orðið. Aðrar breytingar voru ekki gerðar.

Mörg ákvæði stjórnarskrárinnar eru að stofni til yfir 100 ára gömul og þess vegna að sjálfsögðu ástæða til þess að endurskoða þau mörg, því margt hefur breyst í þjóðfélaginu á svo löngum tíma. Það eru mörg atriði sem sérstaklega er ástæða til þess að ræða og e.t.v. endurskoða og breyta. Það gæti komið til greina að endurskoða ákvæðin um embætti forseta Íslands. Ég var einu sinni, þegar ég var ungur, fylgjandi því að aðskilja framkvæmdavald og löggjafarvald á Íslandi. Það var á þeim árum þegar svokallað stjórnarskrárfélag var hér og hafði uppi ákveðnar till. þar að lútandi. Ég verð að viðurkenna að eftir því sem árin hafa liðið hef ég nú fallið frá þessum hugmyndum og er fylgjandi því, að hér verði áfram þingbundin stjórn og þingræði. Þá eru að sjálfsögðu ákvæðin um kjördæmaskipunina sem er stórt mál og stórpólitískt. Það gæti komið til greina að endurskoða ákvæði um þingrof. Það er ekki alveg sjálfsagt að þingrofsréttur sé gildandi í stjórnarskránni. Norðmenn hafa t.d. engan þingrofsrétt og það er ekki hægt að rjúfa þing í Noregi. Þar er kosið til 4 ára og án tillits til myndunar ríkisstj., og það er atriði sem gæti komið til íhugunar að endurskoða. Síðan eru mál, eins og deildaskipting Alþ., mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, ákvæðið um eignarrétt eða öllu heldur hver eigi að vera hin almennu takmörk eignarréttar, hvort eigi að taka upp í stjórnarskrána ákvæði þar um frekari en nú eru, og þjóðaratkvgr. Það eru margir fylgjandi því, að rétt væri að setja í stjórnarskrána sérstök ákvæði um þjóðaratkvgr. Ýmislegt fleira mætti nefna, en ég nefni þetta aðeins sem dæmi.

Það hefur verið rætt í þessum umr. talsvert mikið um vægi atkv. eftir kjördæmum og um jöfnun atkvæðisréttar. Fjöldi kjósenda að baki hvers kjördæmiskjörins þm. í kosningunum 1974 var fjórfaldur í Reykjaneskjördæmi og Reykjavík miðað við t.d. Vestfirði þar sem eru tiltölulega fæstir kjósendur á bak við hvern þm. Eftir að úthlutað hafði verið 11 uppbótarþingsætum hafði Reykjavík áfram fjórfalt fleiri kjósendur bak við hvern þm. en Vestfirðir, m.a. af því að Vestfirðir fengu í sinn hlut, ef svo mætti komast að orði, 2 uppbótarþingmenn, hins vegar um þrefalt fleiri en á Austfjörðum og Norðurlandi vestra, tæplega tvöfalt fleiri en Suðurland og litlu fleiri en Norðurland eystra. Á þessu hefur orðið nokkur röskun síðan, fyrst og fremst í þá átt að fjöldi kjósenda bak við hvern kjördæmiskosinn þm. í Reykjaneskjördæmi er nú um það bil 41/2 sinnum meiri en á Vestfjörðum samkvæmt kjörskrá 1976.

Það væri ástæða til þess að spyrja: Hvers vegna hefur þetta hlutfall verið að breytast? Hefur það verið að breytast vegna þess að Reykjavík og Reykjaneskjördæmi hafi haft tiltölulega fleiri þm. á bak við hvern kjósanda heldur en aðrir landshlutar? Hafa menn streymt til þessa svæðis vegna þess? Það liggur auðvitað í augum uppi að svo hefur ekki verið. Þetta hefur gerst þrátt fyrir það að Reykjavík og Reykjaneskjördæmi hafa haft miklu færri þm. hlutfallslega á þak við hvern kjósanda heldur en aðrir landshlutar. Röskunin hefur orðið gífurlega mikil á nokkrum áratugum.

Á fjórum áratugum, frá 1930–1970, fjölgaði Íslendingum um um það bil 95 þús. manns. Af þessari 95 þús. manna fjölgun settust 13 þús. að úti á landsbyggðinni utan við Reykjaneskjördæmi og Reykjavík, 82 þús. settust að á þessu svæði. Á tveimur áratugum, 1950–1970, fjölgaði þjóðinni um 66 þús. manns og aðeins 11 þús. settust að úti á landsbyggðinni utan Reykjaness og Reykjavíkur.

Það mætti kannske spyrja að því, hvort landkostir væru miklu betri hér í Reykjavík og hér í grenndinni heldur en annars staðar á landinu. Ég vil ekki gerast neinn dómari í því efni. Ég geri ráð fyrir að landkostir til borgarmyndunar séu betri að ýmsu leyti en annars staðar. En það hefur margt fleira komið til en það og kemur vissulega við stjórnarskránni og ákvæðum hennar og kem ég nánar að því.

Ég er ekki í nokkrum vafa um að ákvæði stjórnarskrárinnar á undanförnum áratugum hafa haft stórkostleg áhrif á þessa þróun, og það er kannske þess vegna sem ég er fylgjandi því, að stjórnarskráin sé endurskoðuð í heild, en ekki aðeins viss ákvæði hennar, þ.e.a.s. ákvæðin um kjördæmaskipun og kosningatilhögun. Það hefur verið ákveðið í stjórnarskránni að ríkisstj. skuli hafa aðsetur í Reykjavík, og nú er einnig svo ákveðið að forseti lýðveldisins skuli hafa aðsetur í Reykjavík eða nágrenni. Svo er og ákveðið í lögum að Hæstiréttur skuli hafa aðsetur í Reykjavík. Ég er ekki að gagnrýna þetta. Ég var aðeins að benda á þá staðreynd, að þetta er allt ákveðið í stjórnarskránni og þetta hefur haft mikil áhrif á vöxt þéttbýlissvæðisins hér á Suðvesturlandi — stórkostleg áhrif — og hefur óhjákvæmilega leitt af sér í framkvæmdinni margvísleg réttindi til þeirra sem búa nálægt valdinu. Það er óhjákvæmilegt, en það er eigi að síður staðreynd.

Vegna þess að mörg ákvæði stjórnarskrárinnar hafa haft áhrif á jafnrétti þegnanna í landinu verður að lita á ákvæði hennar í heild, eins og ég var að minnast á, en ekki taka út úr eitt afmarkað svið, þ.e.a.s. kjördæmaskipunina og kosningafyrirkomulagið. Þegar grundvallarlög eru sett verður að finna einhvers konar heildarjafnvægi til þess að tryggja sæmilegt jafnrétti þegnanna. Þessi búseturöskun hefur haft margvísleg áhríf á hag manna. Þeir, sem búa hér á höfuðborgarsvæðinu, hafa margvíslega aðstöðu umfram þá sem búa fjarri ríkisvaldinu, en hér í Reykjavík eru höfuðstöðvar þýðingarmikilla þjónustugreina ríkisvaldsins. Hér er heilsugæsla á öllum sviðum best í landinu. Hér eru menntunarmöguleikar langbestir á flestöllum sviðum. Hér eru atvinnutækifæri miklu fjölbreyttari en nokkurs staðar annars staðar. Hvergi er aðstaða til að njóta lista í öllum mögulegum myndum eins margvísleg og hér. En eins og ég sagði áðan, þá er ég í sjálfu sér ekki að gagnrýna þetta. Ég er að benda á þessar staðreyndir, og í þessu felst vissulega verulegur aðstöðumunur til handa þeim sem búa nálægt valdinu eða valdastöðvunum.

Það hefur þróast þannig um áratugi, vegna þess að Reykjavík er höfuðborg landsins, að ríkisvaldið hefur sett sig niður hér með starfsemi sína og út frá því höfuðstöðvar þjónustugreina og ýmiss konar starfsemi sem ríkið hefur á sínum snærum og hefur farið stórkostlega vaxandi á undanförnum árum. Og það er spurning að hve miklu leyti menn vilja bæta ofan á þennan aðstöðumun með því að fá tveimur kjördæmum í hendur — ég vil segja löggjafarvald þjóðarinnar. Einn hv. þm., Magnús Kjartansson, lagði til að jafnmargir kjósendur ættu að vera á bak við hvern þm. í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi og annars staðar í landinu, ef ég tók rétt eftir um daginn. Þetta mundi þýða það, að miðað við 60 þm. yrðu um 35 þm. héðan úr Reykjavík og Reykjanesi og 25 þm. annars staðar af landinu. Ég álít að þetta sé fjarstæða eins og málum er háttað og þegar ákvæði stjórnarskrárinnar eru skoðuð í heild — hrein fjarstæða — og ég held að fáum hafi dottið þetta í hug.

Ég viðurkenni að það er misræmi á milli kjördæma. Það er staðreynd, það er misræmi útí um landið miðað við Reykjaneskjördæmi og Reykjavík. Þó vil ég setja Stór-Reykjavík í sérflokk þar sem íbúarnir njóta nálægðar höfuðborgaraðstöðunnar sem er raunverulega ákveðin í stjórnarskránni sjálfri. (Gripið fram í.) Ég get tekið undir það sem kom fram hjá, ég held hv. þm. Magnúsi Kjartanssyni, að það verður ýmislegt til í þéttbýli og þróast ýmislegt í þéttbýli sem er gott að sjálfsögðu og ekki er mögulegt að þróa í strjálbýli. Það er alveg rétt. En ég held að það væri ekki sanngjarnt, þegar hugsað er um heildarhag borgaranna í landinu, að fá höfuðborgarsvæðinu jafnmarga þm. í hendur miðað við kjósendur sem á bak við búa ofan á þau ákvæði stjórnarskrárinnar að þar skuli vera aðsetur ríkisvaldsins og allt sem því fylgir. Ég held að það verði að reyna að skapa þarna jafnvægi á milli þannig að menn búi þegar allt kemur til alls við sæmilega jafnan kost, þegar allt er tekið með í reikninginn.

Þegar rætt er um kjördæmaskipun og stjórnarskrá, þá kemur til athugunar að gera greinarmun á því að setja kjördæmaskipun fyrir þjóð og setja kjördæmaskipun fyrir flokka. Það hefur verið svo á undanförnum árum við endurskoðun á stjórnarskránni, að ég held að seinna atriðið hafi verið miklu meira ríkjandi, þ.e.a.s. að setja og breyta kjördæmaskipuninni miðað við flokka heldur en miðað við þjóðina. Það kemur t.d. til greina að setja á einmenningskjördæmi í landinu, og það eru margir merkir menn sem hafa haldið því fram að það mundi leiða af sér heppilegt stjórnkerfi. Við vitum að í þeim löndum þar sem lýðræði er kannske hvað grónast, eins og t.d. í Bretlandi, búa menn við einmenningskjördæmi. En einmenningskjördæmin hafa þann kost — ég vil segja þann höfuðkost að þau eiginlega neyða þjóðina til þess að skipta sér í tvær meginfylkingar. Það er aðalkosturinn við einmenningskjördæmafyrirkomulag. Ég hef ekki trú á því að það sé hugsanlegt að ná samkomulagi um einmenningskjördæmafyrirkomulagið. En það hefur vissulega ýmsa kosti. Hlutfallskosningar eru í eðli sínu gagnstæðar að því leyti til, að þær ýta undir möguleikana á flokkafjölgun og eru að vissu leyti hættulegar að því leyti. Það er ekki gott fyrir þjóð að búa við mjög marga stjórnmálaflokka. Úr því verður glundroði og hefur sýnt sig að gefast illa sem stjórnarfyrirkomulag.

Ég vil í þessu sambandi aðeins minnast á þá möguleika, ef ekki yrði horfið að einmenningskjördæmum, sem ég hef enga trú á að verði, að minnka kjördæmin frá því sem nú er. Þau eru nokkuð stór, það finnum við sem erum þm, í stórum og viðlendum kjördæmum. Það er erfitt að vera þm. í þessum víðlendu kjördæmum þannig lagað að þingmaður geti kynnst högum manna nægilega náið. Það gegnir allt öðru máli í þéttbýli. Þar er aðstaðan allt önnur í þessu sambandi. Þess vegna álít ég að það gæti komið til greina að minnka kjördæmin frá því sem nú er. Í öðru lagi kæmi til greina að gera breytingar á uppbótarþingsætum. Það gæti komið til greina að afnema uppbótarþingsæti og skipa uppbótarþingsætunum í fjölmennu kjördæmin. Og ýmislegt fleira kemur til greina í þessu sambandi. Ég ræði þetta þó heldur lauslega nú, vegna þess að þetta eru hugleiðingar svona öðrum þræði utan dagskrár, því að það málefni, sem hér er beint til umr., það frv. fjallar ekki um þessi atriði sem ég hef komið inn á.

Ég vil þá minnast á það frv., sem hér liggur fyrir, og gera það að umræðuefni. Það gerir ráð fyrir því að svipta stjórnmálaflokka lagarétti til að raða upp lista, en í stað þess skuli raða nöfnum þeirra, sem flokkarnir tilnefna, í stafrófsröð á listana. Kjósendur raði svo frambjóðendum eftir því sem þeir kjósa. Það vakna náttúrlega margar spurningar upp í sambandi við þetta fyrirkomulag, t.d. hvað er líklegt að margir noti sér þann rétt að raða. Það hefur komið fram í umr., að reynsla er fyrir því, bæði hér og annars staðar, að menn nota sér yfirleitt ekki þennan rétt nema að takmörkuðu leyti. Það er því hætt við, ef þetta fyrirkomulag yrði innleitt, að það gæti leitt til þess að tiltölulega lítill minni hl. réði því hverjir væru kosnir þm.. við skulum segja 10–20% réðu því hverjir yrðu kosnir þm., auk þess að enginn vafi er á því, að ýmsir, sem mundu nota sér þennan rétt, mundu hreinlega raða mönnum í samræmi við stafrófsröð, a.m.k. að einhverju leyti. Það er líka reynsla fyrir því þar sem slíkt fyrirkomulag er notað. Og mér finnst það ótæk niðurstaða, að það hafi einhverja þýðingu í þessu efni hvað menn heita. Mér finnst það ótæk niðurstaða. Það er talað um stafrófsröð og ef það verður ofan á að samþykkja slíkt, sem ég hef enga trú á, þá þurfa menn að vera býsna framsýnir í sambandi við þingmennskuna. Það er ekki nóg að menn hugsi fyrir því sjálfir, heldur þarf næsta kynslóð á undan að vera með á nótunum og hugsa til nafngiftar eða hafa áhuga á því að eftirkomendur hafi verulega mikla möguleika á því að verða þm. Hvernig sem á það mál er lítið finnst mér fráleitt að hugsa til þess að raða á lista eftir stafrófsröð, það þurfi að vera það sem ræður kosningu hvað menn heita. Það verður að vera eitthvað meira á bak við uppstillingu heldur en hvað menn heita.

Það er ekki úr vegi að gera sér grein fyrir því, hvaða möguleika menn hafa í dag til að velja á milli frambjóðenda á listum, hví að það eru möguleikar til þess í lögum þó að það þurfi talsvert til. Samkv. kosningalögunum frá 1959 hafa flokkar rétt til þess að raða frambjóðendum á lista og bera þá fram og kjósendur geta svo breytt röð frambjóðenda. Eins og lögin eru í dag þurfa yfir 12% kjósenda hér í Reykjavík að hafa strikað yfir mann til þess að það geti haft áhrif á röðun listans. Í sex manna kjördæmum geta 23% breytt röð á lista og í fimm manna kjördæmum rúm 27%. En þessu var verulega breytt frá því sem var fyrir lögin frá 1959, en kjördæmin voru áður miklu minni. Ef reglan hefði verið tekin upp óbreytt í kosningalögin frá 1959 eins og hún var áður, þá hefði þurft um 4% kjósenda hér í Reykjavík til þess að breyta röð á lista og í sex manna kjördæmum hefði þurft um 71/2% og í fimm manna kjördæmum um 9%. Þegar þetta mál var til meðferðar hér í þinginu var, eins og raunar hefur komið fram áður í umr., mikið rætt um þetta atriði og þm. voru sammála um að það væri hætta á því, ef þessi ákvæði yrðu samþykkt óbreytt frá því sem var fyrir 1959, að mjög lítill minni hl. gæti raunverulega ákveðið um val þm. þvert ofan í vilja mikils meiri hl., eða 4% í Reykjavík, sem mundi þýða það að ekki þyrfti nema 200 manns til að breyta röð á lista sem fengi 5000 atkv. Þetta þótti mönnum 1959 vera of lítið eða vildu ekki ljá því fylgi. Þess vegna varð það ofan á, og ég hygg að menn hafi verið sammála um það, að breyta þessari reglu og setja upp þá reglu, að það þyrfti meira að koma til til þess að breyta röð á lista heldur en þetta. Því var sett sú regla sem nú gildir í kosningalögum.

Ég vil láta koma fram þá skoðun, að ég hygg að það hafi verið gengið fulllangt í hví að takmarka áhrif útstrikana í lögunum frá 1969 í minni kjördæmunum — það hafi verið gengið fulllangt í því. En ég dreg í efa að það væri skynsamlegt að minnka þetta mikið hér í Reykjavík, sem er miklu stærra kjördæmi, minnka þetta mikið niður fyrir það að 12% eða þar um bil gætu breytt röð á lista. Þó kæmi til greina að lækka þetta eitthvað. En ég tel fráleitt að gera svo mikla breytingu í þessum efnum að einungis 4% kjósenda gætu haft veruleg áhrif á röð á listum. Það er þess vegna hægt að gera kjósendum auðveldara um breytingar á röð frambjóðenda á listum heldur en nú er með því að hreyta þessum reglum í áttina til þess sem var áður en lögin frá 1959 voru samþykkt.

Það er í augnablikinu mikið í tísku að kalla það lýðræði að sem allra fæstir, vil ég segja, hefðu möguleika á að breyta röðun á frambjóðendum. Ég er ekki fyrir mína parta kominn til með að samþykkja að í þessu felist í raun og veru aukið lýðræði, vegna þess að ég vil a.m.k. skilgreina lýðræði sem bað stjórnarform að meiri hl. manna ráði ákvörðunum, það sé grundvallarregla að meiri hluti manna ráði ákvörðunum. Á þeirri meginreglu, ef menn vilja halda lýðræðinu, verða að byggjast reglur um kosningar. Það er hægt að komast næst hví að einstakir kjósendur hafi áhrif á það, hverjir eru kosnir þm., með því að taka upp einmenningskjördæmi. Þá er engin spurning um það, að menn eru að kjósa um einstaklingana. Og einmenningskjördæmin tryggja í rann og veru fulla persónukosningu hjá hverjum kjósanda. í öðru lagi er mögulegt að breyta núverandi reglum eins og ég sagði áður, þannig að röðun kjósandans hafi meiri áhrif en nú er, þar sem nú er aðeins tekið tillit að 1/3 hluta til þeirra breytinga sem gerðar eru á röð framþjóðenda. Þessu má að sjálfsögðu breyta. Síðan er hægt á ýmsan hátt að auka áhrif einstakra kjósenda á val þm. og það er auðvitað gert. Þ. á m. eru skoðanakannanir og prófkosningar í flokkunum. Það gæti komið til greina í þessu sambandi að setja löggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka, eins konar rammalöggjöf sem tryggi á einhvern hátt rétt kjósendanna, einstakra kjósenda, betur en nú er.

Nú er það svo, að gengið er frá listum, eins og allir vita aðallega með þrennum hætti. Í fyrsta lagi eru það fulltrúasamkomur sem gera það, í öðru lagi eru það prófkosningar sem ekki eru bindandi og í þriðja lagi er það prófkjör sem yfirleitt er talið vera bindandi í kosningum. Um fulltrúasamkomurnar er það að segja, að þær eru yfirleitt nefndar kjördæmisþing eða fulltrúaráð. Þessar samkomur eru oft býsna fjölmennar. Ég sat t.d. á fulltrúasamkomu fyrir nokkru í mínu kjördæmi. Þar sem voru milli 70 og 80 fulltrúar, og ég veit að margir þessara fulltrúa komu þannig til þings að þeir höfðu ákveðnar skoðanir á því, hvernig þeir vildu skipa framboðslista, sem voru byggðar á samþykktum sem gerðar voru í félögum, þannig að þessar samkomur byggjast náttúrlega á meira en þeim fulltrúum einum sem þar eru mættir. Þær byggjast auðvitað á hreyfingum, stjórnmálaflokkum, sem eru fjölmennir, og þar af leiðandi koma margir þarna til ákvörðunar. Og ég segi fyrir mína parta: ég er ekki kominn til með að samþykkja að það sé meira lýðræði fólgið í því að setja á prófkosningar eða prófkjör til þess að ákveða val á þm. Ég er ekki kominn til með að samþykkja það þegar allt kemur til alls.

En eins og ég sagði áður, þá getur það meira en komið til greina að setja rammalöggjöf um starfsemi stjórnmálaflokka. Svo er í öðrum löndum sumum, t.d. í Bandaríkjunum, þar eru ákveðin lagaákvæði um þessar svokölluðu prófkosningar sem þar fara fram, sérstök ákvæði sem um þær gilda. En ég held að það væri varhugavert að taka þann rétt af stjórnmálaflokkum, stórum hreyfingum sem eru raunverulega undirstaða þess að lýðræði geti þrifist, til þess að stilla upp frambjóðendunum. Það er álitamál hvort menn vilja lögleiða prófkosningar eða skoðanakannanir. Ég er fylgjandi því fyrir mitt leyti að slíkt eigi að vera á valdi flokkanna sjálfra, en ekki lögleitt. Hins vegar kemur til greina til þess að sætta sjónarmið í þessum efnum að setja rammalöggjöf um starfsemi stjórnmálaflokkanna og þ. á m. ákvæði um prófkosningar og prófkjör. Eitt er víst, að við prófkjör þarf að hafa strangar reglur. Annars er hætt við að prófkjör verði meira í orði en í verki. Það er t.d. alveg ljóst í sambandi við prófkjör sérstaklega í fjölmenni og e.t.v. alls staðar, að það er talsvert fyrirtæki fyrir einstaklinga að ganga til prófkjörs. Það er mikil keppni milli manna í þessu efni og það kemur sér vel að hafa fjármagn til þess að eyða í prófkosningar. Og það gæti svo farið, ef prófkosningar yrðu alfarið sú leið sem yrði notuð til þess að velja þm., að það hefði ekki litla þýðingu fyrir einstaklingana, sem vilja taka þátt í prófkjöri, að hafa yfir að ráða talsvert miklu fjármagni til þess að eyða í prófkosningar, til þess að auglýsa sjálfa síg, til þess að ráða menn til þess að vinna fyrir sig o.s.frv. Það er því ekki alveg víst, þegar málin eru skoðuð ofan í kjölinn, að prófkosning sem slík sé hið eina sanna lýðræði þegar til alls kemur og tryggi að bestu menn verði valdir til þingmennsku.

Ég er andvígur því frv. sem hér er til umr. Ég tel það ekki skynsamlega leið að raða mönnum upp eftir stafrófsröð í sambandi við val þeirra til þingmennsku. Ég álít að það sé miklu virkara lýðræði, að það eigi að vera meira á bak við frambjóðendur en nafnið eitt, og vil leggja á það áherslu að fulltrúasamkomur stjórnmálaflokka, þjóðmálaflokka sem eru venjulega fjölmennar fylkingar í þjóðfélaginu, eru vissulega þess eðlis að engin ástæða er til að dæma þær úr leik — engin ástæða til þess. Ég held að það sé t.d. dálítið varhugavert, ef á að fara að taka upp það fyrirkomulag í landinu að halda opnar prófkosningar sem eru þannig að aðrir stjórnmálaflokkar geta tekið þátt í þeim, menn geta kosið í prófkjöri ákveðins stjórnmálaflokks, en jafnhliða lýst því yfir að þeir styðji annan stjórnmálaflokk og muni kjósa hann í kosningunum. Ég held, að þetta sé dálítið varhugavert, og álít, að það væri skynsamlegra að binda prófkjör einstakra stjórnmálaflokka við þá sem fylgja flokkunum, annað hvort lýsa yfir að þeir fylgi flokkunum eða eru raunverulega í flokkunum, þó að ég segi ekki að það geti komið fyrir að menn skipti um skoðun á milli prófkjörs og kosninga. Það er ekki nema mannlegt. En aðalreglan tel ég að verði að vera sú, að eingöngu flokksmenn eða þeir, sem styðja viðkomandi flokk, taki þátt í prófkosningum.

Ég held að menn verði að gera sér grein fyrir því í þessu sambandi, að lýðræðið getur í raun og veru ekki þrifist án stjórnmálaflokka til lengdar. Það er útilokað, enda engin dæmi þess neins staðar í heiminum, ekki í einu einasta landi, að lýðræði hafi þrifist til lengdar án - ég vil segja: skipulagðra stjórnmálaflokka. Þetta er í sjálfu sér mjög auðskilið mál. vegna þess að lýðræðið byggist á meirihlutavaldi, og til þess að skapa meirihluta þurfa menn að þjappa sér saman, og menn þjappa sér auðvitað saman í stjórnmálaflokka, þeir sem hafa skyldastar skoðanir, til þess að skapa meiri hluta. Einræðisríkin aftur á móti hafa einn flokk og byggja á því. Bæði kommúnistaríkin og fasistaríkin hafa einn flokk, en það er allt önnur saga sem ekki er verið að ræða hér. En ég held að íslendingar geti ekki hugsað sér það fyrirkomulag að byggja á eins flokks kerfi.

Ég hef orðið var við að menn ræða um það, að það sé hálfgamaldags að leggja áherslu á þýðingu stjórnmálaflokka. Það kann að vera að þessari skoðun vaxi fylgi eftir því sem velferðin verður meiri í þjóðfélaginu. Það er að minni hyggju rétt, að það er kannske minni munur á flokkum nú t.d. hér á landi en var fyrir einum 40–50 árum vegna þess að búið er að lögfesta mikið af þeim málum sem þá voru misklíðarefni og eru ekki lengur deiluefni í þjóðfélaginu. En eigi að síður er ég þeirrar skoðunar, að það þýði ekki það, að þýðing stjórnmálaflokka í sjálfu sér sé ekki til í þjóðfélaginu ef menn vilja búa við lýðræðisfyrirkomulag. Og ef menn eru á þeirri skoðun að vilja minnka þýðingu stjórnmálaflokka, að ég nú ekki tali um að leysa upp stjórnmálaflokka, þá álít ég að lýðræði muni ekki lifa lengi í landinu.

Varðandi stjórnarskrána og endurskoðun á henni held ég að menn eigi að flýta sér hægt. Það kann að vera að mál gangi ekki nógu hratt fram í stjórnarskrárnefndinni. Ég held að það hafi verið starfandi að nafninu til stjórnarskrárnefnd líklega í ein 30 ár, ef ég man rétt, og menn hafa verið í þeim nefndum og menn hafa sagt sig úr þeim sumir. Þeir eru búnir að vera lengi í þeim og ekkert hefur skeð. En ég held að það sé engin ástæða til þess að menn séu að blekkja hver annan í þessum efnum. Endurskoðun stjórnarskrárinnar verður ekki tekin fyrir af alvöru fyrr en flokkarnir ganga í málið. Það er ljóst. Og flokkarnir verða að ganga í það mál af fullri alvöru til þess að eitthvað gerist. Ég fyrir mitt leyti er fylgjandi heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, ekki í neinu snarhasti, en að það verði gengið af alvöru til þess verks. Ég tel það nauðsynlegt í stað þess að ganga til breytinga á stjórnarskránni í einstökum atriðum.

Inn í þetta mál allt saman — ekki aðeins það sem snertir þetta frv., heldur þetta mál allt saman — kemur mjög sú búseturöskun sem orðið hefur í landinn á undanförnum áratugum og hefur valdið miklu í ýmsum efnum, miklu tjóni að mínum dómi. Það hefur verið snúist gegn þessari þróun af verulegum krafti á undanförnum árum. Ríkisstj. Ólafs Jóhannessonar, sem hóf störf 1971, snerist gegn þessu máli, stofnaði sérstakan sjóð, Byggðasjóð, til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, til þess að vinna gegn áframhaldandi byggðaröskun í landinu, og það var vitanlega vegna þeirrar stórkostlegu byggðaröskunar sem orðið hafði á undanförnum áratugum. Þetta starf var nokkuð öflugt og því hefur verið haldið áfram og það hefur haft mikil áhrif, þannig að á árin 1974 urðu þau sögulegu umskipti, að fjölgun landsmanna varð tiltölulega meiri utan Reykjavíkur og Reykjaness heldur en þar. Ég ætla nú að vonast til að það verði samstaða um það á Alþ. áfram að reyna að tryggja að þessi búseturöskun, sem svo miklu hefur raskað í okkar þjóðfélagi á undanförnum áratugum, heyri til sögunni og það verði lagt fram nauðsynlegt fjármagn til að treysta búsetuna í öllu landinu. Þá kemur ekki til sú stórkostlega búseturöskun sem leiðir það af sér að menn þurfa sífellt að gjörbreyta stjórnarskránni vegna þess að þjóðfélagið er að umbyltast á örskömmum tíma. En ég vil gjarnan taka undir það, sem komið hefur fram hjá ýmsum, að það er eitt af þeim atriðum sem þarf að huga að við endurskoðun á stjórnarskránni, að hve miklu leyti á að festa fjölda þm. í kjördæmum í stjórnarskránni sjálfri eða að hve miklu leyti á að taka upp svipað fyrirkomulag og er í Danmörku, þar sem þetta er endurskoðað með tilliti til breyttrar búsetu í hinum ýmsu kjördæmum á, að ég held, 10 ára fresti. Þetta er eitt af þeim atriðum sem kemur til greina að endurskoða í sambandi við stjórnarskrána.

Ég vil að lokum endurtaka það, að ég er andvígur frv. sem hér liggur fyrir, álít, að það eigi að fella það, og vonast til, að það verði fellt, því að mér finnst ekki að það réttlæti það að verða samþykkt. Ég ítreka enn fremur að nauðsyn er að endurskoða stjórnarskrána í heild í þetta sinn í staðinn fyrir að taka einstök ákvæði hennar fyrir til endurskoðunar, ákvæði eins og kjördæmaskipun og kosningafyrirkomulag.