17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

Umræður utan dagskrár

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þessar umr. Mér virðast ummæli hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. í þessum umr. mjög hafa fallið á þann veg, að þeir teldu fyrst og fremst fram tormerki á því að gera það, sem við ýmsir höfum bent á að mætti e.t.v. verða til þess að leysa deiluna, og að málflutningur þeirra sé á þann veg, að það virtist ekki líklegt að þeir væru á samningabuxunum, því miður.

Ég tel einnig fráleitt að á þessu stigi sé farið að gera aðalatriði úr því varðandi þessa vinnudeilu, hvernig tekist hefur til með að framfylgja verkfallinu í einstökum greinum, því að við vitum öll að það hefur aldrei átt sér stað verkfall á Íslandi, að ekki hafi verið meira og minna haldið fram að þar hafi lög og reglur verið brotin. Og ég satt að segja býst ekki við því, að menn hafi reiknað með, þegar lögin um verkfall opinberra starfsmanna voru sett, að verkfall samkv. þeim yrði háð þannig að þar yrði ekki einhver ágreiningur um framkvæmdina. Að mínu mati er það, sem þarna hefur komið fyrir og hvort einstakir aðilar hafi farið eitthvað út fyrir réttan lagaramma eða ekki, hreint aukaatriði í þessu máli. Það er kannske minna, sem gert hefur verið í þeim efnum, en búast mátti við. Hitt er vitanlega aðalatriði, hvernig á að reyna að standa að því að finna lausn á deilunni. Það er aðalatriðið.

Ég skildi orð hæstv. forsrh. þannig, að hann hefði skilið ummæli okkar úr stjórnarandstöðunni á þann veg, að það, sem við hefðum sagt hér, þýddi að við vildum í rauninni veita opinberum starfsmönnum meiri kjarabætur en öðrum starfsstéttum í landinu. Hafi ég skilið þessi ummæli hæstv. forsrh. rétt, þá vil ég mótmæla þessu. Ekkert í okkar máli fór á þessa leið. Við tókum þvert á móti fram, að við ætluðum ekki hér að ræða um einstök atriði þessarar samningagerðar, eins og launastiga og annað þess háttar, við teldum að það væri ekki hér til umr., en bentum hins vegar á það, að við teldum að nokkur atriði varðandi framkvæmd samningaviðræðna hefðu ekki verið á þá lund sem við teldum vera rétt. Og við minntumst á hvað það væri.

Það efnisatriði, sem ég m.a. dró hér fram að ég teldi að ætti að vera á annan veg en fram hafði komið hjá ríkisstj., var um rétt þann sem opinberir starfsmenn skyldu hafa ef vísitöluákvæðum samninganna yrði breytt með lögum. Mér sýnist að af hálfu ríkisstj. gæti einkennilegs þráa í málflutningi varðandi þetta atriði, og mér finnst að það viti á illt. Menn eru hér að blanda saman óskyldum atriðum alveg augljóslega, eins og ég sagði í upphafi míns máls.

Það er rétt, að það voru uppi kröfur um það á sínum tíma af hálfu opinberra starfsmanna, að þeir hefðu á þessu tveggja ára samningstímabili þann rétt að heimta endurskoðun á gerðum samningi til samanburðar við það sem aðrar launastéttir kynnu að hafa fengið á samningstímanum. Um þetta snerust umr. varðandi endurskoðunarrétt á sínum tíma. Það er ekki verið að heimta að fá þessu breytt nú, heldur hitt, sem allir sjá að er augljóst mál, þegar aðilar eiga að semja um launakjör til tveggja ára þar sem einn stór liður í launakjaraákvæðum er verðtryggingarákvæði, að verði verðtryggingarákvæðunum breytt með lögum, þá sé réttur til fullkominnar samningaaðstöðu tekinn upp á nýjan leik. Þetta er vitanlega allt annað atriði en það sem rætt var um á sínum tíma varðandi endurskoðunarmálið. Ég held að það sé svo augljóst mál, að það beri að veita opinberum starfsmönnum þennan rétt eins og aðrir launþegar hafa, að það eigi ekki að þurfa að vera deilur um þetta atriði í langan tíma.

Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið. Ég tel fánýtt í þessari stöðu málsins að fara að ræða hér um einstaka framkvæmdaliði eða einstök framkvæmdaratriði verkfallsins. Það er alveg fráleitt. Það liggur ekki heldur fyrir nú að hefja hér umr. um það, hvort opinberir starfsmenn eigi að hafa verkfallsrétt eða ekki og hvort það hafi verið hyggilegt að veita þeim verkfallsrétt. Nú snýst málið að sjálfsögðu um að leysa deiluna. Ég held að það sé mikil skammsýni að búast við því, að þessi deila verði leyst nú á næstunni, ef ríkisstj. beitir sér gegn þessu mikilvæga atriði, sem veitir opinberum starfsmönnum ákveðið öryggi varðandi hin umsömdu laun verði verðtryggingarákvæðum breytt með lögum, ef hún bítur sig í það, að þar eigi engu um að þoka. Ef hún gerir það, þá kallar hún eflaust yfir sig og þjóðina alla langt verkfall. Ég held því, að það væri skynsamlegast í þessari stöðu að segja a.m.k. ekki meira en búið er að segja af hálfu stjórnvalda um þessi atriði og snúa sér að því af einlægni að reyna að finna lausn á deilunni. Ég trúi því fyrir mitt leyti, að það eigi að vera hægt að leysa þessa deilu og það tiltölulega fljótlega og að í rauninni beri ekki svo mikið á milli aðila að það sé í rauninni afsakanlegt að halda þarna uppi langri vinnudeilu, nema þá menn vilji fara að taka upp allt málið aftur, eins og mér heyrist á vissum aðilum, draga í land og segja að þessir opinberu starfsmenn hafi ekkert við verkfallsrétt að gera því þeir setji þá hér allt á hausinn, taki jafnvel lögregluvaldið svo í sínar hendur að við liggi eiginlega byltingu.

Ég held að þannig sé þessu ekki varið. Ég held að það hafi ekkert komið fram sem réttlætir að halda því fram, að opinberir starfsmenn fari öðruvísi með sinn verkfallsrétt en aðrir. Það er alveg rétt, að þeirra verkfallsréttur er takmarkaður. En hann er takmarkaður t.d. með valdi kjaradeilunefndar og ýmsum öðrum ákvæðum í lögunum, en ekki með þvf, að það megi ekki setja inn öryggisákvæði í sambandi við það ef verðtryggingarreglum samkv. samningum er breytt. En um hitt er auðvitað ekki deilt, að verkfallsréttur opinberra starfsmanna samkv. þessum lögum er í allt öðru formi en hjá ýmsum öðrum launastéttum í landinu og miklu takmarkaðri.

Ég endurtek svo það sem ég hef sagt áður, að ég skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því og hafa frumkvæði um það, að teknar verði upp viðræður um að leysa deiluna. Það er ábyggilega hægt ef einhver vilji er þar á bak við af hálfu ríkisstj.