16.11.1977
Neðri deild: 15. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

28. mál, útvarpslög

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til umr., um breytingu á útvarpslögum er sennilega hægt að flokka undir það sem kalla mætti frjálshyggjufrv., en stöku menn hafa þann orðalepp mjög uppi við nú um sinn. Hv. flm. gerði sér mjög tíðrætt um málefni Svía og hvernig Svíar væru að haga málum, En þetta frv. er náttúrlega flutt og á við íslenskar aðstæður, en ekki aðstæður í Svíþjóð, því að ekki er alveg vist að það, sem á við hjá Svíum, eigi við hjá okkur, m.a. vegna þess að við erum ekki nema rúmlega 200 þús. manns.

Ég lít svo á að það sé meira atriði að reyna að halda uppi einni góðri útvarpsstöð en mörgum lélegum. Ríkisútvarp okkar hefur barist í bökkum fjárhagslega, svo sem hæstv, menntmrh. hefur margtekið fram hér í þingsölum, og ég hef enga trú á því, að þetta útvarp, sem ég held að miðað við aðstæður verði að telja allgott, mundi batna neitt við það að dreifa kröftunum. Dreifikerfi hljóðvarps er ekki fullkomið enn þá, hvað þá dreifikerfi sjónvarpsins, og þarf þar mikilla endurbóta við. Í fyrra lagði ég til að reynt yrði að gæta sparnaðar hjá þessum stofnunum, m.a. til þess að byggja upp dreifikerfið, en sú viðleitni mín bar ekki árangur.

Ég lít svo á að tekjur þessara væntanlegu útvarpsstöðva, sem hugsanlega yrðu settar hér á fót, yrðu auglýsingatekjur, og þeir auglýsendur, sem þar auglýstu, yfirgæfu þá væntanlega Ríkisútvarpið. Þessir auglýsendur hefðu þá í hendi sér líf þessara útvarpsstöðva, og hljóðvarp og sjónvarp eru í eðli sínu mjög máttugur fjölmiðill. Ég tel nokkra hættu á því, að peningafurstar næðu tökum á þessari starfsemi og réðu dagskrá í veigamiklum atriðum og stjórnmálaskoðanir yrðu ekki jafnréttháar. Þetta gæti leitt til einstefnuaksturs stjórnmálaskoðana þeirra sem fjármagninu réðu.

Þróun dagblaðaútgáfu á Íslandi gætt gefið vissa vísbendingu um hvert þessi frjálsa samkeppni getur hugsanlega leitt okkur. Síðdegisblaðaútgáfa, sem færst hefur hér mjög í vöxt á síðustu úrum, hefur ekki orðið til þess að blaðamennsku„standardinn“ hafi hækkað við fjölgun þeirra eða eflingu. Ég lít svo á að blaðaútgáfan hafi ekki batnað með auknum áhrifum þeirra viðskiptahölda, sem bera uppi með auglýsingum sínum þessa fjölmiðla, — fjölmiðla sem þeir láta vernda hagsmuni fyrirtækja sinna, og í krafti fjárhagsaðstöðu sinnar öðlast þeir óeðlileg áhrif á skoðanamyndun í landinu.

Þá getur svokölluð frjáls samkeppni í fjölmiðlum haft þau áhrif að æsifréttir og ógætilegt slúður og jafnvel bein ósannindi vaði uppi. Í grg. þessa frv. segir að vísu að áhersla skuli lögð á að fyllsta hlutleysis sé gætt í stjórnmálum við útsendingu efnis, með svipuðum hætti og nú tíðkast í útsendingum Ríkisútvarpsins. En ég lít svo á að mjög erfitt sé að tryggja það, það sé ákaflega vandmeðfarið. Það er afar vandmeðfarið hjá þeirri stofnun, sem nú er þó ein um þennan þátt fjölmiðlunar, og ég lit svo á að nánast sé ógerningur að tryggja þetta með viðunandi hætti eftir að stöðvum þessum fjölgaði.

Síðan segir seinna í grg., með leyfi forseta: „Útvarpsstöðvar skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þær skulu virða tjáningarfrelsi og gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum. Hið sama gildir gagnvart stofnunum, félögum og einstaklingum.“

Ég fæ ekki séð með hvaða hætti ætti að vera unnt að tryggja þetta nægilega.

Þá segir í niðurlagi grg., að þetta sé spor í áttina að auknu frelsi fólksins frá miðstýringarvaldi embættis- og stjórnmálamanna á þessu sviði. Þessa málsgr, skil ég ekki fullkomlega. Mér dettur helst í hug að þetta sé sneið ætluð fyrrv. formanni Heimdallar, varaformanni útvarpsráðs, hv. þm. Ellert B. Schram, en mér finnst að hún sé fremur ómakleg.

Ég sé ekki ástæðu til að styðja þetta frv. Okkur liggur meira á ýmsu öðru en fleiri útvarpsstöðvum.