13.12.1977
Sameinað þing: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1178 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

1. mál, fjárlög 1978

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mig langaði til að segja hér örfá orð, ekki síst til að taka undir ummæli hv. 4. landsk. þm, um Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra. Hér hafa farið fram nokkrar umr. um endurhæfingarmál og þar sem ég veit að heilbrigðismál eru enn þá ekki fullafgreidd hjá hv. fjvn. langaði mig aðeins til að leggja orð í belg.

Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra hefur varðandi endurhæfingu unnið mjög mikilvægt starf í þessu þjóðfélagi um meira en tvo áratugi. Það hefur jafnan búið við frekar frumstæðar aðstæður, en fékk snemma tekjustofn til sinna þarfa. Þó var það svo, að þótt sá tekjustofn væri í upphafi fyrst og fremst ætlaður til að byggja upp stofnun þess félagsskapar reyndust stjórnvöld jafnan leggja svo lítið af mörkum til rekstrar stofnunarinnar að nota varð féð, sem inn kom frá eldspýtnapeningunum, til þess að reka þá starfsemi sem þeir voru með, í staðinn fyrir að ætlunin hafði verið að þeir byggðu upp sín hús og öfluðu áhalda fyrir þetta fé. En þeir hafa lengi rekið stærstu endurhæfingarstöð í þessu landi sem er rekin utan sjúkrahúsa. Þetta er mjög mikilvægt verkefni. Þegar við höfum það í huga að endurhæfing er ekki venjuleg heilbrigðisaðgerð, heldur ekki síður kannske félagsleg meðferð, efnahagsleg og fjárhagsleg meðferð einnig, þá verðum við að gera okkur það ljóst að þessi starfsemi hefur gífurlega þýðingu fyrir þjóðfélagið. Hún hefur svo mikla þýðingu, að undir endurhæfingu er það komið, hve margir vinnufærir einstaklingar eru til í landinu, því að ef þau mál eru í góðu horfi, þá eru þeir fleiri en ella. Takmark endurhæfingarinnar er sem sagt ýmist að breyta óvinnufæru fólki í vinnufært fólk eða að breyta fólki, sem er ekki sjálfbjarga, í sjálfbjarga fólk. Hvort tveggja stuðlar að því að gera styrkþega að skattþegnum eða að spara vinnuafl, eins og gerist þegar sjúkur maður og ósjálfbjarga verður sjálfbjarga á ný.

Þótt fyrst og fremst sé rætt í kvöld um mikilvæg efnahagsmál og fjármál, þá er þetta mál ekki eins fjarri slíku og maður skyldi halda. Og í sjálfu sér er þetta líka orkumál, því að öll endurhæfing byggist á því að skapa orku hjá einstaklingum. Þegar fjöldi er endurhæfður verður um raunverulega og mikla orkuöflun að ræða. Og þó við tökum aðeins þann slysafaraldur, sem við búum við síðustu vikurnar og mánuðina, þá er augljóst að fjöldi einstaklinga þarf á hverju ári að njóta meðferðar og hjálpar hjá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra aðeins vegna afleiðinga slysa.

Ef okkar endurhæfingarmál væru í enn þá betra lagi en þau eru í dag, þá gætum við t.d. búist við því að við þyrftum ekki að flytja inn kvenfólk frá Ástralíu eða Nýja-Sjálandi til þess að vinna í frystihúsum okkar. Á þennan hátt má færa sönnur á það, að hér er um mikilvægt þjóðhagslegt efnahagsmál að ræða. En því minnist ég á þetta hér, að ég hef oft hugsað um það, hvað mér finnst starfsemi félaga vera vanmetin í þessu landi. Og þetta byggist ekki á því hvaða ríkisstj. situr við völd, þetta er almennt. Öllum stjórnvöldum virðist finnast sjálfsagt að þessar félagastofnanir þurfi miklu minna fjármagn til sinnar starfsemi heldur en ef um ríkisfyrirtæki eða bæjarfyrirtæki væri að ræða. Og þetta er það sem Styrktarfélagið hefur átt við að búa í fjöldamörg ár. Ég held að það liggi við borð nú á næstunni, að það sé að gefast upp, og þá mun það koma í ljós, þegar opinberir aðilar fara að reka þessa starfsemi, að hún verður jafndýr og önnur sambærileg starfsemi sem rekin er í landinu af bæjarfélögum eða ríki, sem þýðir um það bil tvöföldun kostnaðar á hverri meðferð.

Það er oft sagt við okkur, sem höfum staðið í að reka stofnanir fyrir félög, að okkar lága verð byggðist á lélegri þjónustu. En ég fullyrði það, að á Háaleitisbrautinni er ekki um lélega þjónustu að ræða. Þar er um góða þjónustu að ræða. Þar eru svo fullkomnu tæki að meira segja sú sundlaug fyrir fatlaða, sem mikið hefur verið talað um hér í Alþ. að þyrfti að vera viðar, hún er til á Háaleitisbrautinni og hefur verið notuð þar í mörg ár. Og þar eru yfirleitt notuð nýtískutæki til endurhæfingar. Þess vegna er það, að rekstur þessarar starfsemi fyrir lítið fé borið saman við það, sem það kostar almennt, mun byggjast á góðri stjórn og sjálfboðavinnu, en ekki á því að það sé sparað þar sem ekki má spara.

Í öðru lagi vil ég aðeins minnast á það, að þegar þessi fundur hófst í Sþ. átti stærsta stofnun fyrir þroskahefta 25 ára afmæli. Ég hlustaði af tilviljun á yfirlækninn þar tala um ástandið hjá þessari stofnun, og það var hans æðsta ósk, að afmælisgjöfin gæti orðið möguleikar á betri þjónustu við hennar fólk. En hún taldi að þau; sem stjórna því heimili, hefðu árum saman reynt að fá aukna starfskrafta til starfseminnar þar suður frá, en ekki tekist, og vonaði að á þessu yrði ráðin bót nú.

Ég kom hér ekki síst vegna þess, að mér er kunnugt um að enn er ekki búið að ganga frá till. fjvn., eins og ég sagði, og ég held að ég geti fullyrt að því, sem lagt er til endurhæfingarmála, hvort sem það er til venjulegrar meðferðar, hvort sem það er til sundlauga eða annarra þátta endurhæfingarmálanna, þeim peningum er vel varið. Og þótt við séum ekki meðal þeirra þjóða, sem eiga erfiðast í þessum efnum, þá mundum við, ef við hefðum aðstöðu til að hafa okkar endurhæfingarstarfsemi í enn þá betra lagi, geta létt víða undir.