14.12.1977
Efri deild: 25. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1209 í B-deild Alþingistíðinda. (822)

75. mál, launaskattur

Frsm. meiri hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn, hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á l. nr. 14 15. mars 1965, um launaskatt. Meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt, en minni hl. n., þeir hv. þm. Jón Árm. Héðinsson og Ragnar Arnalds, skilar séráliti. Fjarverandi afgreiðslu þessa máls voru hv. þm. Jón G. Sólnes og Albert Guðmundsson.

Þetta frv, er í sjálfu sér ekkert nýmæli og þarfnast ekki skýringa. Breyting, sem gerð er hér frá fyrri frv., er sú að gildistíminn er ekki takmarkaður, í stað þess, sem hefur gilt undanfarin ár, að launaskatturinn hefur verið framlengdur árlega fyrir eitt ár í senn. Hann hefur e.t.v. í upphafi verið hugsaður sem eitt af þeim bráðabirgðagjöldum sem stundum hafa verið sett á, og síðan hefur með árunum komið í ljós að tekjustofninn, sem var bráðabirgðagjald í upphafi, er orðinn ómissandi tekjustofn fyrir ríkissjóð. Ég hygg, að þessu sé þannig varið. Í mínum huga stendur ríkissjóður ekki aðeins frammi fyrir tekjuvandamálum nú, heldur almennum tekjuvanda í framtíðinni, vegna þess að tollar lækka nú árlega samkv. samkomulagi við EFTA. Auk þess er annað bráðabirgðagjald, vörugjald sem sett hefur verið á, orðið þýðingarmikill tekjustofn ríkisins. Ég er ekki svo bjartsýnn að álita að það muni verða unnt í næstu framtíð að leggja niður launaskattinn. Hins vegar gæti vel komið til greina að breyta honum og jafnvel að hækka hann eða lækka hann. Launaskatturinn verkar á vissan hátt eins og brúttóskattur. Hann er ákveðið hlutfall af öllum greiddum launum þótt atvinnurekandi greiði hann.

Meiri hl. n. leggur til að frv. þetta verði samþykkt í þessu formi sem á vissan hátt er nokkur staðfesting á því, að hér sé um varanlegri skatt að ræða en menn ætluðu í upphafi. En eins og fram kemur í nál. minni hl., þá er það einkum þetta sem þeir nm. hafa á móti frv., þótt mér hafi fundist að hafi komið fram að þeir leggi á engan hátt til að skatturinn verði nú felldur niður.