14.12.1977
Neðri deild: 29. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1268 í B-deild Alþingistíðinda. (877)

131. mál, jöfnunargjald af sælgæti, brauðvörum o.fl.

Fjmrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Frv. bað, sem liggur hér fyrir, hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar er því ætlað að styrkja samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar í tilteknum greinum og hins vegar um leið að skapa þann grundvöll, að unnt sé að afnema innflutningshömlur á tilteknum vörum.

Með innheimtu á 40% jöfnunargjaldi af sælgæti og 32% jöfnunargjaldi af kexi er íslenskum iðnfyrirtækjum tryggð hófleg vernd, sem ætlað er að gilda eftir 1. jan. 1980, þegar tollar af þessum vörum hafa að fullu verið felldir niður samkv. samningum okkar við EFTA og EBF. Jöfnunargjaldið á að brúa það bil sem er á milli hráefnisverðs innanlands, einkum mjólkur- og undanrennudufti, og hráefnisverðs erlendis. Slíkt jöfnunargjald hefur fulla stoð í þeim samningum sem við höfum gert við EFTA og EBE, eins og nánar er rakið í aths. með frv., og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér.

Reyndar hafa lönd innan EFTA tekið upp kerfi með breytilegum innflutningsgjöldum, sem eru endurskoðuð með vissu millibili eftir því sem verðlag á innlendum og erlendum hráefnum breytist. Slíkt kerfi hefur hins vegar ekki verið talið fullnægja þörfum íslensks iðnaðar og talið allt of flókið í framkvæmd. Þess í stað er lagt til að tekið verði upp fast jöfnunargjald, sem samsvarar 40% af grunntolli umræddra vara.

Í frv. er gert ráð fyrir að jöfnunargjaldið taki gildi 1. jan. 1978.

Með álagningu jöfnunargjalds munu hækka þau gjöld sem lögð hafa verið á innflutning þessara tilteknu vara að undanförnu. Að sama skapi ætti staða þeirra innlendu iðngreina, sem framleiða þessar vörur, að styrkjast. Sælgætisgerðirnar hafa fengið nokkrar niðurgreiðslur vegna kaupa á mjólkurdufti. Þessar niðurgreiðslur munu að sjálfsögðu falla niður ef jöfnunargjald kemst á. En auk þess er talið að staða þeirra fyrirtækja, sem hér eiga hlut að máli, styrkist svo unnt sé að afnema innflutningshömlur af sams konar vöru erlendis frá.

Ég hef áður gert grein fyrir hvaða áhrif þetta frv., ef að lögum verður, hefur á tekjur ríkissjóðs á árinu 1978.

Að svo mæltu leyfi ég mér, virðulegi forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.