15.12.1977
Neðri deild: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (904)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mjög. Ég stend hér upp fyrst og fremst og reyndar eingöngu til þess að lýsa fullkominni andstöðu minni við þá grein þessa frv. sem víkur að skyldu lífeyrissjóðanna til að verja 40% af ráðstöfunarfé til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum.

Það hefur verið rakið, að 1974 var um það samkomulag gert, að lífeyrissjóðirnir ráðstöfuðu sem svaraði 20% af ráðstöfunarfé sínu til slíkra kaupa, og það liggur fyrir, m.a. hefur því verið lýst hér, að af hálfu lífeyrissjóðanna hefur verið fyllilega við þetta samkomulag staðið. Jafnframt liggur ljóst fyrir að að tiltölulega litlu leyti, ef þá er hægt að segja að nokkru leyti, hafi hæstv. ríkisstj. staðið við loforð sitt sem fram kemur í þessu samkomulagi.

Ég veit ekki hvað á að kalla það athæfi hæstv. ríkisstj., að uppdikta það nú hér á Alþ. síðustu nætur og rétt fyrir jólaleyfi án samráðs við einu eða neinn, sem hlut á að þessu máli lífeyrissjóðanna, að uppdikta það hér að skylda lífeyrissjóði til þess að verja 40% af ráðstöfunarfé til þessa þáttar. Ég á erfitt með að trúa því, að þeir fulltrúar, sem telja má í tengslum við verkalýðshreyfinguna í þingliði stjórnarliðsins, hafi lagt blessun sína yfir þessa ákvörðun hæstv. ríkisstj. Ég er nærri því viss um að þeir hafa ekki léð þessari ákvörðun samþykki sitt.

Hv. þm. Eðvarð Sigurðsson rakti ítarlega þessi mál, m.a.hve illa lífeyrissjóðirnir væru í stakk búnir til að mæta þessu ákvæði, þó að þeir væru allir af vilja gerðir til þess að gera það. Og það er auðvitað alveg rétt, að hinir ýmsu lífeyrissjóðir, a.m.k. innan sambands hinna almennu lífeyrissjóða, eru mjög misjafnlega í stakk búnir til að inna þetta verkefni af höndum. Komið hefur hér fram, að nú koma lífeyrisgreiðslur á þessa sjóði í vaxandi mæli, og hann lýsti því, hvernig sá lífeyrissjóður innan sambands almennu lífeyrissjóðanna, sem er Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar, væri í stakk búinn til að sinna þessu, og það er sá lífeyrissjóður sem ég fullyrði að er langsamlega best settur af þessum almennu lífeyrisjóðum til að geta sinnt verkefni af þessu tagi. Það er ljóst, að með þeim auknu lífeyrisgreiðslum til sjóðfélaga, sem eru orðnar staðreynd, og með því að sinna verður þörfum sjóðfélaga til lána, þá er búið að ráðstafa öllu því fé sem þessi lífeyrissjóður hefur til umráða. Hvað þá með alla hina, sem margir hverjir eru miklu verr settir en þessi tiltekni lífeyrissjóður?

Alveg er augljóst mál að það er ört vaxandi þörf hjá sjóðfélögum hinna ýmsu sjóða að fá þessi lán fyrst og fremst til byggingar íbúðarhúsnæðis. Mikill hluti sjóðfélaga þessara sjóða er kannske fyrst og fremst ungt fólk, og þar er brýn þörf að sinna því verkefni að veita fyrirgreiðslu til byggingar íbúðarbúsnæðis. Það er alveg gefið mál að langsamlega flestir þessara lífeyrissjóða verða, ef af þessari lagasetningu verður, að takmarka að verulegu leyti lánafyrirgreiðslur til eigin sjóðfélaga, fyrir utan það virðingarleysi sem hæstv. ríkisstj. sýnir að dengja þessu á sjóðina án samráðs við einn eða neinn úr þeirra röðum, vitandi um margítrekaðar yfirlýsingar verkalýðshreyfingarinnar og harðorð mótmæli vegna svika hæstv. ríkisstj. á að standa við sinn hluta þess samkomulags sem var gert 1974. Ég veit a.m.k. um þann sjóð sem ég best þekki til, að gjörsamlega vonlaust er að hann geti orðið við kröfu af þessu tagi nema þá því aðeins að til þess yrði ráðstafað verulegum hluta af því ráðstöfunarfé, sem hann hefur yfir að ráða, sem þýddi að það yrði einvörðungu á kostnað sjóðfélaga sjálfra.

Ég tek því undir þá andstöðu og þau mótmæli, sem komið hafa fram við þessu ákvæði frv. Hér er hæstv, ríkisstj, að sölsa undir sig fjármagn, sem hún á engan siðferðilegan rétt til að ná tangarhaldi á. Það er einnig full ástæða til þess að mótmæla sérstaklega þeirri prósentu sem hér er gert ráð fyrir að skikka lífeyrissjóðina til að ráðstafa í þessu tilviki, vegna þess að hvað sem því liður að þetta frv. yrði að lögum. eins og það nú er, varðandi þetta ákvæði, þá verður þetta aldrei gert, einfaldlega vegna þess að engir möguleikar eru á því. Svo er náttúrlega hitt, sem er líka stórt atriði, að hér er verið að skerða stórkostlega völd fólksins sjálfs yfir lífeyrissjóðunum. Hér er verið að afnema umráðarétt þess yfir því fjármagni sem það hefur greitt til þessara sjóða.

Ég er alveg handviss um að það er rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni, að verði þetta gert veldur það sjóðunum miklu meiri erfiðleikum í því efni að innheimta iðgjöld en verið hefur. Það gefur auga leið, að þegar það fyrirkomulag, sem á þessu hefur verið — og fólk hefur fundið sjálft og séð, að þessir fjármunir hafa verið notaðir að verulega miklu leyti í þágu fólksins og þess þarfir á hinum ýmsu stöðum á landinu, — þegar það breytist þannig að þessir sjóðir eru skikkaðir til þess að ráðstafa fé að vild ríkisstj., þá minnkar áhugi þessa fólks á að framfylgja því eftirliti sem þarf með því að iðgjöld séu af hendi leyst.

Ég ítreka svo fyllstu andstöðu mína gegn þessu ákvæði og treysti því, að vitinu verði komið fyrir hæstv. ríkisstj. í þessum efnum, a.m.k. verði málinu ekki hraðað svo í gegnum þingið á þessum síðustu dögum og nóttum, að ekki gefist ráðrúm til að skoða þessa hluti gaumgæfilega og að fá um það umsögn og vitneskju, hvert álit þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, hafa á þessu ákvæði. Ég persónulega efast ekkert um það álit, þykist vita hvert það er. En nauðsynlegt er að ráðrúm gefist til þess að draga það fram áður en af því verður, sem ég vona að verði ekki, að þetta verði lögfest með þessum hætti.