16.12.1977
Efri deild: 30. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1360 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

91. mál, matvælarannsóknir ríkisins

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Frv. til l. um matvælarannsóknir ríkisins hefur verið til umr, á nokkrum fundum heilbr.- og trn. Hér er um að ræða stofnun sem í raun og veru hefur verið að störfum nú í nærri tvö ár, var áður deild í matvælarannsóknum Fiskifélagsins, en vegna aðstöðu þar var ekki hægt að hafa hana þar lengur og þess vegna varð heilbrmrn. að skapa henni nýja starfsaðstöðu.

Þótt þessi stofnun sé nú fámenn og láti lítið yfir sér, þá er ætlast til þess að hún eigi fyrir sér að vaxa og geti skipst í margar deildir, þar sem séu að verki örverufræðingar (matvælagerlafræðingar), matvælaefnafræðingar, dýralæknar, matvælafræðingar og matvælaverkfræðingar ásamt aðstoðarfólki, Það, sem segir um tilgang stofnunarinnar í 3. gr., er þannig:

„Matvælarannsóknir ríkisins skulu undir stjórn heilbrmrh. annast matvæla-, efna- og örverufræðilegar rannsóknir á hvers konar matvælum og neysluvörum vegna heilbrigðiseftirlitsins í landinu. Stofnunin er til ráðuneytis landlækni, Heilbrigðiseftirliti ríkisins, heilbrigðisnefndum og öðrum opinberum aðilum, er um matvælaeftirlit fjalla.“

Í landinu eru til fyrir matvælarannsóknir iðnaðarins, matvælarannsóknir fiskiðnaðarins og matvælarannsóknir landbúnaðarins. Í fyrstu skyldi maður halda að einhver af þessum stofnunum gæti tekið að sér að annast þær þjónusturannsóknir sem hér er um að ræða. En svo reyndist ekki vera, og rn. og Heilbrigðiseftirlit ríkisins leggja mikið upp úr því, að hér verði að verki áfram sérstök stofnun sem annist matvælarannsóknir ríkisins og þá sérstaklega í formi ekki frumrannsókna, heldur sem þjónustustofnun, ekki síst við lækna og við heilbrigðiseftirlitið í landinu.

Í nágrannalöndunum er þetta víða svo, að allar þessar rannsóknastofnanir eru undir einum hatti og heita þá gjarnan Rannsóknastofnanir ríkisins. En þar sem fyrir liggur á næstu árum að endurskoða lög um matvæli og matvælaeftirlit, sem eru frá 1936, þá fannst okkur eðlilegast að samþykkja þetta frv. að mestu efnislega óbreytt, en það yrði svo ákvörðun þeirra aðila, sem endurskoðuðu lögin um matvæli og matvælaeftirlit, hvort þessar stofnanir yrðu að einhverju leyti færðar saman eða ekki.

Varðandi dreifingu rannsóknarmöguleika út um landið hefur hæstv. ráðh. upplýst okkur um það, að rannsóknir úti á landi munu verða unnar eftir sem áður af fiskirannsóknunum eða öðrum rannsóknastofum sem nú þegar eru úti um landið.

N. gerir eina tillögu til breytingar á frv. Það er ekki efnisbreyting, en hún er við 6. gr. – 6. gr. hljóðar svo.

„Nú er öðrum stofnunum eða aðilum falið með sérstökum lögum að annast rannsóknir á matvælum eða neysluvörum, sem þessi lög taka til, og fari fyrirmæli þessara aðila í bága við fyrirmæli þessara laga, skal skjóta ágreiningsmálum til ráðh, til fullnaðarúrskurðar.“

Okkur fannst að þar sem aðrir ráðh. en heilbrmrh. stjórna þeim stofnunum og aðilum sem er falið með sérstökum lögum að annast rannsóknir á matvælum og neysluvörum, þá væri eðlilegra að í staðinn fyrir að hér stæði: „skal skjóta ágreiningsmálum til ráðh. til fullnaðarúrskurðar“, þá stæði: „Skal skjóta ágreiningsmálum til heilbrrh. til fullnaðarúrskurðar“. Og n. gerir brtt. hér um. Að öðru leyti leggur hún til að frv. verði samþykkt óbreytt.